Unga kynslóðin gerði sér glaðan dag vítt og breitt um landið á þjóðhátíðardaginn, þrátt fyrir fjöldatakmarkanir.
Unga kynslóðin gerði sér glaðan dag vítt og breitt um landið á þjóðhátíðardaginn, þrátt fyrir fjöldatakmarkanir. — Morgunblaðið/Jón Helgi Pálmason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fornleifafundur í Fagradal er með þeim merkari sem orðið hafa í Skaftafellssýslu , að sögn Þórðar Tómassonar , fyrrverandi safnvarðar Skógasafns . Um er að ræða blágrýtisstein sem búið er að höggva til og er hann talinn líkja eftir skipi.

Fornleifafundur í Fagradal er með þeim merkari sem orðið hafa í Skaftafellssýslu , að sögn Þórðar Tómassonar , fyrrverandi safnvarðar Skógasafns . Um er að ræða blágrýtisstein sem búið er að höggva til og er hann talinn líkja eftir skipi. Ekki hefur verið auðvelt að höggva í steininn en hann vegur mörg tonn. Þá er margt á huldu um tilurð steinsins.

Bjarni Benediktsson , formaður Sjálfstæðisflokksins , hafnaði í efsta sæti í prófkjöri flokksins í Suðvesturkjördæmi . Þingmennirnir Jón Gunnarsson, Bryndís Haraldsdóttir og Óli Björn Kárason röðuðust í næstu sæti. Arnar þór Jónsson héraðsdómari varð fimmti.

Síðasta þingi kjörtímabilsins lauk um liðna helgi. Ræðukóngur varð Birgir Þórarinsson, Miðflokki , heildarræðutími hans var einn dagur, þrjár klukkustundir, 20 mínútur og sex sekúndur. Alls tók Birgir 324 sinnum til máls.

Áfram var bólusett í gríð og erg í Laugardalshöllinni og Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir , framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, hafði orð á því að töluvert meira væri um yfirlið hjá yngri kynslóðinni en þeirri eldri.

Sjaldséður fugl, klifurskríkja , skaut upp kollinum á Snæfellsnesi . Þetta er aðeins í fjórða sinn sem sú ágæta tegund heiðrar okkur með nærveru sinni. Eins gott að Snæfellingar læsi ketti sína nú inni.

Karlmaður á þrítugsaldri varð fyrir stunguárás í Hafnarstræti í Reykjavík aðfaranótt sunnudags.

Elsti Íslendingurinn, Dóra Ólafsdóttir úr Eyjafirði, er komin á topp tíu yfir elsta fólk á Norðurlöndum. Hún er 108 ára og 348 eða 349 daga gömul, eftir því hvort þú ert að lesa þetta blað á laugardegi eða sunnudegi.

Alþjóðlegi blóðgjafadagurinn var haldinn hátíðlegur á mánudag. Mikil þörf er á að fjölga blóðgjöfum, að sögn kunnugra.

Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir , 18 ára kylfingur úr GR , braut blað í íslenskri golfsögu um helgina þegar hún komst alla leið í úrslit Opna breska áhugamannamótsins , fyrst Íslendinga.

·

Landsvirkjun og hafnaryfirvöld í Rotterdam hafa lokið við forskoðun varðandi möguleika á að flytja út grænt vetni frá Íslandi. Landsvirkjun segir tæknina vera fyrir hendi.

Hannes Hilmarsson fjárfestir hefur greitt metverð fyrir þakíbúð í Skuggahverfinu , 365 milljónir króna. Íbúðin er á tveimur hæðum og með henni fylgja rúmgóðar svalir og þakgarður.

Fannir vetrarins ná enn upp á miðja veggi skálans í Hrafntinnuskeri sem er við Laugaveginn svonefnda.

Gunnar Birgisson , verkfræðingur, fyrrverandi alþingismaður og bæjarstjóri í Kópavogi og Fjallabyggð , er látinn, 73 ára að aldri.

Á þriðjudag gengu í gildi nýjar reglur um takmarkanir á samkomum innanlands. Reglurnar eru í samræmi við minnisblað sóttvarnalæknis frá 10. júní og kveða á um rýmkun almennra fjöldatakmarkana úr 150 í 300 manns.

Kortavelta erlendra ferðamanna hérlendis var 95% hærri í maí síðastliðnum en í maí í fyrra.

·

Flest bendir til þess að ráðlagður heildarafli í þorski verði á næstu árum í lægri kantinum. Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar fyrir þorsk vegna fiskveiðiársins 2021/2022 lækkaði um 13% frá síðustu ráðgjöf en hefði lækkað um 27% ef ekki væri fyrir jöfnunarákvæði í aflareglu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir , mennta- og menningarmálaráðherra, er að læknisráði komin í tímabundið veikindaleyfi til 28. júní.

