Sólberg Jónsson fæddist 29. ágúst 1935 í Bolungarvík. Hann lést á Ísafjarðarspítala 8. júní 2021.

Foreldrar hans voru Elísabet Bjarnadóttir húsmóðir, verkakona og bóndi, f. 9.5. 1895, d. 26.8. 1980, og Jón Guðni Jónsson, sjómaður, bóndi og verkstjóri í Bolungarvík, f. 20.1. 1899, d. 5.1. 1958. Sólberg var næstyngstur af sjö systkinum. Systkini Sólbergs voru Friðrik Pétur, f. 1921, d. 1995, Ingibjörg Jóna, f. 1923, d. 2001, Guðmundur Bjarni, f. 1926, d. 1996, Guðrún Halldóra, f. 1928, Georg Pétur, f. 1931, andaðist á fyrsta ári, Karitas Bjarney, f. 1937.

Sólberg kvæntist 19. maí 1956 eftirlifandi eiginkonu sinni Lucie Einarsson, f. 3.9. 1936 í Struer Danmörku. Foreldrar hennar voru Ásgeir Einarsson og Marie Einarsson. Sólberg og Lucie eiga fimm börn. Þau eru: Ásgeir, f. 1955, kvæntur Margréti Gunnarsdóttur. Þau eiga Maríu, f. 1977, Sólberg, f. 1981, Eyrúnu, f. 1991, og sex barnabörn. Bjarni, f. 1956. Hann kvæntist Sólveigu Kjartansdóttur, þau skildu. Þau eiga Eyþór, f. 1987, Önnu Lucie, f. 1989, Elísabetu, f. 1991. Sambýliskona Bjarna, Guðrún Lára Kjartansdóttir, f. 1952, d. 2009. Bjarni á sjö barnabörn. Elísabet Jóna, f. 1958, gift Guðjóni Jónssyni. Þau eiga Vilborgu, f. 1990, Hjörleif, f. 1991, Sólrúnu, f. 1991, og Aðalheiði, f. 1993. Sölvi, f. 1959, kvæntur Birnu Guðbjartsdóttur. Þau eiga Snævar Sölva, f. 1985, Tómas Rúnar, f. 1987, Bergþór Örn, f. 1994, og þrjú barnabörn. María, f. 1963, börn hennar eru Júlíanna, f. 1999, og Aníta Rós, f. 2004.

Sólberg bjó alla ævi í Bolungarvík. Hann rétt náði að ljúka gagnfræðaprófi frá Héraðsskólanum á Núpi áður en hann lagðist inn á Vífilsstaðahæli með berkla. Útskrifaðist hann þaðan rétt fyrir tvítugsafmælið og flutti til Bolungarvíkur og hóf störf á skrifstofu Einars Guðfinnssonar. Hann varð sparisjóðsstjóri hjá Sparisjóði Bolungarvíkur 1961 og gegndi stöðunni til starfsloka árið 2000, jafnframt sá sparisjóðsstjóri um rekstur Lífeyrissjóðs Bolungarvíkur. Sólberg beitti sér ötullega fyrir samvinnu sparisjóða og var einn stofnenda Sambands ísl. sparisjóða árið 1967 og sat í stjórn þess og gegndi ýmsum ábyrgðarstöðum í áratugi. Sólberg sat í stjórn Íshúsfélags Bolungarvíkur, Vélsmiðju Bolungarvíkur og var skoðunarmaður reikninga hjá sveitarfélaginu í mörg ár. Sólberg var einn af þeim sem beitti sér fyrir stofnun Lionsklúbbs Bolungarvíkur árið 1959 og starfaði þar meðan heilsan leyfði.

Jökulfirðir, skógrækt, göngur, skíði og sund seinni árin áttu hug hans allan. Keypti hann jarðirnar Leiru og Kjós árið 1962. Hóf hann skógrækt á jörðunum árið 1964 og tók síðar þátt í skjólskógaverkefni Vestfjarða þar til hann kvaddi. Hann var alltaf opinn fyrir að prófa ný yrki og finna út hvernig best væri að rækta skóg í sælureit þeirra hjóna. Á veturna stundaði hann skíðaíþróttina af kappi, var mættur upp á Dal ef lyftur voru opnar og fór ótal skíðaferðir í Alpana og Dólómítana.

Útför Sólbergs Jónssonar fer fram frá Hólskirkju í Bolungarvík í dag, 19. júní 2021, og hefst athöfnin kl. 14.

Streymt verður frá útförinni. Stytt slóð á streymið:

https://tinyurl.com/3dntnnrf/.

Virkan hlekk á streymi má finna á:

https://mbl.is/andlat/.

