Átök Skotinn Che Adams og Englendingurinn Tyrone Mings eigast við í leik Englands og Skotlands í D-riðli Evrópumótsins á Wembley í London í gær.
Átök Skotinn Che Adams og Englendingurinn Tyrone Mings eigast við í leik Englands og Skotlands í D-riðli Evrópumótsins á Wembley í London í gær. — AFP
EM 2021 Bjarni Helgason Víðir Sigurðsson Tékkland og England mætast í hreinum úrslitaleik um efsta sæti D-riðils Evrópumóts karla í knattspyrnu á Wembley í London 22.

EM 2021

Bjarni Helgason

Víðir Sigurðsson

Tékkland og England mætast í hreinum úrslitaleik um efsta sæti D-riðils Evrópumóts karla í knattspyrnu á Wembley í London 22. júní en þetta varð ljóst eftir markalaust jafntefli Englands og Skotlands á Wembley í London í gær.

John Stones fékk besta færi Englands í leiknum þegar hann átti skalla í stöng strax á 12. mínútu en Skotar voru nálægt því að komast yfir um miðjan síðari hálfleik þegar Reece James , bakvörður enska liðsins, bjargaði á línu eftir skot Lyndons Dykes , sóknarmanns Skota.

England er með 4 stig í öðru sæti riðilsins en Skotar eru í fjórða sætinu með 1 stig.

*Þetta var aðeins í annað sinn sem England gerir markalaust jafntefli á Wembley eftir að völlurinn var endurbyggður árið 2007 en England og Svartfjallaland gerðu markalaust jafntefli í október 2010 í undankeppni EM 2012 þegar Fabio Capello var þjálfari enska liðsins.

Fyrsta stig Króata

Þá reyndist Ivan Perisic hetja Króatíu þegar liðið mætti Tékklandi á Hampden Park í Glasgow í Skotlandi í hinum leik D-riðils.

Perisic skoraði jöfnunarmark Króata á 47. mínútu eftir að Patrick Schick hafði komið Tékkum yfir með marki úr umdeildri vítaspyrnu á 37. mínútu. Tékkar eru með 4 stig í efsta sæti riðilsins en Króatar mæta Skotum í úrslitaleik um líklegt sæti í útsláttarkeppninni í Glasgow 22. júní en sigurliðið ætti að komast áfram í útsláttarkeppnina sem eitt þeirra liða með bestan árangur í þriðja sæti riðlakeppninnar.

*Ivan Perisic hefur skorað á síðustu fjórum stórmótum fyrir Króata; á HM 2014 í Brasilíu, EM 2016 í Frakklandi, HM 2018 í Rússlandi og nú EM 2020. Hann er fyrsti Króatinn sem afrekar það.

Svíar eru í kjörstöðu

Svíar náðu hinni gullnu stigatölu, fjórum stigum, með því að sigra Slóvaka 1:0 í Pétursborg. Þar með eru þeir nær öruggir í sextán liða úrslitin, þótt þeir töpuðu fyrir Pólverjum í lokaumferðinni og enduðu í þriðja sæti riðilsins. Leikur Spánar og Póllands fer fram í kvöld en Slóvakía er með þrjú stig, Spánn er með eitt og Pólland ekkert. Spánn og Slóvakía mætast í lokaumferðinni.

Varnarleikur Svía hefur verið öflugur og Robin Olsen frábær í markinu en liðið hefur ekki fengið á sig mark í leikjunum tveimur í E-riðlinum.

* Emil Forsberg , 29 ára miðjumaður Leipzig í Þýskalandi, skoraði sigurmark Svía úr vítaspyrnu. Hans 10. mark í 60 landsleikjum. Martin Dúbravka , markvörður Newcastle og Slóvakíu, fékk á sig vítaspyrnuna á 77. mínútu fyrir að brjóta á Robin Quaison í dauðafæri.