Gersemar Margrétar Aldísar Árnadóttur sem dó átta ára gömul árið 1909 eru meðal gripa á sumarsýningunni Missi í Byggðasafni Árnesinga í Húsinu á Eyrarbakka. Sýningin verður opnuð nk. sunnudag, 20. júní, kl. 16 og er svo uppi í safninu í allt sumar, sem er opið alla daga kl. 11-18 til 15. september.
Persónulegir hlutir verða gjarnan dýrgripir eftirlifenda þegar ástvinur deyr. Látlausir hlutir líkt og pappírsbátur, herðasjal og sparibaukur geyma oft djúpa sögu. Löngu seinna rata slíkir gripir á safn; kannski þegar tíminn hefur grætt sárin. Sýningin Missir verður í borðstofu Hússins á Eyrarbakka, segir í kynningu.