Kári segir að það mikilvægasta sem börn geta gert sé að velja sér almennilega foreldra, ég segi að það sama gildi um tengdaforeldra og ég var svo heppinn að eignast þá bestu. Ég hitti tengdapabba fyrst fyrir yfir 40 árum á leið í fyrstu ferðina á Leiru. Leiruferðin var eitt stórt ævintýri og ári seinna var ég tengdur fjölskyldunni og mættur í fyrsta hádegismatinn í Miðstrætinu. Áður en ég var búinn að afhýða tvær kartöflur var Sólberg búinn að borða fiskinn og byrjaður á grautnum sem hann borðaði gangandi í kringum borðið meðan hann upplýsti okkur um gang mála í Víkinni, áður en hann hlustaði á fréttirnar. Þetta var upptakturinn að áframhaldandi samskiptum okkar. Hann var maður framkvæmdanna, hann var laginn við að fá alla til þess að taka til hendinni og hann var alltaf þátttakandi og vann allra mest svo öllum fannst sjálfsagt að vera með. Hann var sparisjóðsstjóri í Bolungarvík og sem slíkur fylgdist hann vel með öllu og var öll uppbygging plássins honum efst í huga. Sælureitur Sólbergs var Leiran og Jökulfirðirnir, og þar áttum við saman óteljandi ánægjustundir. Á þessu svæði höfðum við allt, nóg af berjum, sveppum og silungi. Á Leiru kenndi hann mér borgarbarninu að leggja net og veiða silung og fóru ófáir tímar í þessa iðju okkar. Skógrækt átti hug hans allan á sumrin. Erfitt var að stunda skógrækt á Leiru, en landið er ekki frjósamt. Það var til lausn á því, sem sérfræðingarnir í skógræktinni ráðlögðu, blessuð lúpínan. Eins og við var að búast tók tengdapabbi þessu ráði með trompi. Hann átti stærsta lúpínuskóg norðan Djúps. Á Leiru lærði ég að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi. Þó að Sólberg hafi verið með skerta lungnavirkni vegna berkla sem að hann fékk sem ungur maður, gat hann verið þindarlaus og þreyttist hann ekkert á löngum göngutúrum um landareignina. Við fylgdumst með breytingum Drangajökuls, óðum jökulárnar án vandræða. Verkefnin voru endalaus, breyttum árfarvegum með stunguskóflum, byggðum skemmur, hrútakofa og virkjun. Slógumst við jökulána, notuðum stórvirk tæki sem voru flutt á svæðið, ekkert verkefni of stórt, aðeins hugsað í lausnum og framkvæmt. Og ekki má gleyma að allir voru með. Barnabörnin elskuðu afa sinn og fengu frá fæðingu að taka þátt í ævintýrunum á Leiru og fylgja honum eftir á skíðum út um allt. Þau voru rétt farin að ganga þegar þau fylgdu afa sínum, sulluðu í jökulánni og nutu samverunnar. Ég á eftir að sakna stundanna okkar þar sem við vökvuðum lífsblómið og leystum öll vandamál heimsins. Slagurinn við elli kerlingu var nokkur erfiður síðustu árin og þrekið minnkað, ekki síst vegna innilokunar í covidinu. Minn maður hafði alltaf hlutverk, gætti hennar Lucie sinnar og skráði dagbók. Eins og hans var von og vísa endaði hann þessa tilvist með stæl, kláraði að skrifa í dagbókina kl. 10 og skildi við þessa veröld þremur tímum síðar. Ég votta tengdamömmu og tengdafólki samúð mína.

Guðjón Jónsson.

Það fyrsta sem kom upp í huga mér þegar elsku afi féll skyndilega frá var þakklæti. Ég er svo þakklát fyrir að hafa notið samveru hans og umhyggju fyrir mér og mínum. Þakklát fyrir að ungi Bolvíkingurinn sem barðist við skæða berkla á Vífilsstöðum hafi kynnst ævintýragjörnu dönsku starfsstúlkunni. Þakklát fyrir að hún hafi viljað setjast að í Bolungarvík, óraveg frá Jótlandi og fjölskyldu sinni.

Þarna hófst ævintýrið sem ég hef verið hluti af. Sögusviðið spannar allt frá Leirunni að Ölpunum og inn í þetta tvinnast Volvoar, bátar, margar kynslóðir af skíðapörum og kvöldlognið á Leirufirði. Undir ómar alpajóðl í bland við vælið í lómnum og gaggið í tófunni.

Minningarnar eru ótal margar og lærdómurinn er mikill. Afi kenndi mér að róa, við tvö úti á Leirufirði. Það var auðvitað ekki bara róðrarkennsla heldur einnig æfing í þrautseigju og vinnusemi. Við vorum líka skíðafélagar. Elsta barnabarnið naut góðs af því að fara ein með afa upp á Dal áður en öll hersingin af barnabörnum kom í fjölskylduna. Fékk bingóstöng og pylsu eftir túrinn, mátti ekki segja ömmu. En auðvitað vorum við þá búin að skíða fyrir andvirði kortsins, aldrei færri en átta ferðir sama hvernig viðraði. Mér fannst við frábær saman.

