Ágúst Ásgeirsson
agas@mbl.is
Nýsmit kórónuveirunnar hafa rokið upp sem faraldur væri í Rússlandi. Þar hefur þeim fjölgað þrefalt á einni viku. Skýringuna á uppsveiflunni er að finna í svonefndu Delta-afbrigði. Hefur þetta leitt til ýmissa ráðstafana af hálfu Rússa og meðal annars þrengt að áhorfendum á EM í fótbolta sem fram fer í Moskvu.
Alls greindust 9.056 nýsmit í Moskvu á sólarhring þar til í gær, sem er met. Sagði Sergei Sobjanin, borgarstjóri hinnar 12 milljóna manna risastórborgar, að tæp 90% smitanna væru af völdum Delta-afbrigðisins sem fyrst greindist á Indlandi. Hálfum mánuði áður greindust 3.000 nýsmit í Moskvu.
Sobjanin sagði að takmarka yrði samkomuhald og þrengja að umsvifum vegna EM í fótbolta. „Þetta er mér á móti skapi en ekki er um annað að ræða,“ skrifaði borgarstjórinn á heimasíðu sína. „Frá og með deginum í dag verður aðsókn að stórviðburðum takmörkuð við eitt þúsund manns. Við erum að stöðva allar stórsamkomur og verðum líka að loka danshúsum og áhorfendasvæðum.“
Sobjanin varaði við nýrri sýkingarbylgju í fyrradag. „Við höfum ekki séð svona mikinn gang í smitinu. Hann var aldrei svona mikill í fyrri bylgjum,“ sagði hann. Á fundi með veitingamönnum í fyrradag sagði borgarstjórinn að á einungis fimm dögum hefðu 13.000 laus rúm á sjúkrahúsum fyllst. „Þau voru étin upp.“ Í gær voru spítalarúm helguð stríðinu gegn kórónuveirunni orðin 17.000 og ætlunin var að fjölga þeim brátt í 20.000, að sögn Sobjanin.
Hið stóraukna veirusmit á sér stað á sama tíma og Rússar reynast tregir til að láta bólusetja sig. Þótt herferð hafi verið ýtt úr vör í desember og alls fjögur bóluefni verið þróuð og framleidd í Rússlandi; Sputnik V, EpiVacCorona, CoviVac og Sputnik Light – gætir mótþróa við að láta sprauta sig. Aðeins 19 milljónir Rússa af 146 milljónum hafa fengið a.m.k. einn sprautuskammt. Í Moskvu hafa aðeins 1,8 milljónir íbúa af 12 milljónum fengið bóluefni gegn kórónuveirunni. Nýlegar skoðanakannanir sýna að 60% Rússa ætla ekki að þiggja sprautu.