30 ára Rakel Rós fæddist á Selfossi og ólst upp á Laugum í Reykjadal. Hún fór í Menntaskólann á Akureyri og þegar hún fór að vinna á heimili fyrir fatlað fólk fékk hún áhuga á þroskaþjálfun og skráði sig í nám í Háskóla Íslands.
30 ára Rakel Rós fæddist á Selfossi og ólst upp á Laugum í Reykjadal. Hún fór í Menntaskólann á Akureyri og þegar hún fór að vinna á heimili fyrir fatlað fólk fékk hún áhuga á þroskaþjálfun og skráði sig í nám í Háskóla Íslands. „Eftir að ég lauk námi 2015 starfaði ég á leikskóla sem þroskaþjálfi en fór svo í meistaranám í atferlisfræði í Wales og lauk þar námi 2019.“ Núna starfar Rakel á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

Rakel er búin að vera grænkeri frá árinu 2015 og alveg vegan síðustu tvö árin. „Í fyrstu áttaði ég mig allt í einu á því að ég var að borða kjöt í öll mál og ég ákvað að sleppa kjöti í mánuð. Í kjölfarið fór ég að hugsa aðeins meira um siðferðislegu hliðina á veganisma og einnig hið mikla kolefnisspor sem fylgir ræktun dýra til manneldis.“

Hún segir að mörg sveitarfélög séu byrjuð að bjóða upp á grænkeramöguleika fyrir börn sem skiptir sköpum fyrir þær fjölskyldur sem borða ekki dýr og vonandi sjá flest sér fært að gera það í framtíðinni.

Maki Rakelar er Óli Freyr Axelsson, þroskaþjálfi og forstöðumaður í búsetukjarna hjá Reykjavíkurborg, og eiga þau soninn Snæbjörn Atlas.