Þegar afi fór í árlega skíðaferð erlendis þá fékk hann þjónustu líkt og atvinnumenn á heimsmælikvarða eiga að venjast. Reyndar var sú þjónusta alla daga, allan ársins hring. Fylgdarliðið var þó mun fámennara en hjá atvinnumönnum en síst afkastaminna. Eins manns herinn hún amma sá til þess að hann fékk hollt að borða alla morgna, hvíld til endurheimtar og hreint sett af dressi við hæfi. Morgunverðardress, skíðadress, kvöldverðardress og ferðadress. Já þau eru mörg dressin sem koma upp í hugann þegar ég hugsa til baka. Bátadress, sparisjóðsdress, Leirudress, ullardress og jóladress. Sum dress duga þó ævina út eins og brúni sloppurinn merktur Vélsmiðjunni, honum fylgir pensill og blá derhúfa með eyrnaleppum. Enda ástæðulaust að endurnýja það sem virkar.

Afi átti allt til alls. Þótt veraldlega hluti hafi ekki skort þá var það fjölskyldan sem var hans aðalfjársjóður. Umhyggjan fyrir okkur barnabörnunum og síðar langafabörnunum var ómetanleg. Alltaf áttum við skjól hjá ömmu og afa og alltaf var pláss á eldhúsbekknum. Alltaf tími fyrir einn Rakka eða froskabrandara og aldrei tæmdist rauði Ópalpakkinn.

Nú er einum kafla ævintýrsins um Lucie og Sólberg lokið og næsti tekinn við. Elsku amma mín, án þín hefði þetta ekki orðið svona eftirminnilegt og missir þinn er mikill. Eflaust er nóg að gera hjá okkar manni núna. Kannski er einhver bátsbotn sem þarf að mála eða tvær til þrjár plöntur sem þarf að pota í jörð.

María.

Þá hefur Sólberg afi kvatt þessa jarðvist og er þá skarð fyrir skildi. Við bræðurnir þekkjum ekki tilveruna öðruvísi en að afi hafi verið hluti af henni og á uppvaxtarárum okkar í Bolungarvík var hann stór stærð. Ein fyrsta minningin sem kemur upp í hugann var þegar afi fékk Stöð 2 á Miðstrætið og var okkur bræðrunum tjáð að hann væri sá fyrsti í víkinni. Það var rafmögnuð stund þegar við störðum á svartan myndlykilinn í sjónvarpsholinu og engu líkara en afi hefði fundið hið heilaga gral. Í framhaldinu lögðum við leið okkar til ömmu og afa hvern sunnudag svo við gætum barið helgidóminn augum og var okkur ávallt höfðinglega tekið.

En það var ekki einungis á helgidögum sem afi varði tíma með barnabörnunum sínum heldur naut hann þess við hvert tækifæri. Án efa eru stundirnar með ömmu og afa í Leirufirði minnisstæðastar. Þar fengum við krakkarnir að dvelja með þeim dögum saman, sumar eftir sumar, og var sá tími draumi líkastur. Á Leiru, eins og paradísin hans afa var kölluð, hlupum við um frjáls eins og í ævintýri. Klifrað var í klöppinni neðan við húsið, veiddur silungur á stöng, róið á hvíta árabátnum upp jökulána, vaðið í sjónum og stappað í leirnum á fjöru, ömmu til mikillar ánægju þegar farið var að ganga á fatabirgðirnar. Í kvöldroðanum vitjuðum við netanna með afa og fórum jafnan í langa göngutúra með smurt nesti þar sem lærisveinarnir voru fræddir um landið og náttúruna. Afi var ávallt með vasaklút á sér ef snýta þyrfti mannskapnum og eftir því sem árin liðu fjölgaði hausunum sem þurfti að sinna í þeim efnum. Eitt sumarið þegar barnafjöldinn var á barmi þolmarka og grængulir taumarnir komnir niður að höku í öðru hverju andliti eftir bátsferð í svölum mótvindi, hafði útsjónarsami sparisjóðsstjórinn á orði: „Mikið vildi ég óska þess að ég ætti utanborðsmótor sem gengi fyrir hor.“

Afi elskaði að fara með okkur krakkana á skíði og lá leiðin oftar en ekki inn á Ísafjörð. Staðalbúnaðurinn í hvíta Grand Cherokee-jeppanum var rauður Opal, Californiu-rúsínur og hljóðsnældur með Tíról-tónlist sem hann hafði keypt í skíðaferðunum ytra. Óhindrað fengum við að ganga í sjóðinn og hló afi hástöfum þegar smávaxnir farþegarnir byrjuðu að jóðla með fullan munninn af sælgæti. Ekki þótti okkur verra þegar hann bauð fermingarbarni hvers árs út með sér á skíði og var ekki laust við að maður væri smá montinn að eiga afa sem gat skíðað niður brattar brekkurnar eins og unglingur, allt fram á níræðisaldur.

Eftir því sem árin færðust yfir minnkaði geta til stórra athafna en ungur var afi í anda fram á síðasta dag og þótti fátt skemmtilegra en að vera með unga fólkinu og fá fréttir af því hverjir voru að trúlofast. Hann skrifaði í dagbók á hverjum degi og gerði áætlanir fyrir trjágróðursetningar sumarsins á Leiru. Í því áhugamáli steig sannur andi hans fram og orð indversks skálds rifjast upp: „Sá sem plantar trjám, vitandi að hann mun aldrei njóta ávaxta þeirra, er byrjaður að skilja tilgang lífsins.“

Snævar Sölvi Sölvason, Tómas Rúnar Sölvason og Bergþór Örn

Sölvason.

