Astrid veit fátt skemmtilegra en að fara á kajak fyrir vestan.
Astrid veit fátt skemmtilegra en að fara á kajak fyrir vestan.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Astrid Boysen hárgreiðslukona veit fátt skemmtilegra en að fara á kajak á spegilsléttum sjónum og heilsa upp á selina og virða fyrir sér náttúrufegurðina í Skutulsfirði. Elínrós Líndal | elinros@mbl.is

Astrid Boysen og eiginmaður hennar Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, fluttu á Vesturland fyrir rúmu ári þegar Birgir tók við stöðu sinni í bæjarfélaginu.

„Maðurinn minn er ráðinn tímabundið fyrir vestan og því hef ég verið að fara á milli heimila okkar á þessum tíma.

Ég kann einstaklega vel við mig á Ísafirði enda á ég rætur að rekja þangað.

Afi minn fæddist á Ísafirði og bjó í Faktorshúsinu í Efstakaupstað, sem er með fallegri húsum á Ísafirði að mínu mati. Annars finnst mér allur bærinn mjög fallegur.“

Pollurinn eins og spegill

Hvernig verður sumarið?

„Ég vona að það fari að láta sjá sig almennilega en annars er veðursælt hérna fyrir vestan eins og allir vita. Lognið er oft svo mikið að pollurinn verður eins og spegill yfir að líta. Við þannig aðstæður er himneskt að fara á kajak á spegilsléttum sjónum og heilsa upp á selina og virða fyrir sér náttúrufegurðina hérna í Skutulsfirði.“

Getur þú sagt mér frá þínum uppáhaldsstöðum fyrir vestan?

„Möguleikarnir á útivist fyrir vestan eru nánast endalausir. Á veturna er skíðasvæðið eitt það allra besta að mínu mati. Hér eru frábærar brekkur og skíðagöngusvæðið á engan sinn líka. Á sumrin eru bókstaflega allir á hreyfingu. Hér eru endalausar hlaupaleiðir, fjallahjólaleiðir um allt og skemmtilegar gönguleiðir. Ég er dugleg að nýta mér skíðasvæðið á veturna en á sumrin er það kajaksportið sem á hug minn allan og nota ég hvert tækifæri til að fara á kajak á Pollinum og þá oftar en ekki með Veigu Grétarsdóttur, vinkonu minni. Þannig að uppáhaldsstaðirnir eru sennilega Tungudalurinn á veturna og Pollurinn á sumrin.“

Búa með stórkostlegt útsýni

Hvar búið þið í bænum?

„Við búum á besta stað í bænum við Sindragötuna með stórkostlegt útsýni yfir höfnina, bæinn, Tungudalinn og skíðasvæðið.“

Áttu þér uppáhaldsveitingastað?

„Það er úr nóg að velja þegar kemur að veitingastöðum. Veitingastaðurinn Húsið er með góðan mat og fiskurinn þar er alltaf góður. Hótelið er líka með frábæran veitingastað og svo er Tjöruhúsið eitthvað sem enginn má láta framhjá sér fara sem kemur vestur.“

Hvað um hótel eða gistingu?

„Hótel Ísafjörður er frábært hótel og hefur verið í fararbroddi við að bjóða upp á sínar landsfrægu skíðagönguferðir enda er Ísafjörður skíðagöngubærinn.“

Menning og listir blómstra fyrir vestan

Hvað með firðina og fjöllin?

„Við erum mjög dugleg að ferðast um firðina og kíkja í þorpin hér í kring sem hvert hefur sinn sjarma. Flateyri, Suðureyri og Þingeyri. Það er alltaf gaman að kíkja á Dynjanda, einn fallegasta foss landsins, og keyra Dynjandisheiðina og kíkja á suðurfirðina sem hver hefur sinn sjarma einnig.“

Þegar kemur að menningu og listum í bænum þá hefur minna verið um viðburði en áður vegna kórónuveirunnar.

„Við höfum náð að sjá leiksýninguna Fullkomið brúðkaup í Edinborgarhúsinu sem var mjög skemmtilegt. Við höfum farið á tónleika víða á Vestfjörðum, meðal annars þegar Bríet tónlistarkona kom á Þingeyri og Svavar Knútur spilaði í Húsinu. Síðan fórum við á Saumaklúbbinn í Gamla bíó sem var dásamleg skemmtun. Þannig að menning og listir blómstra hér eins og víðar um landið.“

Höf.: Astrid Boysen