Sigurlaug Ásgerður Sveinsdóttir fæddist á Tjörn á Skaga 10. september árið 1924. Hún andaðist á Dvalarheimili aldraðra á Dalvík 14. júní 2021.

Foreldrar hennar voru Sveinn Mikael Sveinsson, fæddur á Hrauni 29.9. 1890, d. 7.4. 1932 og kona hans Guðbjörg Rannveig Kristmundsdóttir, fædd í Ketu 2.10. 1897, d. 18.6. 1967. Þau bjuggu í Kelduvík 1915-1923 en fluttu þá að Tjörn á Skaga og bjuggu þar til æviloka.

Systkini Sigurlaugar eru: María, f. 1916, Þorgeir Mikael, f. 1917, Guðbjörg, f. 1919, Sigrún Ingibjörg, f. 1920, Guðrún, f. 1923, Pétur Mikael, f. 1927, Steinn Mikael, f. 1930, Sveinn Guðbergur, f. 1932. Steinn og Sveinn lifa systur sína.

Sigurlaug ólst upp á Tjörn með systkinum sínum en hleypti ung heimdraganum, var í kaupavinnu og vistum í Húnaþingi og stundaði nám við Kvennaskólann á Blönduósi 1943-´44. Eftir áramótin 1945-´46 réðst hún sem ráðskona við bát í Sandgerði. Þar hitti hún mannsefnið, Anton Guðlaugsson, f. 15.4. 1920, d. 8.6. 2013, sjómann frá Dalvík. Hún flutti til Dalvíkur árið 1946 og voru þau Anton gefin saman í janúar 1947.

Börn Sigurlaugar og Antons eru sex: a) Guðbjörg, f. 1947, maður hennar var Níels Heiðar Kristinsson, d. 2019, þau skildu. Þau eiga 3 börn, 9 barnabörn og 5 barnabarnabörn. b) Elín Sigrún, f. 1948, maður hennar var Skafti Hannesson, d. 2020. Þau eiga 4 börn og 15 barnabörn. c) Anna Dóra, f. 1952, gift Sveini Sveinssyni, þau eiga tvo syni og 3 barnabörn. d) Arna Auður, f. 1955, maður hennar var Hreinn Pálsson, þau skildu. Þau eiga 2 börn og áður átti Arna eina dóttur, barnabörnin eru 7. e) Þórólfur Már, f. 1957, kvæntur Hrönn Vilhelmsdóttur, þau eiga tvö börn og tvö barnabörn. f) Árdís Freyja, f. 1967.

Þau Sigurlaug og Anton bjuggu alla tíð á Dalvík, lengst af í Lundi, Karlsbraut 13. Starfsvettvangur Sigurlaugar var innan heimilis meðan börn voru að komast upp. Hún sinnti þó kalli þegar vantaði vinnufúsar hendur og vann við síldarsöltun og saltfiskframleiðslu. Þegar börnin flugu úr hreiðrinu réðst hún til starfa á Dalbæ, dvalarheimili aldraðra, og vann þar til loka starfsævinnar.

Hún ræktaði snemma garðinn sinn og blómagarður var ætíð við Lund. Þegar betri tími gafst stækkaði hún garðinn og síðan hófu þau hjón trjárækt í Upsalandi þar sem þau höfðu áður brotið tún til ræktunar, því fyrr á árum héldu þau sauðfé til heimilisnotkunar eins og alsiða var. Sigurlaug var félagslega sinnuð, starfaði m.a. í Kvennadeild Slysavarnafélagsins á Dalvík, kvenfélagi og í félagsskap Lionessa. Hin síðari ár fór Sigurlaug að fást við það sem alltaf hafði heillað hana, handverk. Fyrr á árum saumaði hún allan fatnað á sín börn en nú fór hún að sauma, prjóna og mála og framleiddi mikið af bæði listmunum og nytjalist sem hún dreifði meðal afkomenda sinna.

Útför Sigurlaugar fer fram í dag, 23. júní 2021, frá Dalvíkurkirkju og hefst athöfnin klukkan 14.

Minning um móður

Mér andlátsfregn að eyrum berst.

Ég stari út í bláinn

og hugsa um það sem hefur gerst

til hjarta mér sú fregnin skerst

hún móðir mín er dáin.

Hve vildi ég móðir minnast þín,

en má þó sitja hljóður,

mér finnst sem tungan fjötrist mín,

mér finnst hver hugsun minnkast sín,-

því allt er minna móðir!

Þú varst mér ástrík, einlæg, sönn,

mitt athvarf, líf á brautum,

þinn kærleik snart ei tímans tönn,

hann traust mitt var í hvíld og önn,

í sæld og sorg og þrautum.

Þú geymdir heitan innri eld,

þótt ytra sjaldan brynni.