Elsku afi.

Ég get varla trúað því að þú sért farinn. Það eru bara tvær vikur síðan við hittumst og vorum að spjalla um að fara saman á Leiru seinna í sumar.

Þú varst slappur en ég fór fullviss um að þú myndir jafna þig. Þú gerðir það alltaf.

Þú varst frábær afi. Þú last fyrir okkur barnabörnin, lékst við okkur, við fórum saman á Leiru, að sigla, á skíði. Þú kenndir mér að meta jóðl og landgræðslu. Þú kenndir mér að standa með mínu og varst einn minn helsti stuðningsmaður. Fleyg voru orðin þín fyrir fimm árum þegar þú sagðir að það væri gott að hafa mig sem hjúkrunarfræðing þegar þú kæmist á efri árin. Áttræður varstu auðvitað ekki komin á þau enn!

Elsku afi, ég sakna þín svo mikið. Sakna spjallsins við þig, Leiru-ferðanna, samverunnar og allra litlu hlutanna sem gerðu þig að besta afa sem ég get ímyndað mér.

Ég ætla að hætta núna, þú eyddir hvort eð er aldrei rosalegum tíma í lestur, þú varst alltaf með milljón hugmyndir sem þú vildir koma í gagnið sem fyrst og ég býst við að það sé eins á nýjum stað.

Ég elska þig.

Anna Lucie.

Elsku afi.

Síðustu daga höfum við hugsað mikið til þín og erum ótrúlega þakklátar fyrir allar þær skemmtilegu stundir sem við höfum átt með þér.

Eitt af því fyrsta sem kemur upp í hugann eru allar okkar ómetanlegu stundir á Leirunni, þar sem við eyddum dögunum í fjallgöngum, endalausum leikjum og höfðum gaman. Þú gerðir allt fyrir okkur, bjóst jafnvel til golfvöll þó að nánast enginn úr ættinni spilaði golf. Fyrsta skotið var yfir jökulána, og þar sem flest okkar kunna ekkert í golfi týndum við nánast öllum kúlunum á fyrsta degi. Þú kenndir okkur líka að vinna á Leiru en við eyddum ótal dögum í að gróðursetja tré með þér, mála húsin og pallinn, steypa nýjar stoðir, smíða útvegg og jafnvel að handsteypa stíflu. Þrátt fyrir vinnuna fundum við alltaf tíma til að borða harðfisk með þér, spjalla og að fara í netin.

Eitt af því skemmtilegasta sem við gerðum þegar við komum vestur til ykkar ömmu var að vakna eldsnemma til að fara með þér í morgungöngutúr um höfnina. Það sem amma, mamma og pabbi vissu ekki er að við fengum alltaf nammi eða ís (og auðvitað Opal) í göngunni og við gerðum samkomulag við þig um að allt ætti að vera búið áður en við kæmum til baka í Miðstrætið. Í hvert skipti sem við komum vestur til ykkar vorum við alltaf velkomin og þið hugsuðuð svo vel um okkur. Þú sást til þess að það var alltaf til nóg af gosi og snakki þegar við komum.

Við hugsum líka til allra skíðaferðanna með þér, bæði innanlands og í Austurríki og Ítalíu. Í Austurríki og Ítalíu skíðaðirðu með okkur út um allt og auðvitað var allur dagurinn nýttur. Okkur leiddist heldur aldrei að vera með þér í lyftum þar sem við spjölluðum saman yfir Opal. Í hvert skipti sem við fórum vestur að keppa á skíðum varstu alltaf mættur fyrstur í brekkurnar og fórst ekki fyrr en allar lyftur voru lokaðar. Þú minntist einnig á það við alla að barnabörnin þín væru að keppa.

Það var alltaf svo gaman að vera með þér og við hlógum mikið saman en þú komst oft með svo fyndnar athugasemdir. Eins og þegar þú minntist á að mamma væri svo morgunstirð á skíðum (þó svo að hún væri maraþonhlaupari). Við hlógum líka lengi yfir því þegar þú minntist á að pabbi gæti ekki orðið góður á skautum því að hnén hans voru ekki það góð (þegar pabbi hefur aldrei farið á skauta). Þú varst líka fyrstur með allar fréttir og alltaf gaman að heyra allt sem hafði gerst. En þú varst ekki bara fyndinn heldur alveg frábær afi og varst alltaf að hugsa um okkur. Lýsandi dæmi er að síðustu ár spurðirðu okkur í hverju símtali eða heimsókn hvernig við hefðum það og ef okkur vantaði eitthvað gætum við ávallt leitað til þín og ömmu.

Elsku afi, við munum sakna þín mikið en fyrst og fremst erum við svo ótrúlega heppnar að hafa átt þig sem afa. Þínar

Vilborg, Sólrún og

Aðalheiður.

Elsku Sólberg afi. Þú varst besti langafi í heimi. Öllum þykir svo vænt um þig. Það hefði verið gott að hitta þig einu sinni í viðbót til að kveðja þig.

