Meistarar Alexander Júlíusson, fyrirliði Vals, tekur við Íslandsmeistarabikarnum á Ásvöllum í gær eftir sannfærandi sigur á Haukum.
Meistarar Alexander Júlíusson, fyrirliði Vals, tekur við Íslandsmeistarabikarnum á Ásvöllum í gær eftir sannfærandi sigur á Haukum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Ásvöllum Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is Valur er Íslandsmeistari karla í handbolta 2021 eftir verðskuldaðan 34:29-sigur á Haukum á útivelli í seinni leik liðanna í úrslitum í gærkvöldi.

Á Ásvöllum

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Valur er Íslandsmeistari karla í handbolta 2021 eftir verðskuldaðan 34:29-sigur á Haukum á útivelli í seinni leik liðanna í úrslitum í gærkvöldi. Valur vann fyrri leikinn með þriggja marka mun og einvígið því samanlagt með sjö mörkum.Valur komst í 5:1 í upphafi leiks og voru Haukar aldrei líklegir til að jafna eftir það.

Þetta einstaka tímabil hefur verið langt, strangt, erfitt og stundum leiðinlegt hjá Valsmönnum. Valur tapaði átta leikjum af 22 í deildinni í vetur og var á tímabili nær fallsætunum en þeim efstu. Valsmenn lærðu hins vegar af töpunum, lagfærðu mistökin og toppuðu á réttum tíma. Íslandsmót er maraþon og Valsmenn áttu nóg eftir á tankinum til að taka fram úr sprungnum Haukamönnum og koma fyrstir í mark.

Mikið Valshjarta

Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, benti, eftir tapið í fyrri leiknum, á að lið Vals væri dýrara en Haukaliðið. Það kann að vera en það er mikið Valshjarta í Hlíðarendaliðinu. Uppöldu Valsmennirnir Einar Þorsteinn Ólafsson, Þorgils Jón Svölu Baldursson og Alexander Örn Júlíusson voru í lykilhlutverki í þessum Íslandsmeistaratitli, þótt þeir fái sjaldan forsíðurnar. Þeir sjá um skítavinnuna í vörninni á meðan stjörnurnar í sókninni fá að njóta sín hinum megin.

Um helmingur leikmanna Vals sem voru á leikskýrslu í gær er uppalinn hjá Val, eins og þjálfararnir Snorri Steinn Guðjónsson og Óskar Bjarni Óskarsson. Óskar er oft kallaður herra Valur.

Það sást á öllum aðgerðum Valsmanna í gær að merkið framan á treyjunni skiptir þá miklu máli og var fagnað grimmt í leikslok.

Anton Rúnarsson hefur verið ótrúlegur í úrslitakeppninni fyrir Val, sem og Martin Nagy í markinu. Það er allt annað að sjá þá eftir að leikirnir fóru að skipta meira máli; talandi um að toppa á réttum tíma. Hornamennirnir Vignir Stefánsson og Finnur Ingi Stefánsson hafa verið drjúgir og þegar annaðhvort Agnar Smári Jónsson eða Magnús Óli Magnússon á ekki sinn besta dag, á hinn yfirleitt mjög góðan leik í staðinn.

Agnar var magnaður í gær og Magnús Óli átti glæsilegan fyrri leik. Þá er Róbert Aron Hostert ólíkindatól. Valsmenn hafa efni á því þegar einn eða fleiri leikmenn eiga ekki sinn besta dag, þá koma aðrir í staðinn.

Þótt Haukarnir hafi unnið flesta leiki allra liða í vetur eru Valsmenn verðskuldað Íslandsmeistarar. Þeir unnu ekki bara Hauka í úrslitum, heldur gerðu þeir það sannfærandi.

Féllu illa á stærsta prófinu

Það hljóta að vera gríðarleg vonbrigði fyrir Hauka að þurfa að sætta sig við annað sætið eftir glæsilega frammistöðu í deildarkeppninni í vetur. Haukamenn töpuðu aðeins tveimur leikjum af 22 og völtuðu oftar en ekki yfir andstæðinginn. Haukar voru með 144 mörk í plús í deildinni gegn 53 hjá Val. Þegar upp er staðið munu hins vegar fáir muna eftir því. Haukar féllu illa á stærsta prófinu.

HAUKAR – VALUR 29:34

Ásvellir, síðari úrslitaleikur Íslandsmóts karla, föstudag 18. júní 2021.

Gangur leiksins : 1:4, 4:7, 6:10, 10:12, 12:15, 15:18 , 19:20, 20:24, 22:27, 24:30, 26:32, 29:34.

Mörk Hauka : Orri Freyr Þorkelsson 8/2, Darri Aronsson 4, Geir Guðmundsson 4, Heimir Óli Heimisson 3, Adam Haukur Baumruk 3, Atli Már Báruson 3, Ólafur Ægir Ólafsson 2, Þráinn Orri Jónsson 2.

Varin skot : Björgvin Páll Gústavsson 5, Andri Sigmarsson Scheving 3.

Utan vallar: 6 mínútur

Mörk Valur: Anton Rúnarsson 10/3, Agnar Smári Jónsson 7, Vignir Stefánsson 7, Róbert Aron Hostert 3, Finnur Ingi Stefánsson 3, Magnús Óli Magnússon 2, Þorgils Jón Svölu Baldursson 2.

Varin skot: Martin Nagy 12/1, Einar Baldvin Baldvinsson 1/1.

Utan vallar : 4 mínútur

Dómarar : Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson.

Áhorfendur : Tæplega 1.000.