Ef kulda heims var sál mín seld,

ég sat hjá þér um vetrarkveld,

þá þíddirðu ísinn inni.

Sem varstu mér svo varstu þeim,

er veittir ævitryggðir.

Þótt auðs þér væri vant í heim,

þú valdir honum betra en seim,

þitt gull var dáð og dyggðir!

Hver var þér trúrri í stöðu og stétt,

hver stærri að þreki og vilja,

hver meiri að forðast flekk og blett,

hver fremri að stunda satt og rétt,

hver skyldur fyrri að skilja.

Þótt hafi ég spurt, – um heimsins svar

ég hirði ei hið minnsta;

ég dóm hans, móðir, met ei par,

því meira ég veit,- hver lund þín var

og sálar eðlið innsta.

Ég veit þú heim ert horfin nú

og hafin þrautir yfir;

svo mæt og góð, svo trygg og trú,

svo tállaus, falslaus reyndist þú,

ég veit þú látin lifir!

Ei þar sem standa leiðin lág,

ég leita mun þíns anda,-

er lít ég fjöllin fagurblá,

mér finnst þeim ofar þig ég sjá

í bjarma skýjabanda.

(SS)

Elsku mamma mín, ég mun ætíð sakna elsku þinnar, visku og vináttu.

Elín Antonsdóttir.

Í örfáum orðum vil ég minnast Sigurlaugar, tengdamóður minnar. Ég kynntist Laugu fyrst fyrir tæpum fimmtíu árum, það voru kynni sem ég hefði ekki viljað missa af. Hún var trúuð, réttsýn kona sem hélt vel utan um sína og alltaf tilbúin til að taka málstað lítilmagnans. Það var gott að koma í Lund til þeirra hjóna, finna þá hlýju sem þar ríkti og þiggja góðar veitingar sem alltaf var nóg af, bæði að magni og gæðum.

Margt mætti tína til af okkar löngu kynnum en það er óþarfi. Ég veit að þeir sem hana þekktu, og þeir voru margir, hafa sömu sögu að segja og það var ekki hennar háttur að hælast um eða stæra sig af einu eða neinu sem hún vissulega hefði getað gert. Elskuleg og góð manneskja er horfin yfir í sumarlandið og þar verður henni vel tekið. Þar bíður Toni og aðrir sem hún ugglaust gleðst yfir að mæta og hlynna að.

Hafi hún þökk fyrir sína veru hér á jörðu.

Sveinn Sveinsson.

Nú er hún amma horfin á braut.

Amma, sem alltaf hefur verið mér svo mikilvæg. Stoð og stytta í lífsins ólgusjó. Alltaf tilbúin til að þerra tár, hvetja, leiðbeina. Ég var aðeins ungbarn þegar ég fór að venja komur mínar í faðm ömmu og afa í Lundi. Ólst þar upp að stórum hluta, að mér finnst. Þráðurinn alltaf verið sterkur. Seinna þegar ég fór að búa og eignaðist mitt fyrsta barn, bjó ég í nánast næsta húsi við ömmu og afa og stutt var að hlaupa á milli. Jenný, dóttir mín, var fljót að komast á bragðið og tölti yfir „Lautina“ til ömmu og afa um leið og henni var til þess treystandi. Alltaf var gott að koma í Lund.

Amma kenndi mér margt og miðlaði af sinni visku. Hún kenndi mér meðal annars að prjóna og frá byrjun lagði hún áherslu á vandvirkni. Rekja upp ef ég ekki væri ánægð með verkið. Þetta hef ég haft að leiðarljósi við mína handavinnu í gegnum tíðina. Náungakærleikur, þolinmæði og æðruleysi eru líka hlutir sem mér finnst amma hafa haft fyrir mér. Og nægjusemi. Ömmu fannst alltof mikil heimtufrekja í gangi í þjóðfélaginu, fólk ætti bara að vera ánægt þegar það hafði í sig og á. Það var hennar skoðun. Hún hafði nefnilega skoðanir á flestu, allt fram á síðustu stundu og fylgdist vel með. Málefni líðandi stundar voru henni hugleikin og spunnust oft skemmtilegar umræður um það sem efst var á baugi hverju sinni.

Amma var af kynslóð sem lifað hefur ótrúlegar breytingar. Við ræddum það oft. Hún, sem ólst upp í sveit á fyrri hluta síðustu aldar við fremur frumstæðar aðstæður, fylgdist ótrúlega vel með tækninni og naut þess að tala við ættingja í gegnum myndsímtöl á síma eða spjaldtölvu þegar þannig bar undir.

