Nýjar kynslóðir barna sjá fram á betri framtíð.

Fyrir u.þ.b. viku samþykkti Alþingi nokkur frumvörp sem tengjast því barnaverkefni sem Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra setti af stað í upphafi ráðherraferils síns fyrir tæpum fjórum árum. Verkefni næstu ára er að hrinda þeim lögum í framkvæmd. Og þar með að koma í framkvæmd mestu umbótum í velferðarmálum á Íslandi frá því á fjórða áratug síðustu aldar.

Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með þessu máli frá upphafi. Greinarhöfundur kynntist Ásmundi Einari, sem þá var þingmaður VG, fyrir rúmum áratug á heimili Ragnars Arnalds, fyrrverandi formanns Alþýðubandalagsins. Við þrír vorum að stilla saman strengi okkar í þeirri baráttu sem þá var fram undan um aðild Íslands að ESB. Nokkrum árum síðar kom út bók mín Ómunatíð - saga um geðveiki. Þar er m.a. fjallað um stöðu barna sem eiga foreldri sem þjáist af geðveiki. Skömmu eftir útkomu hennar gaf Ásmundur Einar mér til kynna að hann vissi hvað ég væri að tala um en fór varlega í það.

Smátt og smátt áttaði ég mig á að hann var eitt af þessum börnum sem fjallað var um í bókinni.

Enn liðu nokkur ár en dag einn fyrir tæpum fjórum árum hringdi Ásmundur Einar og sagði: „Ég er að koma út af þingflokksfundi, ég verð ráðherra og ég ætla að gera þetta,“ og dró upp í stórum dráttum mynd af því barnaverkefni sem nú er að verða að veruleika.

Hann var hins vegar ekki þá tilbúinn til að segja frá því hver væri ráðandi þáttur í því en upplýsti það hins vegar í samtali við Morgunblaðið seint á síðasta ári, sem vakti þjóðarathygli.

Lífsreynsla ungs manns á barns- og unglingsárum liggur að baki þeirri víðtæku umbótalöggjöf sem nú er orðin að veruleika. Það eru sennilega ekki mörg mál á Alþingi sem eiga sér slíka forsögu.

Athygli vakti fyrir nokkru, þegar síðasta könnun um vinsældir ráðherra var birt, að Ásmundur Einar skipaði næstefsta sætið á þeim lista, næstur á eftir Katrínu Jakobsdóttur. Ekki er ólíklegt að barnaverkefni hans komi við sögu í mati þeirra sem spurðir voru. Auðvitað gerir fólk sér grein fyrir hve stórt mál er hér á ferð.

Hin víðtækari pólitísk áhrif þessa máls geta svo orðið þau að Framsóknarflokkurinn nái því í fyrsta sinn að festa sig í sessi sem þéttbýlisflokkur. Efniviðurinn er til staðar en það er spurning hvort flokkurinn kann að notfæra sér tækifærið. Fyrsta skrefið hefur þegar verið stigið, sem var að fá Ásmund Einar til að skipta um kjördæmi og bjóða sig fram í Reykjavík.

Víðtæk pólitísk samstaða hefur verið á Alþingi um barnaverkefni Ásmundar Einars og ekki ástæða til að ætla að nokkur breyting verði á því.

Önnur tíðindi úr Framsóknarflokknum eru svo þau að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður flokksins, talaði á flokksfundi fyrir skömmu á jákvæðum nótum um framhald núverandi stjórnarsamstarfs. Það er athyglisvert í ljósi þess að vísbendingar komu fram fyrir allmörgum mánuðum um að Framsókn væri farin að líta til vinstri. Vel má vera að þeir hafi ekki haft erindi sem erfiði en hvað sem því líður er hin opinbera staða nú sú að það byggist á Katrínu Jakobsdóttur og VG hvort framhald verður á stjórnarsamstarfinu að kosningum loknum.

Það er augljóslega pólitískt erfitt fyrir Katrínu á vinstri kantinum að halda þessu samstarfi áfram en það bætti ekki stöðuna að hálendisfrumvarpið náði ekki fram að ganga.

Vinstriflokkarnir hafa engan einkarétt á náttúruvernd. Sjálfstæðisflokkurinn hefur í sextíu ár getað gert tilkall til forystu í þeim málum vegna forystu Birgis Kjarans í þeim málaflokki en ekki kunnað að notfæra sér það.

Nú getur óskiljanleg þröngsýni vegna hálendisfrumvarpsins orðið til þess að það verði mynduð ríkisstjórn á vinstri kantinum eftir kosningar. Og enn er verið að tala um vegagerð yfir hálendið. Þeim málum fjölgar sem geta kallað fram pólitíska uppreisn í landinu.

Ein setning heyrist æ oftar: „Þetta er ekki flokkurinn sem ég gekk í.“ Þetta er hættuleg setning og getur haft víðtækar afleiðingar.

Svo er afstaða sem getur verið varasöm og hún er á þessa leið: „Hvaða bull er þetta í þér. Auðvitað heldur VG áfram. Þetta er langbezti kosturinn fyrir þá.“ Þannig tala þeir sem þjást af tilætlunarsemi. Þeim sem hafa lengi verið við völd er hættara en öðrum við að verða fórnarlömb eigin tilætlunarsemi. Þetta á bæði við um flokka og ættarveldi.

En kannski er það tákn um breytta tíma að fjósamaður úr Dölum verði ráðherra og hafi forystu um einhverjar mestu þjóðfélagsumbætur á Íslandi í áratugi vegna erfiðrar lífsreynslu hans í æsku.

Og kannski byggjum við í betra samfélagi ef fleiri ráðherrar – og þeir eru fleiri í gegnum tíðina – hefðu ákveðið að gera það sama.

Jafnframt er ástæða til að óska barnamálaráðherranum til hamingju með þennan áfanga. Sigur er ekki unninn, þótt áfanga sé náð, og óneitanlega væri skemmtilegt og bezt ef ráðherrann fengi tækifæri til að fylgja málinu eftir.

Tíminn leiðir það í ljós.

En nú er að vaxa úr grasi ný kynslóð barna sem sér fram á betri framtíð en ella hefði orðið.

Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is

Höf.: Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is