Sjónvarpsþáttaröðin Katla kom lokins á Netflix á þjóðhátíðardaginn, 17. júní, og ekki þurfti að bíða lengi eftir því að fólk skiptist í fylkingar hinna jákvæðu og neikvæðu á samfélagsmiðlum. Liðin er sú tíð að fólk gat aðeins tjáð skoðanir sínar við kaffivélar vinnustaða, í heitum pottum eða með því að senda bréf. Nú erum við öll orðin sérfræðingar í sjónvarpsþáttagerð, sem er svo sem gott og blessað, hverjum auðvitað frjálst að hafa sína skoðun og gott fyrir listina að hún sé rökrædd. Verra er hins vegar þegar fólk fríkar út yfir skoðunum annarra. Þetta er nú bara skáldskapur, látið ekki svona!
Einn landskunnur, fyrrverandi gagnrýnandi fann Kötlu flest til foráttu og risu þá margir upp á afturfæturna á fésbókinni. En þetta er bara skoðun eins manns, nota bene, og varla ástæða til að fríka út, er það? Og talandi um frík þá er nóg af slíkum í Vík og nágrenni og er ég þá að tala um Kötlu. Fólk sem ýmist er dáið eða horfið birtist skyndilega á ný (VARÚÐ SPILLIEFNI!) og jafnvel líka afrit af fólki sem enn er sprelllifandi þó að vísu ekki mjög líflegt. Hvað veldur þessum furðum? Þetta er stóra spurningin í Kötlu og eflaust hver áhorfandi með sína kenningu þar til allt virðist komið á hreint undir lokin. Eða hvað? Allt er galopið fyrir Kötlu 2, svo mikið er víst.
Helgi Snær Sigurðsson