Það var gaman að fara með þér á skíði. Þú varst svo fjörugur og skemmtilegur, góður og umhyggjusamur. Þú gafst okkur alltaf kók og Milka-súkkulaði þegar maður kom til þín. Afmælið þitt á Leiru var svo skemmtilegt. Takk fyrir að gera Leiruna, þennan flotta stað. Ég á svo margar minningar þaðan. Ég er mjög þakklát fyrir allar skemmtilegu og yndislegu stundirnar sem ég átti með þér. Og elsku Lucie amma, þú varst góð við hann afa og rosa góð við alla í kringum þig. Vona að þú munir eiga góðan tíma hér á jörðinni áður en þú ferð til afa og þið byrjið að dansa og hafa gaman saman.

Þín

Ásta Ninna.

Sykrið, ekki sykurinn, heyrumstumst og sjáumstumst. Vestfirðingar hafa alla tíð verið stórfurðuleg mikilmenni, Sólberg afi minn var þar engin undantekning.

Ég vann nokkur sumur hjá afa við skógrækt og viðhald í Leirufirði. Til viðbótar við erfið veðurskilyrði í Leirufirði þá er mjög erfið aðkoma vegna þess að á fjöru fellur hálfur fjörðurinn út og breytist í leirur. Smá hafalda frá Grænlandi, snjór og kuldi stöðvaði afa aldrei. Skóg skyldi rækta og til þess notuð öll tól og tæki. Tonn af finnskri mold, nóg af áburði ásamt tugþúsundum ungra trjáa af margvíslegum toga voru flutt með bátum. Landið skyldi lesið og hentug svæði fundin. Aðferðir þróuðust með árunum og ótrúlegt þykir mér enn að sjá hvað sum trén hafa náð að dafna.

Afi var alltaf stórtækur í öllu sem hann tók sér fyrir hendur og hafði alltaf nóg fyrir stafni. Höfðinglega var tekið á móti vinum og ferðalöngum. Lucie amma var ómetanlegur hluti af þessum ævintýrum. Til viðbótar við skógrækt þurfti að smíða viðbyggingar, reisa stíflu og varnargarða. Allt til þess að skapa paradís handa afkomendum. Framkvæmdir í bland við harða og stórbrotna náttúru var paradísin mín. Allt var þetta drifið áfram af bakveikum ellilífeyrisþega. Auðvitað var stundum skotið aðeins of hátt. Við reyndum við golfvöll og sundlaugin endaði á teikniborðinu. Að ég tali ekki um hina alræmdu vegagerð sem átti sér stað í firðinum, þegar vegspotta var bætt við fjallveg á jörðinni, niður í sjálfan fjörðinn. Pjakkurinn ég var látinn sjá um eldamennskuna fyrir afa og Hjalta ýtukarl, forsoðnar kjötbollur og 1944-rétti. Þeir fengu kaldan mat, ódrekkanlegt kaffi og mulning hjá kokkinum, sem eitt sinn voru samlokur þar sem ég hafði notað bakpokann sem kodda. Móttökur ömmu við komu á Leiru og almennileg máltíð varð að himnasendingu. Latteliðið á Ísafirði ákvað þó að veginum skyldi fargað. Ekki af þeirri ástæðu að þetta var án efa hættulegasti vegur landsins heldur vildu þeir gera jörðina að friðlandi. Hefðu þeir sömu jafnt sem aðrir fengið höfðinglegar móttökur ef þeim hefði dottið í hug að heimsækja fjörðinn. Afa var samt létt þegar hann var sýknaður af kæru vegna slóðagerðar.

Best var alltaf ástæðan sem þú gafst mér fyrir öllum þessum framkvæmdum. Þú værir orðinn svo gamall og þyrftir því að nýta tímann vel. Aldrei sást aldurinn á verklaginu þar sem aðeins þú, afi, hefðir komið jafn miklu í verk. Þú varst kominn á áttræðisaldurinn þegar við grófum skurði undir allt húsið til að bæta við grunnstoðum. Einu skiptin sem aldurinn virtist í raun hrjá þig voru þegar þú varst að tapa í rakka, þá var ég að níðast á gamalmenni.

En nú ertu fallinn frá, blessaður. Ég mun alla tíð minnast þeirra óteljandi ævintýra sem við áttum saman. Litlu sigrarnir voru ómetanlegir og allar góðu stundirnar með þér og ömmu í öllum skíðaferðunum.

Þótt að þar sé fjall við fjall

og fátt um gróður bestan,

þá er margur kjarnakarl

kominn þaðan að vestan.

Þar á meðal þú, afi, og sjálfur Jón Sigurðsson.

Hvíl í friði, þess óskar þinn vinur og barnabarn,

Hjörleifur (Hjölli).

Sólberg móðurbróðir okkar er fallinn frá, stórhuga maður með óstöðvandi bjartsýni og eljusemi sem lét ekki rysjótt veðurfar og grýttan jarðveg hindra sig í fyrirætlunum um að byggja fagran skóg innst inni í Jökulfjörðum, þar sem varla finnst stingandi strá. Hríslunum sem hann plantaði vegnar misvel, en annað verður sagt um fræin sem hann sáði með umhyggju og ástúð við fjölskyldu og vini sem syrgja hann sárt í dag.