Bæjarstjórn Hornafjarðar hefur samþykkt að jökultunga eða tota sem myndast hefur út frá Svínafellsjökli í Öræfum fái örnefnið Dyrhamarsjökull og vísað því til staðfestingar mennta- og menningarmálaráðherra.

Gras hefur sprottið illa á Suðurlandi vegna kulda og þurrka í vor og almennt kaldari tíðar að undanförnu en venjulegt er. Matthías Ragnarsson , bóndi á Guðnastöðum í Austur-Landeyjum , hóf þó slátt í vikunni. Sló montblettinn, eins og hann tekur sjálfur til orða. Það er fjögurra hektara tún heima við bæjarhús.

Breski auðmaðurinn Sir Jim Ratcliffe mun persónulega fjármagna byggingu fjögurra nýrra veiðihúsa á Norðausturlandi á næstu misserum. Fjárfestingin nemur minnst fjórum milljörðum króna.

Þegar nokkrir dagar voru liðnir frá því fyrstu kórónuveirusmitin á Landakoti , greindust í október síðastliðnum varð „upplausnarástand“ á spítalanum. Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar embættis landlæknis á hópsýkingu sem kom upp á spítalanum. Hópsmitið er sagt alvarlegasta atvik sem upp hefur komið í sögu heilbrigðisþjónustu hérlendis. Spítalinn er í meginefnum sammála niðurstöðunni.

Á þriðja tug kvartana og ábendinga vegna breytinga á fyrirkomulagi leghálsskimana hafa borist embætti umboðsmanns Alþingis .

Fyrsta skóflustungan var tekin að 1.1000 fermetra viðbyggingu flugstöðvarinnar á Akureyrarflugvelli .

Kærunefnd útboðsmála hefur ógilt samning Reykjavíkurborgar við Orku náttúrunnar (ON) vegna hleðslustöðva. Því er ON óheimilt að selja orku á 200 stöðvum.

Sjálfsmynd , 34. hljóðversplata Bubba Morthens , er komin út.

Eiður Smári Guðjóhnsen , aðstoðarlandsliðsþjálfari karla í knattspyrnu, er kominn í tímabundið leyfi frá störfum, en mun snúa aftur með landsliðinu í verkefnum haustsins.

·

Eimskip hefur undirgengist sátt við Samkeppniseftirlitið og greiðir 1,5 milljarða króna í stjórnvaldssekt vegna alvarlegs brots á samkeppnislögum.

Ekkert hefur miðað í kjaradeilu sjómanna , að Guðmundar Helga Þórarinssonar , formanns VM .

Bygging hátæknisorporkustöðvar í Helguvík er meðal verkefna sem kynnt voru á ráðstefnunni „Sjálfbær framtíð Suðurnesja“ .

Nærri 60% barna á Vestfjörðum í 8. til 10. bekk sofa í sjö klukkustundir eða minna á hverri nóttu. Þetta kom fram í kynningu embættis landslæknis á lýðheilsuvísum fyrir árið 2021. Marktækur munur er á svefni ungmenna á Vestfjörðum samanborið við landið allt þar sem um 45% sofa í sjö klukkustundir eða minna.

Ekki hefur hærra hlutfall íbúða á höfuðborgarsvæðinu selst yfir ásettu verði frá upphafi mælinga. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar fyrir júní.

Aðeins verður hægt að fá fjölnota poka í Vínbúðunum frá mánaðamótum.

·

Samtök ferðaþjónustunnar vona að sóttkví við komuna til landsins verði afnumin fljótlega.

Bjarni Benediktsson , fjármála- og efnahagsráðherra, segir nýafstaðið hlutafjárútboð Íslandsbanka hafa heppnast einkar vel og að mikið ánægjuefni sé að sjá áhuga bæði almennra og erlendra fjárfesta á íslenskum banka. Stjórnarandstaðan er ekki eins hrifin.

Ólöf Nordal myndlistarmaður var útnefnd borgarlistamaður Reykjavíkur 2021.

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur vísað frá kæru Ólafs Ólafssonar vegna skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðkomu Hauck og Aufhauser að einkavæðingu Búnaðarbankans .

Söguleg eftirspurn er eftir veislubúnaði á landinu.

Smávægileg jarðskjálftahrina mældist við Högnhöfða suður af Langjökli . Ekki var um stóra jarðskjálfta að ræða og því ekki talið að hætta stafaði af þeim að svo stöddu.

Maður lést í fjórhjólaslysi á Mýrum í Borgarfirði.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra velti því upp í ávarpi á hátíðarathöfn á Austurvelli á 17. júní hvort heimsfaraldur kórónuveirunnar hefði gert Íslendinga að meiri þjóð en þeir hafa lengi verið.

Anna Þóra Sæþórsdóttir hefur verið kjörin forseti Ferðafélags Íslands , fyrst kvenna.

Loksins eru hlýindi í kortunum .