Hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu nam 3,9% árið 2020 samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum ferðaþjónustureikninga , samanborið við 8% árið 2019. Þetta kemur fram á heimasíðu Hagstofu Íslands .
Þar segir einnig að heildarútgjöld ferðamanna á Íslandi, íslenskra og erlendra, hafi numið 220 milljörðum króna árið 2020, og drógust saman um 58% borið saman við árið 2019. Komum erlendra ferðamanna hingað til lands fækkaði um 81% á sama tímabili.
Heildarútgjöld íslenskra ferðamanna námu 122 milljörðum króna og drógust saman um 14% frá árinu 2019. Heildarútgjöld íslenskra ferðamanna námu um 56% af heildarútgjöldum ferðamanna á Íslandi árið 2020, samanborið við aðeins 27% af heildarútgjöldum ferðamanna árið 2019.
Heildarútgjöld erlendra ferðamanna námu 98 milljörðum króna árið 2020 og drógust saman um 75% samanborið við árið 2019.