Amma elskaði fólkið sitt. Fylgdist vel með hverjum sprotanum sem við ættstofninn bættist. Gladdist yfir hverju barni sem væntanlegt var og mundi nöfn allra í hópnum. Bjó til púða, teppi eða aðra persónulega muni og sendi um hver jól til þeirra yngstu. Hún hafði ótrúlega næmt auga fyrir samsetningu lita við sína handavinnu og gilti þar einu hvort um var að ræða lopapeysuprjón eða málun á tau.

Amma elskaði blóm. Það fór ekki fram hjá neinum sem kom í garðinn í Lundi. Ófáum stundum eyddi hún ásamt afa við ræktun garðsins. Byrjaði á vorin að sá og prikla. Svo var að bera plönturnar út í sólina á morgnana og inn á kvöldin meðan enn var næturkuldi. Síðan þurfti að setja niður. Því litskrúðugra, því betra.

Minningarnar eru náttúrlega óteljandi og verða geymdar í hjarta mér. En fyrst og fremst er ég full þakklætis fyrir að hafa átt Sigurlaugu Sveins að ömmu svona lengi. Það voru sannkölluð forréttindi.

Takk amma, fyrir allt sem þú varst mér og kenndir mér.

Birgitta.

Elsku amma mín er farin yfir í Sumarlandið. Ég er þakklát fyrir hana og okkar tíma saman. Hún var alltaf svo hlý við mig og mína. Amma var góð við alla, hún var einstaklega vönduð manneskja. Margar góðar minningar um ömmu og afa í Lundi koma upp í hugann. Lummuilmurinn, maturinn hennar ömmu, en hún var gæðakokkur. Eldhúsið var uppfullt af góðum anda, hlýrri nærveru og góðum mat. Garðurinn var litrík ævintýraveröld fyrir okkur krakkana þar sem þau hjónin nostruðu við allt. Það var gott að vera í Lundi. Það var gott að vera hjá ömmu og afa.

Við amma voru miklar vinkonur og áttum mörg góð og löng samtöl í gegnum tíðina. Hún var hreinskilin og heil. Við gátum rætt allt milli himins og jarðar og alltaf gátum við hlegið saman. Amma hafði svo innilegan og smitandi hlátur. Hún talaði oft um hvað hún var þakklát fyrir lífið og sérstaklega þakklát fyrir alla afkomendur sína, heilsu þeirra og heilbrigði. Það fannst henni ekki sjálfgefið.

Amma var listakona af Guðs náð. Í henni bjó óþrjótandi sköpunarkraftur. Hún var alltaf að framleiða og skapa og ég leit mikið upp til hennar á því sviði. Í handavinnunni útbjó hún afskaplega vandaðar gjafir handa fólkinu sínu og voru gjafirnar frá henni ávallt mikið tilhlökkunarefni hjá mér og mínum börnum. Það er ómetanlegt fyrir okkur öll að eiga þessi fallegu verk eftir hana.

Það var mikilvægt fyrir ömmu að mæta í fermingar afkomenda sinna. Fyrir þremur árum, þá á 94. aldursári, þá taldi hún það ekki eftir sér að ferðast frá Dalvík og í Kópavoginn til að vera með okkur á þessum degi sonar míns. Það var okkur fjölskyldunni dýrmætt. Eftir situr þó depurð hjá yngstu dóttur minni sem fermist næsta vor. Það mun vanta ömmu og elsku pabba. Við mægður vorum sammála um að það er stundum erfitt að vera yngstur því þá hefur maður fólkið sitt hjá sér í styttri tíma.

Minningarnar ylja elsku mamma mín, Guðbjörg, Anna Dóra, Arna, Þórólfur, Árdís, afkomendur og aðrir sem þekktu þessa dásamlegu konu.

Það hafa verið forréttindi fyrir mig að eiga svona góða fyrirmynd í lífinu.

Elsku amma mín ég mun sakna þín.

Þín alltaf,

Lovísa og fjölskylda.

Við systkinin eigum margar góðar minningar með henni ömmu okkar Laugu í Lundi.

Það hefur alltaf verið einstaklega gott að koma til Dalvíkur. Það er ekki vegna tilkomumikillar náttúru og fjallahrings sem þó er, heldur vegna þess að þar hefur Lauga verið alla okkar tíð. Hún var óhaggandi miðpunktur og festa, full af ást og kærleika. Við eyddum mörgum sumrum í Lundi og leið einna best þar. Þar snerist lífið um garðinn, bílskúrinn og Blettinn, allt ævintýrastaðir fyrir lítinn polla og litla diddu. Á veturna varð garðurinn í Lundi að völundarhúsi af göngum gröfnum í snjó. Amma var þar alltaf til staðar með yfirvegun og væntumþykju.

