[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Veronika S. Magnúsdóttir veronika@mbl.is Starfsemi dómstólanna á árinu 2020 fór ekki varhluta af áhrifum faraldursins að því er niðurstöður ársskýrslu dómstólasýslunnar leiðir í ljós en nokkuð hægði á allri afgreiðslu dómstólanna á seinasta ári.

Fréttaskýring

Veronika S. Magnúsdóttir

veronika@mbl.is

Starfsemi dómstólanna á árinu 2020 fór ekki varhluta af áhrifum faraldursins að því er niðurstöður ársskýrslu dómstólasýslunnar leiðir í ljós en nokkuð hægði á allri afgreiðslu dómstólanna á seinasta ári.

Birtist þetta m.a. í lengri málsmeðferðartíma hjá dómstólunum en þá fækkaði einnig heildarfjölda dómsmála hjá héraðsdómstólunum nokkuð á milli áranna 2019 og 2020; alls voru 15.360 mál afgreidd þar árið 2019 samanborið við 14.653 árið 2020 en það er þó í nokkru samræmi við meðaltal mála síðustu fimm árin á undan.

Minni áhrif en óttast var

Ólöf Finnsdóttir var framkvæmdastjóri dómstólasýslunnar þegar skýrslan var unnin og segir hún faraldurinn hafa haft minni áhrif á meðferð mála en óttast var þegar faraldurinn skall á. „Það skiptir miklu máli í því samhengi að gripið var til lagasetningar til þess að forðast réttarspjöll,“ segir hún í samtali við Morgunblaðið. Nefnir hún að við gildistöku laga nr. 32/2020 um breytingu á ýmsum lögum vegna faraldursins hafi verið veitt tímabundin en mikilvæg heimild til nýtingar rafrænna lausna og fjarfundarbúnaðar, meðal annars hjá dómstólunum.

„Vorið 2020 var farið að taka skýrslur með þessum hætti, eins og lög heimila, sem kom að góðum notum þannig að ekki hlutust réttarspjöll af. Það var fyrst og fremst í mars og apríl sem hægði verulega á,“ segir hún. Hún segir að hjá Landsrétti séu uppsöfnuð mál sem bíði afgreiðslu en það kunni einnig að stafa af manneklu hjá dómstólnum fremur en af faraldrinum. Síðastliðin tíu ár hefur málunum fækkað allverulega og var fækkunin mest á milli áranna 2013 og 2014, þegar málafjöldinn fór úr 19.697 í 16.731 mál.

Óafgreidd mál á borði Landsréttar voru 283 talsins í ársbyrjun 2019 en þeim fjölgar í 375 í ársbyrjun 2020.

Landsréttur breytti niðurstöðu mála verulega í 16% tilfella

Í Landsrétti var niðurstöðu héraðsdóms breytt verulega eða snúið við í 54 málum, eða í 16% tilvika, en staðfest eða breytt að einhverju leyti í 334 málum.

Málum er unnt að skjóta til Landsréttar með áfrýjun eða kæru en málsmeðferð í áfrýjuðum málum er munnleg þar sem við aðalmeðferð mála er unnt að leiða aðila og vitni til skýrslugjafar. Einkamál sem hægt er að skjóta til Landsréttar með kæru eru annars vegar ágreiningur sem lýtur að réttarfarsatriðum og hins vegar mál sem löggjafinn hefur metið að þurfi skjótrar úrlausnar við.

Mál sem koma til kasta héraðsdómstólanna skiptast í einkamál og ákærumál. Einkamál eru annars vegar flutt munnlega og hins vegar skriflega en afgreiðsla þeirra tók lengri tíma að meðaltali árið 2020 heldur en árin á undan; 371 dagur var meðalafgreiðslutíminn en 356 dagar árið á undan. Þó gengu mál hraðar fyrir sig árið 2020 heldur en 2016 þegar 386 daga tók að meðaltali að afgreiða einkamál sem komu til kasta dómstólanna.

Afgreiðsla ákærumála hjá héraðsdómstólunum tók að meðaltali 112 daga á seinasta ári og er það lengsti tími sem mælst hefur síðan árið 2011, en árið 2019 tók afgreiðslan að meðaltali 105 daga. Þá hafa óafgreidd mál hjá héraðsdómstólunum um áramót aldrei verið fleiri en í ársbyrjun 2020, eða 722 talsins, í samanburði við 570 í ársbyrjun 2019.

Mikil fækkun beiðna um gjaldþrotaskipti á milli ára

Í fyrra bárust héraðsdómstólunum 1.699 gjaldþrotaskiptabeiðnir samanborið við 2.320 slíkar beiðnir árið 2019 og hefur þeim fækkað verulega milli ára. Örlítið fleiri rannsóknarúrskurðir voru kveðnir upp árið 2020 (942) heldur en árið á undan (924) en þeir skiptast ýmist í húsleit, gæsluvarðhald og aðra úrskurði. Gæsluvarðhaldsúrskurðum fækkaði milli ára; árið 2019 voru 517 úrskurðir kveðnir upp en 400 árið 2020 en húsleitir voru 1.605 árið 2019 og 167 árið 2020.

Í Hæstarétti voru kveðnir upp 38 dómar á árinu 2020 en árið 2019 voru þeir 50 talsins.