Sólberg og móðir okkar voru einstaklega náin og ávallt mikill samgangur milli fjölskyldnanna. Foreldrar okkar gerðu upp gamalt hús við hliðina á Sólberg og fjölskyldu í Bolungarvík fyrir þremur áratugum og dvöldu þar sumarlangt og jók það samganginn enn frekar. Sólberg var sameiningartákn samheldinnar stórfjölskyldu okkar, fylgdist af áhuga með lífshlaupi okkar allra stórra og smárra og tók öllum fagnandi.

Sólberg var fjölskyldumaður í svo miklu dýpri merkingu en venjulega er lagt í það orð. Þau Lucie byggðu sér sumardvalarstað á afskekktum stað í Leirufirði, þangað sem aðeins er fært á bát eða fótgangandi. Það skal ósagt látið hvort það hafi verið einskær framsýni hans eða skyggnigáfa að byggja sér bústað þar sem útilokað væri að nokkurn tímann yrði hægt að fá gsm- eða netsamband. En hvað sem því líður þá tryggði hann með þessu staðarvali að fjölskyldumeðlimir nytu samvista hver við annan í stað þess að hver grúfði sig yfir sitt snjalltæki.

Við systkinin eigum öll góðar minningar frá Leirunni. Fyrstu árin var eldað á kolaeldavél og vatn sótt í fötu í nærliggjandi læk. Nú er búið að virkja, kominn ísskápur, sími og heitt og kalt vatn í krana. Alltaf er nóg að gera enda þau hjónin stórhuga og endalausar framkvæmdir í gangi. Við nutum ævintýraheims Leirunnar með fjölskyldunni, veiðandi silung og tínandi ber, í skemmtilegum gönguferðum í nærliggjandi firði eða uppi á Drangajökli.

Það var aðdáunarvert hvernig Sólberg og Lucie sameinuðu fjölskylduna í áhugamálum. Sólberg var mikill útivistarmaður og elskaði gönguferðir og skíði og þau hjónin fóru árlega í skíðaferð á meginlandi Evrópu eða til Norður-Ameríku. Börn og barnabörn voru með í skíðaferðum þar sem þau nutu samvista við afa sinn og ömmu.

Elísabet naut þess í tvö skipti að skíða með honum og fjölskyldu í ítölsku Ölpunum. Þar sveif hann niður hlíðarnar, skíðakonungur Bolungarvíkur í öllu sínu veldi, alltaf með nýjustu græjur og klæddur í nýtísku skíðafatnað.

Sólberg var ungum falið að stýra Sparisjóði Bolungarvíkur sem var mikið ábyrgðarstarf á þeim tíma þegar uppbyggingin var sem mest og útgerðin í blóma. Hann sinnti því af miklum skörungsskap og af umhyggju fyrir samfélaginu og íbúum þess. Lucie var kletturinn sem aldrei brást. Hún fylgdi honum og studdi hann í starfi og áhugamálum sem enginn hefði betur gert. Móðir okkar Guðrún Halldóra er þeim hjónum ævinlega þakklát fyrir þeirra tryggð og umhyggju. Við systkinin vottum Lucie, börnunum og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúð vegna fráfalls stórkostlegs manns.

Megi minning Sólbergs frænda lifa.

Halldór Jón, Einar Garðar, Gísli Jón, Elísabet og Hilmar Garðar.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

(Valdimar Briem)

Í dag kveðjum við Sólberg föðurbróður okkar.

Við fjölskyldur bræðranna Sólbergs og Guðmundar Bjarna pabba okkar ólumst upp í nánu samneyti á Miðstræti í Bolungarvík. Amma okkar og afi, Elísabet Bjarnadóttir og Jón Guðni Jónsson, reistu sér hús af miklum myndugleik sem þau nefndu Sólberg. Nokkrum árum síðar fæddist þeim sonur sem þau nefndu þessu sama fallega nafni.

Sólberg veiktist af berklum 17 ára gamall og dvaldi á Vífilsstaðaspítala í tvö ár. Hann sigraðist á þeim illvíga sjúkdómi og kom það sér vel hversu hraustur hann var. Á Vífilsstöðum hitti hann stúlku sem varð hans lífsförunautur. Hin unga, fallega og dugmikla Lucie Einarsson hafði komið frá Danmörku til að kynnast landi föður síns, Ásgeirs Einarssonar frá Arnardal í Skutulsfirði. Sólberg og Lucie felldu hugi saman, hófu búskap í Bolungarvík og eignuðust fimm börn. Fyrir skömmu fögnuðu þau 65 ára brúðkaupsafmæli.

Þegar afi dó fluttist fjölskylda okkar í húsið Sólberg, en Sólberg og Lucie byggðu hús við hliðina fyrir sína fjölskyldu og var íbúð fyrir Betu ömmu niðri hjá þeim. Þar bjó hún í góðu yfirlæti og var það ómetanlegt fyrir okkur barnabörnin að alast upp í svo nánu samneyti við hana.

