Pirruð! Reið! Hrá og biðst ekki afsökunar á nokkrum sköpuðum hlut! Þessi plata er það sem gerist þegar græðgi og óréttlæti taka völdin. Við erum knúnir til að grípa til vopna, tónlistarinnar okkar!“
Með þessum orðum lýsir brasilíski söngvarinn og gítarleikarinn Max Cavalera, oftast kenndur við Sepultura og Soulfly, fyrstu breiðskífu Go Ahead and Die, sem kom út á dögunum og ber nafn þessa flunkunýja þrass/dauðamálmbands sem Cavalera starfrækir ásamt syni sínum, Igor Amadeus Cavalera, sem syngur á móti föður sínum, auk þess að spila á bassa og gítar, og trymblinum Zach Coleman. Sá síðastnefndi er þekktur fyrir leik sinn með öfgamálmböndunum Black Curse og Khemmis og þykir mikið séní.
Það er málmgagnið Blabbermouth.net sem hefur téð ummæli eftir Max og sonurinn tekur þar einnig til máls í tilefni af því að fyrsta myndbandið var að koma út, við titillagið, G.A.A.D. „Þetta er kennisöngur þessarar plötu og þessara brengluðu tíma sem við lifum á. Við erum að senda ráðamönnum fingurinn; þeim sem ákveða hverjir fá að lifa og hverjir deyja,“ segir Igor Amadeus sem heitir í höfuðið á föðurbróður sínum, sem einnig var í Sepultura, og svo væntanlega löngu látnu tónskáldi frá Salzburg.
„G.A.A.D. færir ykkur hraða og hatursdrifinn kraft sem ekki hefur heyrst um langt árabil,“ bætir hann við.
Max lýsir Go Ahead and Die sem einstöku samstarfi föður og sonar, þar sem gamli skólinn mæti gagnrýnu viðhorfi samtímans. „Geggjuð riff og kjarnyrtir textar frá Igor og grimmar trommur frá Zach eru mér innblástur. Öfgafullir tímar kalla á öfgafulla tónlist.“
Og Zach Coleman fer skrefinu lengra með greininguna: „Mér finnst okkur hafa tekist að fanga mikinn yfirgang á þessari plötu. Þetta er blanda af gamla skólanum, málmi og pönki frá á að giska 1989, og yngri hljóðheimi sem endurspeglar það sem er á seyði í kringum okkur. Mótmælum og höldum lífi!“
Reiðileg og áleitin tónlist
Blabbermouth leggst líka í greiningu og segir tónlist Go Ahead and Die öfgafulla, hraðann ógurlegan, riffin svakaleg og grípandi og fyrirlitninguna á samfélagsmeinum samtímans áþreifanlega. „Þetta er reiðileg og áleitin tónlist, þar sem innblásnir menn gefa allt í verkefnið.“Að dómi miðilsins er um að ræða afturhvarf til gullaldar þrassins, dauðamálmsins og pönksins eins og það var skítugast og hráast. „Við erum að tala um þá gerð af bandi sem hefði fengið táningsþrassara árið 1987 til að grípa vasahnífinn og grafa nafnið Go Ahead and Die í borðið fyrir framan sig í skólastofunni.“
Igor Amadeus, sem er 26 ára, er ekki eini sonurinn af Cavalera-kyninu sem er í hljómsveit með föður sínum en bróðir hans, trymbillinn Zyon, sem er tveimur árum eldri, hefur átt aðild að Soulfly undanfarin níu ár. Örlög hans réðust snemma en Zyon er einn fárra sem leikið hafa inn á hljómplötu áður en hann fæddist. Vissi að vonum lítið af því. Hjartsláttur hans í móðurkviði er intróið að laginu Refuse/Resist á Sepultura-plötunni Chaos A.D. frá árinu 1993.
Þriðji bróðirinn, Richie, 36 ára, hefur einnig komið að verkefnum með föður þeirra en aldrei formlega verið með honum í hljómsveit. Hann syngur í dag með grúvmálmbandinu Incite en Zyon og Igor Amadeus eru á hinn bóginn saman í seyrumálmbandinu Lody Kong. Fjórði bróðirinn, Jason, 35 ára, er trommutæknir Zyons í Soulfly og Lody Kong, og fer því um víðan völl með föður sínum og bróður.