Þótt hún hafi fært sig um set yfir á Dalbæ þá breyttist aldrei tilfinningin sem fylgdi því að koma til Dalvíkur því maður treysti því að Lauga væri á staðnum. Hvernig ætli tilfinningin verði að koma til Dalvíkur framvegis?

Fyrir nokkrum árum fóru Anton og fleiri úr fjölskyldunni með ömmu í ævintýraferð til London. Þau rúlluðu henni um stræti og torg, heilsuðu upp á drottninguna og amma bauð okkur síðan út að borða. Hún ljómaði allan tímann og allir samferðalangar smituðust af þessum ljóma. Anton hefur oft komið til London en aðeins einu sinni með ömmu, það er líka langeftirminnilegasta skiptið. Í þessa örfáu daga fékk London eitthvað að láni frá Dalvík sem gerði staðinn meiri.

Minningarnar eru þó ekki aðeins bundnar við staði heldur lifa í hversdagslegum athöfnum. Það verður auðvelt að minnast hennar í hvert skipti sem við tökum til hendinni í garðinum, vökvum blómin eða finnum lykt af nýslegnu grasi. Hún Lauga amma í Lundi verður því alltaf með okkur þó við söknum ömmu okkar mikið.

Anton Heiðar og Embla Sól.

Jæja amma. Þá kom að því. Það verður víst ekki úr því að við leigjum Hörpuna fyrir 100 ára afmælið þitt. Það var leitt. Ég var farinn að hlakka til (og kvíða aðeins fyrir líka út af kostnaðinum) og ég held reyndar að þér hafi ekki fundist hugmyndin alslæm þótt þú hafir alltaf hlegið þegar ég minnti þig á hana. Við hefðum haft lúðrasveit og flugeldasýningu og að minnsta kosti þrjá karlakóra. Þetta hefði orðið eftirminnilegt partí.

Ég hafði annars ágætt lag á því að koma þér til að hlæja. Þurfti svo sem ekki mikið til. Bara að haga mér eins og galgopinn sem ég er. Ég hef ekki tölu á því hve oft mér hefur verið sagt að hætta að láta svona barnalega. Þeir eru færri sem hafa beðið mig um að glata aldrei barninu í sjálfum mér eins og þú. Ég geri ráð fyrir að þú hafir haft speki þess skeggjaða á fallegu myndinni fyrir ofan rúmið þitt og afa í huga þegar þú sagðir þetta við mig. Þú varst trúuð og það einkenndi bæði líf þitt og lundarfar. Það er ekki í tísku núna að vera trúaður. En ég varð svo sem aldrei var við það að þú hefði áhyggjur tískubylgjum. Einn af þínum óteljandi kostum.

Þær eru margar minningarnar sem ég tengi við þig en ég ætla ekki að bera þær á borð á þessum vettvangi. Þetta eru mínar minningar og þegar til tekur finn ég að ég er nískur á þær. Aðrir verða bara að finna sér eitthvað annað að lesa. Góði dátinn Svejk er ágætur. Ein er þó minningin sem mér finnst mér eiginlega skylt að rifja upp og það minningin um pönnukökurnar þínar. Maður minn lifandi, þvílíkar pönnukökur. Aldrei nokkurn tímann, hvorki fyrr né síðar, hef ég smakkað aðrar eins pönnukökur. Hef ég þó bragðað á þeim nokkrum um ævina. Það var alveg sama hvort þær voru bornar á borð með sykri, púðursykri, sultu eða rjóma eða bara öllu heila klabbinu. Þær voru alltaf jafn dýrlegar. Ég fékk að sjálfsögðu uppskriftina hjá þér. Aðrir í fjölskyldunni gerðu það sama. Engum tókst hins vegar að galdra fram þetta lostæti. Ég skil auðvitað núna hvað vantaði upp á hjá okkur. Það varst ekki þú sem hélst um skaftið á pönnunni. Ég er hræddur um að þeir feðgar þarna efra eigi eftir að þurfa að bæta við götum í beltið þegar þú ferð að rúlla pönnsur ofan í þá og afa.

Ég iðrast þess núna að hafa ekki verið duglegri við að hitta þig. Fara oftar til þín. Dvelja lengur. Tala meira við þig. Því verður ekki breytt úr því sem komið er. Ég var lengi þeirrar skoðunar að þú ættir að verða sú fyrsta til að sigra Elli kerlingu og lifa að eilífu. Eigingjörn ósk að sjálfsögðu og ekki í samræmi við þinn eigin vilja. Það veit ég vel. Það hefði engu að síður verið gott að geta haft þig aðeins lengur hjá okkur. Þú lýstir okkur hinum leið í myrkrinu. Nú er bara að vona að við náum höfn þótt ljósið í vitanum sé slokknað. Hvíldu í friði amma mín. Við leigjum Hörpuna bara seinna.

Teitur Már Sveinsson.