Sólberg, Lucie, pabbi og mamma bjuggu því hlið við hlið á Miðstrætinu og ólu þar upp allan sinn barnaskara. Í þessari nánu sambúð ríkti góð vinátta og hlý fjölskyldutengsl alla tíð. Pabbi og Sólberg hittust fyrir utan húsin sín þegar þeir skruppu heim í hádegismat og ræddu saman. Sólberg kom einnig oft á kvöldin inn á Sólbergi ef þurfti að ræða einhver mál. Þegar þeir bræðurnir höfðu rætt saman einslega var komið fram og drukkið kaffi og spjallað. Þegar pabbi dó reyndust Sólberg og Lucie mömmu okkar ómetanlega vel og vináttan hélst allt til enda.

Lucie og Sólberg festu snemma kaup á landi Leiru í Leirufirði og vörðu þar flestum sínum frístundum Þar bjuggu þau fjölskyldu sinni einstakan sælureit fjarri ys og þys alheimsins. Á Leiru naut Sólberg sín til hins ýtrasta og fékk þar útrás fyrir framkvæmdagleði sína og útsjónarsemi. Við framkvæmdirnar naut hann dyggs stuðnings afkomenda sinna.

Sólberg var athafnamaður og mikil félagsvera. Hann stundaði útivist og naut þess að vera á skíðum. Hann var manna hressastur og naut sín vel í félagsskap. Hann átti auðvelt með samskipti og var umhugað um samferðafólk sitt.

Sólberg var alvöru hetja og töffari allt til enda lífs síns og kraftur hugans óendanlegur þrátt fyrir að líkaminn færi að þreytast og veikjast.

Sólberg hefur alla tíð reynst okkur systkinunum á Sólbergi einstaklega vel og mikil vinátta á milli okkar allra. Teljum við okkur vera einstaklega lánsöm að hafa alist upp og lifað í hans návist.

Við viljum þakka fyrir vináttu og hlýhug, ekki síst við foreldra okkar og sendum okkar dýpstu samúðarkveðjur til Luciear, Ásgeirs, Bjarna, Betu Jónu, Sölva, Maríu og fjölskyldna þeirra.

Systkinin frá Sólbergi,

Björg, Elísabet, Ása,

Jón Guðni, Ragna

og Ingibjörg.

Kær móðurbróðir minn er fallinn frá. Hann hefur fylgt mér alla ævi og reynst mér og mínum alveg einstaklega vel. Alltaf boðinn og búinn að hjálpa og standa með mér í öllu sem ég hef tekið mér fyrir hendur og fyrir það ber að þakka.

Sólberg var iðjusamur og sívinnandi, höfðingi heim að sækja, einstaklega gestrisinn og greiðvikinn en ekki síður velviljaður og umhyggjusamur. Ég sit hér á Skriðu og ótal minningar um frænda minn koma upp í hugann. Allar eru þær jákvæðar því Sólberg og reyndar öll móðursystkini mín eru með jákvæðara fólki sem ég þekki. Á Skriðu á Sólberg mörg handtökin. Hann setti niður plöntur og á heiðurinn af þeim vísi að skógrækt sem hér er. Hann var aðalhvatamaðurinn að því að foreldrar mínir reistu sér athvarf hér, tók þátt í byggingarframkvæmdum þegar þær hófust og fylgdist með öllu alveg fram á síðasta dag. Hann kom oft, stundum daglega, samgladdist og hvatti til dáða.

Sólberg eignaðist jarðirnar Leiru og Kjós í Leirufirði og byggði þar myndarlegan sumarbústað, svo ekki sé meira sagt, og þar hefur hann brasað við áhugamál sitt, skógrækt og jarðabætur, af einstakri eljusemi. Við Sigga vorum svo heppin að fá að dveljast á Leiru í brúðkaupsferð okkar og tuttugu árum seinna buðu þau Lucie okkur og strákunum í nokkurra daga heimsókn á Leiru og þá var nú dekrað við okkur.

Lífið var frænda mínum ekki alltaf auðvelt. Erfið veikindi í æsku og nokkur áföll síðar komu þó ekki í veg fyrir að hann skapaði sér gæfuríkt líf. Sólberg kynntist Lucie sinni ungur á Vífilsstöðum, þar sem hún annaðist hann berklasjúkan, og síðan hefur hún sinnt honum og allri fjölskyldunni. Það er ekki hægt að minnast Sólbergs öðruvísi en að tala um Lucie í sömu andrá, svo samrýmd hafa þau verið í lífi sínu. Saman fluttu þau vestur og hófu búskap, bæði vel innan við tvítugt, og börnin voru orðin fjögur þegar Lucie var 22 ára en fimmta barnið bættist við fáum árum síðar. Það hefur örugglega reynt vel á þrek, úthald og þolinmæði ungu hjónanna. Lucie og Sólberg hafa alltaf verið einstaklega samstiga í verkefnum og verkaskiptin hafa verið skýr. Hjá þeim hefur verið mikilvægast að vera til staðar, sinna sínu fólki og láta gott af sér leiða. Í umhyggjuradíus þeirra hafa þó ætíð verið miklu fleiri en afkomendurnir og fjölskyldur þeirra.