Mér er ljóst að margir lesendur Morgunblaðsins hafa brennandi áhuga á ættfræði og einhverjir spyrja sig ugglaust núna hvernig Max Cavalera, sem verður ekki nema 52 ára í sumar, geti átt svona gömul börn. Svarið er að eiginkona hans, Gloria, sem er 68 ára, átti fyrir fjögur börn þegar þau kynntust, Richie, Jason, Roxanne, 38 ára, og Dana Wells, sem lést í bílslysi árið 1996, aðeins 21 árs að aldri. Max ættleiddi síðar hin þrjú.
Hrökklaðist úr eigin bandi
Max Cavalera er maður eigi einhamur og fáir hafa verið afkastameiri í málmi á umliðnum áratugum. Hann stofnaði Sepultura heima í Brasilíu árið 1984 ásamt Igor bróður sínum, sem síðan hefur raunast tvígéast með þeim afleiðingum að hann heitir nú Iggor. Max hrökklaðist úr Sepultura 1996, eftir sex breiðskífur, og setti þá Soulfly á laggirnar sem er enn í fullu fjöri; ellefta breiðskífan kom út árið 2018.Já, það er sumsé aldarfjórðungur síðan leiðir skildi en Iggor varð sem frægt er eftir í Sepultura í heilan áratug. Bræðurnir töluðu ekki saman allan þann tíma en ágreiningurinn hverfðist um fyrrnefnda Gloriu, eiginkonu Max, sem hinir þrír í Sepultura vildu ekki hafa lengur sem umboðsmann bandsins. Max stóð með sinni konu og vék því úr bandinu. Grátlegt mál og óuppgert gagnvart Andreas Kisser og Paulo Jr. sem enn eru í Sepultura og líkurnar á því að þetta sögufræga band eigi eftir að koma saman aftur í upprunalegri mynd því miður litlar sem engar.
Svo því sé til haga haldið þá hefur Gloria haldið því fram í viðtölum að Sepultura hafi ekki rekið hana, heldur hafi hún hætt að eigin frumkvæði vegna tillitsleysis sem henni hafi verið sýnt eftir að sonur hennar lést. Þá hafi Max ekki treyst sér til að starfa áfram með slíkum mönnum enda þótt hún hafi lagt hart að honum að yfirgefa ekki bandið.
Þó greri um heilt milli bræðranna og þeir eru nú saman í Cavalera Conspiracy, sem tróð upp á Eistnaflugi árið 2017, og eftir það band liggja fjórar breiðskífur, sú nýjasta frá 2017.
Síðan er það stjörnubandið Killer Be Killed sem Max stofnaði ásamt öðrum Íslandsvini, Troy Sanders úr Mastodon, Greg Puciato úr The Dillinger Escape Plan og fleirum fyrir nokkrum árum. Það ágæta band hefur gert tvær breiðskífur saman, þá seinni á síðasta ári.
Og nú hefur Go Ahead and Die bæst í hópinn og hverfandi líkur á því að Max Cavalera eigi eftir að falla verk úr hendi í bráð. Enda liggur okkar manni alltaf jafnmikið á hjarta.
Sitt er hvað, faðir og faðir
Kevin Stewart-Panko, gagnrýnandi vefmiðilsins Decibel, ber lof á plötu Go Ahead and Die og hefur umsögn sína á samanburði á tveimur ólíkum fjölskyldum: „Mál #1. Afkvæmið eyðir óheyrilegum tíma í að hlusta á og spila lög með Discharge, Hellhammer, Possessed, Broken Bones, Napalm Death og GISM. Faðirinn heyrir það og segir: „Hvur röndóttur, stofnum band, semjum lög og tökum upp plötu og látum svo mömmu þína útvega okkur samning við Nuclear Blast!“ Mál #2: Afkvæmið gerir nákvæmlega það sama. Faðirinn heyrir það og æpir meðan hann hvolfir í sig flösku af Johnnie Walker: „Slökktu á þessu drasli, hallærislegi undanvillingurinn þinn,“ (bein tilvitnun vel að merkja) áður en hann tekur sér leðuról í hönd og lætur höggin dynja á afkvæminu meðan móðirin röflar eitthvað um satanisma í bakgrunninum.“Hann lætur svo lesendum eftir að meta hvort hafi verið æskuheimili hans sjálfs árið 1986 og hvort heimili Cavalera-fjölskyldunnar árið 2021.