Bankamennska er „fag“, hvorki list né vísindi. Fagmennska er eingöngu byggð upp með starfsreynslu, menntun er góð en ekki nóg. „Ævintýri gerast oft í viðskiptalífinu, en varfærni, mér liggur við að segja uppburðarleysi“ er hlutskipti bankamannsins“ sagði Walter Baghot, ritstjóri The Economist, fyrir löngu. Hvað átti hann við?
Bankar starfa á ábyrgð hluthafa sinna, sem leggja þeim til eigið fé sitt, áhættufé, og vænta ávöxtunar, en ekki þess að tapa fé sínu. Bankar taka við innlánum, sparifé almennings, þ.m.t. aldraðra, öryrkja, barna, ekkna og munaðarleysingja, sem engar forsendur hafa til að taka og meta áhættu. Innlán eiga að vera og verða að vera áhættulaus. Til að svo sé þarf bankinn að taka öruggar tryggingar fyrir lánum, veð í auðseljanlegum eignum. Engin leið er að dreifa útlánaáhættu þannig að bankar geti borið hana án þessa. Hið opinbera setur innlánsstofnunum ítarlegar reglur, svo þær haldi sig „á beinu brautinni“, því ef illa fer verður ríkið að stíga inn í. Í fyrsta lagi til að stórir hópar, sem í góðri trú og trausti þess að bankinn sé rekinn faglega, lögðu inn sparifé sitt tapi því ekki og í öðru lagi vegna þess að bankar hafa greiðslumiðlunina á hendi. Ef hún stöðvast getur hagkerfið hrokkið í erfiðan „bakkgír“ og fallið saman á stuttum tíma. Þess vegna stígur ríkið inn í „bankahrun“. Stjórnandi í banka, fjármálaverkfræðingur eða MBA, sem settur er í starf bankastjóra, en hefur aldrei unnið í banka, hefur ekki þessa varfærni og „uppburðarleysi“ sem fagmennsku fylgir. Hann vill lifa sitt „ævintýri“ í viðskiptalífinu, en það verður þá líklega „ævintýramennska“.
Bankastjóri verður að hafa starfað nógu lengi í banka til að hafa þurft að þrauka í gegnum eina efnahagslægð, með öllum sínum erfiðleikum, afskriftum og útlánatöpum. Margir halda að það sé „dans á rósum“ að vera bankastjóri. Þá er hugsað til valda, virðingar og góðra starfskjara, auk þess að geta „rétt hinum hungruðu brauð“, þ.e. veitt lán og uppskorið þakklæti. Þetta er bara „önnur hliðin á peningnum“. Hin hliðin er sú að banki þarf að endurheimta lán sem fara í vanskil. Hann þarf þá að nota þær tryggingar sem hann tók við lánveitinguna. Þá kemur sér vel að hafa vandað til verka í upphafi. Það er hluti af starfi bankastjóra að ákveða að ganga að veðum. Það má líka orða þannig að það sé hluti af starfi hans að taka heimili af fjölskyldum og taka fyrirtæki af hluthöfum. Það er óskemmtilegt. Þeir sem lenda í vanskilum eru alltaf ósammála bankanum að þess þurfi, þeir vilja enn lengri frest og enn meiri lán. „Í upphafi skyldi end(ir)inn skoða“ er sagt. Útlánatöpin verða til við lánveitinguna. Bankastjóri á að hafa og verður að hafa „sára reynslu“ eftir efnahagslægð. Hann verður að hafa haft miklar áhyggjur af bankanum í fyrra starfi fyrir bankann og sinni eigin framtíð. Þess vegna eru menn hvergi í veröldinni, nema á Íslandi, ráðnir í stöðu æðsta stjórnanda í banka nema vera „varfærnir, mér liggur við að segja uppburðarlausir“ í lánamálum.
Vogunarsjóðir hafa sérfróða menn á öðru sviði: Þeir kaupa fyrirtæki oft „til niðurrifs“ og er þá líkt við „hrægamma“. Gammar gera vissulega gagn þar sem eru hræ. Hitt er verra þegar þeir leggjast á það sem lifir og er lífvænlegt og mikils virði fyrir samfélagið. Ég hef haldið þeirri skoðun á lofti að þar sem bankar fara með sparifé almennings og reka ómissandi innviði, greiðslumiðlunina, beri að líta á þá sem „hálfopinberar“ stofnanir samfélags. Heppilegt sé að ríkið eigi 34-40%, almannasjóðir s.s. lífeyrissjóðir tryggi meirihluta í eigu almennings, en einkaaðilar geti átt mest 49%.Aðeins þannig sé tryggt að sparifé almennings verði tekið ekki traustataki, eins og gerðist á bóluárunum eftir aldamótin. Þetta er enn mögulegt.
Höfundur er fv. bankastjóri.