Sólberg var sparisjóðsstjóri í 39 ár og rak sparisjóðinn allan þann tíma með hagnaði. Hann lagði metnað sinn í að hafa alltaf sem flest stöðugildi því hann leit á það sem samfélagslega skyldu að skaffa sem flestum atvinnu. Hann var af þeirri kynslóð manna sem ekki töldu nóg að vera hluti af samfélagi heldur þyrfti maður að taka þátt í að skapa það og það gerði hann svo sannarlega með þátttöku í félagsstarfi og með því að vera góð fyrirmynd. Það má því með sanni segja að hann hafi verið máttarstólpi í samfélagi sem hann valdi að eyða ævinni í. Blessuð sé minning Sólbergs Jónssonar.

Elsku Lucie, Ásgeir, Bjarni, Beta, Sölvi, María og fjölskyldur,

megi allar góðar vættir vernda ykkur og styrkja á þessum erfiðu tímum.

Jón Ingi og Sigríður Helga.

Sólberg Jónsson móðurbróðir minn er genginn inn í dýrðina eilífu eftir farsælt og viðburðaríkt líf. Þegar ég var lítil var mér umhugað um hver yrðu mamma mín og pabbi ef foreldrar mínir myndu deyja. Það var ekki spurning í mínum huga að Sólberg yrði pabbi minn og Imba, Ingibjörg Jóna, móðursystir mín, yrði mamma mín. Það skipti mig engu máli sú staðreynd að þau voru systkini en ekki hjón og áttu heima sitt á hvoru landshorninu. Þau voru þær manneskjur sem ég treysti best í lífinu fyrir utan foreldra mína.

Móðir mín Kaja og Sólberg voru langyngst systkinanna á Sólbergi í Bolungarvík. Þau voru mjög náin og alla tíð var órjúfanlegur strengur þeirra á milli. Það má segja að þessi strengur hafi ekki slitnað á milli kynslóða en börn Sólbergs og Lucie eru mitt og minna nánasta fólk. Þegar Sólberg var 10 ára bauðst honum að fara í sveit til Hesteyrar í Jökulfjörðum til sæmdarhjónanna Sigrúnar Bjarnadóttur og Sölva Betúelssonar, sem þá vantaði dugmikinn strák til að aðstoða við sveitaverkin. Mömmu, þá 8 ára, þótti óréttlátt að Sólberg færi og ekki hún og linnti ekki látum fyrr en hún fékk að fara þótt ljóst væri að það væri ekki mikið lið í henni. Hvað um það, þau Sólberg vörðu næstu sumrum með Nabba og Rúnu. Þar mynduðust ævilöng tengsl og kærleikur sem meðal annars leiddi til þess að systkinin skírðu börnin sín í höfuðið á gömlu hjónunum en það erum við Sölvi Rúnar Sólbergsson og undirrituð Sigrún Hauksdóttir.

Ég naut þeirrar gæfu að fá að vera langdvölum í Bolungarvík á sumrin sem barn og fram á fullorðinsár. Þá dvaldist ég bæði hjá Sólberg og Lucie og Guðmundi Bjarna móðurbróður mínum og Fríðu á Sólbergi. Húsin eru hlið við hlið svo ekki skipti miklu fyrir mig á hvoru heimilinu ég gisti. Á báðum þessum heimilum var mikil formfesta í öllu heimilishaldi. Það var enginn sveigjanleiki á matmálstímum og alltaf tvíréttað. Hjá flestum í Bolungarvík var sest niður til hádegisverðar á slaginu tólf en ekki hjá Sólberg og Lucie, þar settumst við niður korter yfir þar sem Sparisjóðurinn var opinn lengur til að bjóða upp á nauðsynlega þjónustu.

Sólberg var ríkur. Hann átti Lucie og þau áttu langt og farsælt líf saman. Þau áttu fimm börn og mörg barnabörn og barnabarnabörn. Sólberg hélt vel utan um hópinn sinn á einstakan hátt enda hafði hann einlægan áhuga á lífinu og var mjög forvitinn um menn og málefni. Sólberg átti leynivopn. Hann átti Leiru, paradísarreit fjölskyldunnar í Leirufirði. Leiran er ekki venjulegur sumarbústaður. Leiran er kröfuhörð, hún krefst bæði vinnu og fjármagns. Þrátt fyrir endalausar vinnustundir við bát, bústað, skógrækt og tilraunir við að hemja Jökulána sameinaði Leiran fjölskylduna. Sólberg fannst gaman að vinna og plana og var stórhuga. Ferðir á Leiru voru meiriháttar verkefni þar sem Sólberg og Lucie unnu sem einn maður. Með þakklæti reikar hugurinn til minna Leiruferða sem standa upp úr minningunum eins og skínandi gull.

Elsku Lucie og fjölskylda, ég votta ykkur mína innilegustu samúð.

Minning um góðan mann lifir.

Ykkar

Sigrún.