Steinar Ingi Kolbeins
steinar@mbl.is
Tíu sinnum hefur það gerst að tveir einstaklingar hér á landi nái 100 ára aldri sama daginn. Nú í dag gerist það svo í ellefta skiptið, en Kristín Gísladóttir og María Arnlaugsdóttir deila afmælisdeginum 19. júní og fagna því báðar 100 ára afmæli sínu í dag, skv. upplýsingum Jónasar Ragnarssonar, sem er líklega manna fróðastur um langlífi Íslendinga og sér m.a. um Facebook-síðuna Langlífi.
Engin sérstök ráð til að ná 100 ára aldri
„Mér líður nú bara alveg eins og í gær,“ segir María í samtali við Morgunblaðið í gær, aðspurð hvernig manni líði þegar maður verður 100 ára. María segist ekki vera með nein sérstök ráð sem gott væri að fylgja ætli maður sér að ná 100 ára aldri. „Ég hefði aldrei látið mér detta í hug að ég yrði svona gömul, en þannig er bara gangurinn í þessu, maður tekur bara því sem kemur.“ María sagðist ekki þurfa að standa í því sjálf að halda upp á afmælið, en hún ætlar að fagna því með sínu nánasta fólki á afmælisdaginn.Síðustu hálfa aðra öldina hafa á áttunda hundrað Íslendinga náð 100 ára aldri. Síðustu áratugina hafa aldrei fleiri en 30 orðið 100 ára á einu og sama árinu. Það er því athyglisvert að ellefu sinnum hafi það gerst að tveir einstaklingar nái þessum aldri á sama deginum. Fyrst gerðist það 7. júní árið 1963. Síðan tvisvar árið 1992 og 1995. Einu sinni árin 2005, 2008, 2011, 2015 og 2020 og nú 19. júní 2021. Af þessum 22 einstaklingum eru 5 karlar.
Tvisvar náðu slíkir jafnaldrar 101 árs aldri. Einu sinni 102 ára aldri og einu sinni 103 ára aldri. það voru Helgi Símonarson á Dalvík og Ingibjörg Bjarnadóttir í Reykjavík. Helgi náði að verða 105 ára og 11 mánaða og átti lengi aldursmet íslenskra karla.