Hér má sjá hluta fjölbýlishússins á Hafnarbraut 12 (F-G) á Kársnesi. Íbúðir í þessum hluta verða afhentar í haust.
Hér má sjá hluta fjölbýlishússins á Hafnarbraut 12 (F-G) á Kársnesi. Íbúðir í þessum hluta verða afhentar í haust. — Teikning/Arkís arkitektastofa
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Endurfjármagna þurfti Upphaf fasteignafélag. Nú hefur það hins vegar selt þorra íbúða sem það setti á markað. Þar með talið á Hafnarbraut á Kársnesi.

Upphaf fasteignafélag hefur selt 24 af 58 íbúðum í síðari áfanga Hafnarbrautar 12 (F-G) en þær fóru í sölu fyrir rúmum þremur vikum.

Virðist því ekkert lát á spurn eftir nýjum íbúðum á Kársnesi.

Erlendur Fjeldsted, framkvæmdastjóri Upphafs, segir síðustu íbúðina hafa selst á nyrðri hluta Hafnarbrautar 12 (A-E) í síðustu viku. Þar er 71 íbúð og því samtals seldar 95 af 129 íbúðum á reitnum.

Íbúðirnar í F-G verða afhentar í september og október í haust.

Þá eru aðeins tvær íbúðir óseldar af 86 á Hafnarbraut 14 en tvær íbúðir í húsinu eru fráteknar.

Alls seldar um 180 íbúðir

Sala íbúða á Hafnarbraut 12 A-E hófst í febrúar en nokkrum vikum síðar á Hafnarbraut 14. Telst til tíðinda á íslenskum fasteignamarkaði að um 180 nýjar íbúðir skuli hafa selst svo hratt á aðliggandi reitum, en nokkrar þakíbúðanna kosta vel á annað hundrað milljónir.

Upphaf fasteignafélag er í eigu GAMMA Novus. Þegar Upphaf hafði verið endurfjármagnað stóð til að verktaka- og þjónustufyrirtækið VHE myndi ljúka uppbyggingu á Hafnarbraut 12. Svo fór að aðilar sömdu um að fá annan verktaka að verkinu og tók Þingvangur yfir uppbygginguna.

Ásamt Hafnarbrautinni á Kársnesi var Upphaf að byggja íbúðir við Gerplustræti 7-11, við Vefarastræti 40-44 og við Bjarkarholt 7-9 og 21-29 í Mosfellsbæ og á Holtsvegi 2-6 í Urriðaholti í Garðabæ.

Flestir reitirnir uppseldir

Erlendur segir allar íbúðirnar á þessum reitum seldar, alls 248 íbúðir, að frátöldum 34 óseldum íbúðum á Hafnarbraut 12 F-G. Kórónuveirufaraldurinn setti strik í reikninginn hjá Upphafi, eins og hjá fleiri fasteignafélögum, en Erlendur segir verkefnin hafa gengið eins og í sögu.

Varðandi framhaldið segir Erlendur að stjórn Upphafs muni taka stöðuna í haust, þegar afhendingu íbúða á Hafnarbraut lýkur, og ákveða næstu skref hjá félaginu.

„Við erum að skila af okkur öllum þeim fjármunum sem voru lagðir inn í félagið. Það er ljóst að félagið verður áfram til í nokkur ár en það ber meðal annars ábyrgð gagnvart kaupendum,“ segir Erlendur sem útilokar ekki fleiri verkefni.