Frjálslyndi flokkurinn breski vann óvænt en örugglega aukakosningar um þingsæti kjördæmisins Chesham og Amersham. Íhaldsflokkurinn hafði ætíð unnið kjördæmið og vann það með 16.000 atkvæðum í kosningunum 2019.
Frambjóðandi Frjálslynda flokksins, Sarah Green, hlaut 56,7% atkvæða en íhaldsmaðurinn Peter Fleet 35,5%. Vann Green með 8.028 atkvæða mun. Frambjóðandi Verkamannaflokksins hlaut aðeins 622 atkvæði en flokkurinn mun aldrei hafa komið jafn illa frá aukakosningum.
Leiðtogi frjálslyndra, Ed Davey, sagði Íhaldsflokknum nú standa ógn af frjálslyndum í fjölda kjördæma. Sarah Green fer inn á þing sem 12. þingmaður Frjálslynda flokksins.
Boris Johnson forsætisráðherra sagði niðurstöðu Íhaldsflokksins vonbrigði og rakti ósigurinn til staðbundinna deilumála.
Efna þurfti til kosninganna eftir að Cheryl Gillan, fyrrverandi ráðherra og þingmaður Chesham og Amersham, féll frá í apríl.