Hús Fasteignagjöld hafa víða hækkað nokkuð en fasteignamat mikið.
Hús Fasteignagjöld hafa víða hækkað nokkuð en fasteignamat mikið. — Morgunblaðið/Golli
Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Hæsta meðaltal fasteignagjalda á yfirstandandi ári eftir svæðum á landinu reiknað á ákveðna viðmiðunareign sem er einbýlishús, er á Suðurlandi eða 380 þúsund kr. og á Suðurnesjum 377 þúsund kr.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Hæsta meðaltal fasteignagjalda á yfirstandandi ári eftir svæðum á landinu reiknað á ákveðna viðmiðunareign sem er einbýlishús, er á Suðurlandi eða 380 þúsund kr. og á Suðurnesjum 377 þúsund kr., en lægsta meðaltal fasteignagjalda á landshlutum er á Vestfjörðum 289 þúsund krónur.

Þetta má lesa út úr nýjum samanburði Byggðastofnunar sem nær yfir allt landið. Viðmiðunareignin er einbýlishús sem er 161,1 fermetri að grunnfleti, 476 rúmmetrar og 808 fermetra lóð.

Byggðastofnun fékk Þjóðskrá til að reikna út fasteignamat á tiltekna viðmiðunareign á 96 matssvæðum á landinu og reiknuðu sérfræðingar Byggðastofnunar út hver fasteignagjöldin eru nú samkvæmt álagningarreglum í hverju sveitarfélagi.

Hafa víðast hækkað nokkuð

Í skýrslu Byggðastofnunar um samanburð á fasteignagjöldum heimila á árinu 2021 er bæði reiknað út fasteignamat sömu viðmiðunareignar og fasteignagjöld. „Þróun fasteignagjalda frá árinu 2014 hefur verið sú að þau hafa víðast hvar hækkað nokkuð en fasteignamat hefur að sama skapi hækkað mikið. Á 31 matssvæði sem eldri gögn ná til var meðaltal heildarfasteignagjalda fyrir viðmiðunareign 289 þ.kr. árið 2014 (m.v. verðlag 2021) en 367 þ.kr. árið 2021 sem samsvarar hækkun um 27%,“ segir í frétt Byggðastofnunar.

Ekki er alltaf fullkomið samræmi á milli fasteignamats og heildargjalda af fasteignum. Bent er á að t.d er hæsta fasteignamat viðmiðunareignarinnar í Suður-Þingholtum og á Ægisíðu og Högum í Reykjavík en gjöldin eru þó víða hærri en þar. Fram kemur að heildarfasteignagjöld viðmiðunareignarinnar, eru hæst á Seltjarnarnesi, eða 489 þúsund kr. á svæðinu vestan við Nesveg og 462 þúsund kr. á matssvæðinu Brautir, sem er nyrðri hluti Seltjarnarness. Bent er á að munurinn stafi af ólíkum matssvæðisstuðli í fasteignamatinu.

„Í Borgarbyggð, í Borgarnesi og á Hvanneyri, eru fasteignagjöld fyrir viðmiðunareign um 450 þ.kr. og svipuð upphæð gjalda er á Egilsstöðum og í Keflavík. Í eldri byggðinni á Ísafirði og á Selfossi eru heildarfasteignagjöld 444 þ.kr. fyrir viðmiðunareignina. Í hverfunum tveimur í Reykjavík þar sem fasteignamat er hæst, Suður-Þingholtum og Ægisíðu/Högum, eru heildargjöld um 430 til 440 þ.kr. og í Bláskógabyggð, í Reykholti og á Laugarvatni, eru heildargjöld milli 420 og 430 þ.kr. fyrir viðmiðunareignina. Í Grundarfirði, í Njarðvík, á Höfn og á Sauðárkróki eru heildargjöld á bilinu 400 til 415 þ.kr. [...].“

Þá kemur fram að heildarfasteignagjöld fyrir viðmiðunareign er á bilinu 380 til 400 þúsund kr. á mörgum matssvæðum. Þeirra á meðal eru Neskaupstaður, Hvolsvöllur, nýrri byggð á Ísafirði, Lónsbakki í Hörgársveit, Húsavík, Vík, Stykkishólmur, meginhluti Hafnarfjarðar, Siglufjörður og Vestmannaeyjar.

Fasteignagjöld samanstanda af fasteignaskatti, lóðarleigu, fráveitugjaldi, vatnsgjaldi og sorpgjöldum og er fasteignaskattur hlutfall af heildarfasteignamati. Í umfjöllun um þróun fasteignagjalda kemur fram að frá árinu 2014 hefur þróunin verið sú að gjöldin hafa víðast hvar hækkað nokkuð en fasteignamat hefur að sama skapi hækkað mikið. Hafa t.a.m. meðalfasteignagjöld viðmiðunareignarinnar á sex matssvæðum á höfuðborgarsvæðinu hækkað úr 283 þúsund kr. árið 2014 í 343 þúsund kr. á yfirstandandi ári, sem sem er 21% hækkun. Á sama tíma hækkaði fasteignamat þessarar eignar að jafnaði um 59%.

„Mesta hlutfallshækkun fasteignagjalda var í Suður-Þingholtum 31% þar sem fasteignamat hækkaði um 43% á sama tíma og minnst í Kórahverfi í Kópavogi 12% þar sem fasteignamat hækkaði um 59% [...],“ segir þar.

Hæsta upphæð fasteignaskatts í eldri byggð Ísafjarðar

Í umfjöllun um sundurliðun fasteignagjalda og fasteignaskattinn sérstaklega er bent á að vegna þess hve miklu getur munað á fasteignamati eftir staðsetningu eru álagningarhlutföll fasteignaskatts mjög mismunandi milli sveitarfélaga. Hlutfallið er lægst 0,175% í Seltjarnarnesbæ en þar næst 0,180% í Reykjavíkurborg og 0,185% í Garðabæ.

Meðalupphæð fasteignaskattsins á viðmiðunareignina eftir landssvæðum er hæst á Norðurlandi eystra eða 141.184 kr. og þar næst á höfuðborgarsvæðinu 140.388 kr. Af einstökum byggðarlögum og svæðum er hæstu upphæð fasteignaskattsins hins vegar að finna í eldri byggð Ísafjarðar eða 205.425 kr. og á Egilsstöðum 203.375 kr.