Viðræður Sveitarstjórnarmenn á Suðurlandi fóru yfir stóru myndina og vegamál með tilliti til sameiningar sveitarfélaga með samgönguráðherra.
Viðræður Sveitarstjórnarmenn á Suðurlandi fóru yfir stóru myndina og vegamál með tilliti til sameiningar sveitarfélaga með samgönguráðherra. — Ljósmynd/Jón Hrói Finnsson
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Mikilvægt er að hafist verði handa sem fyrst um miklar samgöngubætur á Suðurlandi, að mati sveitarstjórnarmanna þar, sem funduðu í vikunni með samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra vegna vinnu sem nú stendur yfir vegna hugsanlegrar sameiningar sveitarfélaga milli Þjórsár og Skeiðarársands. „Sameinuð erum við miklu sterkari en í samkeppni,“ segir Anton Kári Halldórsson, oddviti Rangárþings eystra og formaður verkefnisins Sveitarfélagsins Suðurlands.

Kosið verður um sameiningu 25. september

Fimm sveitarfélög eru nú í sameiningarviðræðum: það er Ásahreppur, Rangárþing ytra, Rangárþing eystra, Mýrdalshreppur og Skaftárhreppur. Kosið verður um sameiningu 25. september nk., samhliða alþingiskosningum.

Á svæðinu, sem hugsanlega gæti orðið eitt sveitarfélag, eru héraðs- og tengivegir, samtals um 1.300 kílómetrar. Af þeim eru um 500 km malarvegir eða 38%. Ef miðað er við áætlanir verða þeir ekki allir lagðir slitlagi fyrr en eftir hálfa öld. Anton Kári Þorsteinsson segir mikla hagsmuni felast í því að bæta úr stöðunni. Um helmingur grunnskólanemenda á svæðinu býr í dreifbýli og ferðast með skólaakstri daglega, mörg langa leið um erfiða vegi. Þar eru flestir af fjölsóttustu ferðamannastöðum landsins en kallað hefur verið mjög eftir uppbyggingu í kringum ferðaþjónustuna. Auk þess er mikill landbúnaður á svæðinu sem reiðir sig á allir flutningar á aðföngum og afurðum gangi greitt fyrir sig.

Samstarf lækki kostnað

Sveitarfélögin hafa skorað sameiginlega á Alþingi og ríkisstjórn að bæta samgöngur innan svæðisins. Samstarf sveitarfélaganna veiti mikil tækifæri til að hraða uppbyggingunni og nýta fjármuni betur. Sé byggt á stöðlum og kostnaðarmati Vegagerðarinnar er áætlaður kostnaður við að byggja upp alla héraðs- og tengivegi á svæðinu 20-25 milljarðar króna, eða sem nemur einum jarðgöngum.

Anton Kári segir góð fordæmi fyrir því að Alþingi og samgönguyfirvöld hafi veitt sameinuðum sveitarfélögum sérstaka fyrirgreiðslu til að mæta brýnum samgöngubótum í landstórum sveitarfélögum. Verði af sameiningu sveitarfélaganna fimm sé það vilji heimamanna að veitt verði sérstök fjárveiting til uppbyggingar héraðs- og tengivega. Sveitarfélagið Suðurland sé reiðubúið að taka þátt í tilraunaverkefni þar sem sveitarstjórn tekur þátt í að forgangsraða verkefnum og leita leiða til að draga úr kostnaði við framkvæmdirnar. Ef samstarf sveitarfélags og Vegagerðar skilar 15% betri nýtingu fjármuna skapast tækifæri til að spara tæpa 4 milljarða, eða leggja um 100 km af bundnu slitlagi. Verkefnið getur því orðið góð fyrirmynd.

Sameining virki kraft

„Ég hef í mínum störfum lagt mikla áherslu á að styrkja sveitarstjórnarstigið,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála. Hann segir einn hluta af eflingu sveitarstjórna þann að þau verði stærri og sterkari og þannig tækifæri til að mæta auknum kröfum íbúa. „Sameining er ekki til að breyta samfélögum heldur til að virkja á markvissari hátt þann kraft sem þau búa yfir. Þannig verða til aukin atvinnutækifæri og meiri lífsgæði.“