Ragnar Jónasson
Ragnar Jónasson
„Þetta er elsti og áhrifamesti sölulisti Bretlands og allir höfundar vilja komast inn á hann.

„Þetta er elsti og áhrifamesti sölulisti Bretlands og allir höfundar vilja komast inn á hann. Það ætti að segja allt sem segja þarf um það hvílíkur árangur þetta er hjá Ragnari Jónassyni og full ástæða til að óska honum til hamingju,“ segir Pétur Már Ólafsson, bókaútgefandi í Bjarti/Veröld.

Glæpasagan Þorpið eftir Ragnar Jónasson fer rakleitt í fyrstu viku í tíunda sæti metsölulista Sunday Times í Bretlandi yfir innbundin skáldverk en listinn er birtur nú um helgina. Pétur kveðst telja að Ragnar sé fyrsti íslenski höfundurinn sem komi bók inn á topp tíu á metsölulista Sunday Times.

Á toppi listans trónir ný spennusaga sem Bill Clinton og James Patterson skrifa í sameiningu og kom út í vikunni. Ragnar er ekki ókunnur metsölulistum heima og erlendis og er þess skemmst að minnast að í fyrra átti hann um tíma þrjár af mest seldu kiljum Þýskalands, Dimmu, Drunga og Mistur, auk þess sem Dimma var þriðja mest selda kilja ársins 2020 þar í landi.

Eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu hefur Ragnar og Þorpið verið áberandi á síðum The Times og Sunday Times að undanförnu en Þorpið er glæpasaga júnímánaðar í blaðinu. Gagnrýnandi The Times sagði á dögunum að þessi „tíðarandatryllir“ væri „hrikalega grípandi“, Ragnar Jónasson væri skáld hins „dimma og hráslagalega“, skáld „myrkurs, kulda og rigningar“ og að óttatilfinningin sem aðalpersónan gefur sig smám saman á vald í sögunni væri hryllilega smitandi.

Á dögunum birtist ítarlegt viðtal við Ragnar í The Times þar sem blaðamaðurinn sagði að Ísland væri miklu öflugra á sviði glæpasagna en fólksfjöldinn segði til um. Arnaldur Indriðason og Yrsa Sigurðardóttir væru í hópi fremstu glæpasagnahöfunda heims og nú hefði Ragnar Jónasson bæst í hópinn. Með nýjustu bók sinni, Þorpinu, væri Ragnar orðinn ein mikilvægasta röddin í heimi alþjóðlegra glæpasagna.

Sunday Times valdi glæpasögu Ragnars, Dimmu, eina af hundrað bestu glæpasögum sem skrifaðar hafa verið frá stríðslokum. hdm@mbl.is