Sigurmark Eyjamenn fagna marki Sigurðar Grétar Benónýssonar.
Sigurmark Eyjamenn fagna marki Sigurðar Grétar Benónýssonar. — Ljósmynd/Sigfús Gunnar
Grindavík er komið í annað sæti 1. deildar karla í knattspyrnu, Lengjudeildarinnar, eftir 3:1-sigur gegn Gróttu á Grindavíkurvelli í gær.

Grindavík er komið í annað sæti 1. deildar karla í knattspyrnu, Lengjudeildarinnar, eftir 3:1-sigur gegn Gróttu á Grindavíkurvelli í gær. Sigurður Bjartur Hallsson skoraði tvívegis fyrir Grindavík sem er með 15 stig í öðru sæti deildarinnar, 6 stigum minna en topplið Fram, en Grótta er í sjöunda sætinu með 8 stig.

*Þórir Rafn Þórisson reyndist hetja Kórdrengja þegar liðið vann 1:0-sigur gegn Þór frá Akureyri á SaltPay-vellinum á Akureyri en hann skoraði sigurmark leiksins í síðari hálfleik. Kórdrengir eru með 14 stig í þriðja sætinu en Þórsarar eru í áttunda sætinu með 7 stig.

*Sigurður Grétar Benónýsson skoraði sigurmark ÍBV þegar liðið vann 1:0-sigur gegn Fjölni á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum en ÍBV er með 13 stig í fjórða sætinu en Fjölnir er í því fimmta með 13 stig.

*Þá skoraði Gary Martin tvívegis fyrir Selfoss þegar liðið heimsótti Aftureldingu á Fagverksvöllinn að Varmá í Mosfellsbæ en leiknum lauk með 3:3-jafntefli. Pedro Vázquez skoraði tvö mörk fyrir Aftureldingu sem er með 6 stig í níunda sætinu en Selfoss er í tíunda sætinu með 5 stig.