Baksvið
Logi Sigurðarson
logis@mbl.is
Uppsetning rafhleðslustöðva í fjölbýlishúsum hækkar fasteignaverð, að mati Bjarna Gnýs Hjarðar, sérfræðings á byggingasviði hjá Eignaumsjón.
„Gott rafhleðslukerfi eykur virði fasteigna og er kostur en ekki vandræði. Því fyrr sem það er gert því betra. Þetta er tækifæri til að gera húsið verðmætara og auðseljanlegra,“ segir Bjarni.
Hann segir að gríðarlegur fjöldi fyrirspurna hafa borist Eignaumsjón vegna ráðgjafar til fjölbýlshúsa um uppsetningu hleðslustöðva. „Við erum að sjá verulega aukningu í fyrirspurnum. Í apríl voru ein til tvær fyrirspurnir á viku en nú eru þær ein til tvær á dag. Húsfélagi hvers húss ber skylda samkvæmt lögum til að hafa framkvæmdaáætlun sem snýr að uppbyggingu kerfis til hleðslu rafbíla,“ segir Bjarni og vísar í nýleg lög sem segja til um það að ef einn íbúi fjölbýlis óskar eftir aðstöðu fyrir rafhleðslustöð þurfi húsfélagið að búa til framkvæmdaáætlun og síðan koma upp aðstöðu fyrir rafhleðslustöð ekki seinna en tveimur árum eftir gerð framkvæmdaráætlunar.
„Ef þetta er húsfélaginu ofviða er hægt að fresta framkvæmdinni í allt að tvö ár en það á ekki við nema í undantekningartilfellum.“
Bjarna finnst sérstakt að þótt þessi lög séu til staðar, þá sé aðstaða fyrir rafhleðslustöð ekki tekin inn í fasteignamat. „Þetta er svolítið sérstakt. Þetta er komið inn í lög en ekki fasteignamatið. Það er algjörlega augljóst að þetta eykur verðmæti á markaði. Kaupendur hafa áhuga á þessu og fasteignasalar munu tilgreina þetta sem kost.“
Ómögulegt til lengri tíma
Bjarni segir að í meira en helmingi tilfella sé nauðsynlegt fyrir fjölbýli að uppfæra heimtaug. „Í yfir helmingi tilfella er viðeigandi að ná sér í nýja heimtaug sem fyrst því það er ekki rafmagn aflögu en það getur líka verið hagkvæmara. Við höfum dæmi um að það geti verið hagkvæmara að fá nýja heimtaug en að deila út rafmagni frá eldri heimtaugum, þó það sé nóg rafmagn. Það er kannski hægt að fæða eitthvað af rafbílum með eldri heimtaug en til lengri tíma er það ómögulegt því heimtaugarnar duga oft ekki til þegar yfir helmingur af bílaeigninni er rafbílar.“Bjarni segir að kostnaður við uppsetningu á nýrri heimtaug fari mjög eftir aðstæðum en þó að öll pappírsvinnan sé tiltölulega ódýr er það framkvæmdin sem er dýrari. Bjarni bætir við að það að skipta um heimtaug sé sameiginlegt verkefni allra íbúa fjölbýlis og segir það nánast alltaf hagkvæmt að koma upp aðstöðu fyrir hleðslustöðvar þó að ekki eigi allir íbúar rafmagnsbíl eða tengiltvinnbíl.
Flóðbylgja á leiðinni
„Þú leggur kannski út 100 þúsund krónur og færð varla minna en milljón til baka sem fasteignaeigandi, alveg sama hvort þú átt rafmagnsbíl eða ekki.“Bjarni telur líklegt að eftir þrjú ár verði öll fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu komin með aðstöðu fyrir uppsetningu rafhleðslustöðva. „Þannig að það er flóðbylgja á leiðinni.“