Þorvaldur Jóhannes Elbergsson fæddist í Rimabúð á Kvíabryggju 11. desember 1934. Hann andaðist á Dvalarheimilinu í Stykkishólmi 11. júní 2021.

Foreldrar hans voru Ásgerður Guðmundsdóttir, f. 8.10. 1909, d. 28.1. 1997 og Elberg Guðmundsson, f. 10.12. 1901, d. 1.1. 1987.

Systkini Þorvaldar voru níu, þau eru: 1. Guðmundur Hinrik, f. 1927, d. 1983,

2. Ragnheiður María, f. 1929, d. 1997, 3. Kristín Jakobína, f. 1930, d. 1931, 4. Jón Beck, f. 1933, d. 2009, 5. drengur, f. 1936, d. 1936, 6. Ágúst, f. 1942, 7. Halldóra Eyfjörð, f. 1943, 8. Ragnar Vilberg, f. 1946, 9. Elínborg, f. 1949.

Barn: Elberg, f. 12.1. 1970, móðir Brynhildur Kristinsdóttir. Kona Elbergs er Margrét Stefánsdóttir, f. 21.11. 1975 og eru þau búsett í Hveragerði. Börn þeirra eru: Rakel Ósk, f. 20.12. 2000, Stefán Máni, f. 26.10. 2009, Rebekka Sól, f. 18.11. 2009.

Þorvaldur ólst upp á Kvíabryggju hjá foreldrum sínum og systkinum. Þau fluttu til Grundarfjarðar þegar þar fór að myndast byggðarkjarni um 1942 og fluttu svo 1945 í nýbyggt hús, Bjarmaland (Grundargata 23), sem faðir hans byggði ásamt fleirum og bjó hann þar til dánardags. Hann fór ungur að vinna, byrjaði snemma á sjó, fyrst sem háseti, síðan aflaði hann sér vélstjóraréttinda og fór í stýrimannaskólann 1964-1965. Hann var vélstjóri og skipstjóri á ýmsum bátum, lengst af á Gnýfara sem hann átti ásamt fleirum. Eftir að hann kom í land var hann m.a. hafnarvörður og fulltrúi hjá Brunabótafélagi Íslands. Valdi greindist með illvígan sjúkdóm fyrir þremur árum og dvaldist hann á heimili sínu þar til fyrir sex mánuðum, en fór þá á Sjúkrahúsið og síðan Dvalarheimilið í Stykkishólmi.Útför hans fer fram frá Grundarfjarðarkirkju 23. júní 2021 kl. 13.

Virkan hlekk á streymi má nálgast á:

https://www.mbl.is/andlat

Valdi frændi minn hefur verið órjúfanlegur hluti af lífi mínu frá upphafi. Flestar af fyrstu minningum mínum eru af Valda, að hlaupa á móti honum þegar hann sótti mig í skólann, af hljóðinu þegar hann tæmdi pípuna sína, af hlýja faðmlaginu hans, að tína skeljar með honum í fjörunni í Grundarfirði, að fara að veiða með honum með litlu gulu veiðistönginni sem hann gaf mér og beið alltaf eftir mér í bastkörfu í anddyrinu hjá honum, þótt ég hafi nú aldrei náð að veiða neitt með henni.

Að fara í Grundarfjörð gaf mér alltaf fiðrildi í magann, ég gat ekki haldið utan um spenninginn og var vön að telja niður dagana þangað til að við færum með rútunni vestur. Og í hvert skipti sem ég og mamma lentum í bænum þá beið hann okkar á bensínstöðinni með hlýja brosið sitt, að ég held jafn spenntur að sjá okkur og við vorum að sjá hann. Það fyrsta á dagskrá; kveikja á vöfflujárninu, blanda Vilko-duftinu saman við vatn í brúnu glerskálinni og síðan borða þær með sykri og sultu, standandi öll saman í eldhúsinu.

Það sem breyttist heldur aldrei var hversu erfitt það var að kveðja elsku Valda minn, ég vandist því aldrei, í hvert skipti sem við keyrðum burt frá húsinu þá fékk ég sting í magann af söknuði, þótt við reyndum alltaf að brosa okkar breiðasta á meðan við vinkuðum honum þangað til hann hvarf fyrir hornið.

Mig dreymdi hann fyrir nokkrum dögum, hann var í svörtu flíspeysunni sinni og inniskónum sínum með sixpensarann á höfðinu. Hann labbaði fyrir hornið og hjartað mitt sökk, ég hljóp á eftir honum því ég var svo dauðhrædd um að hann yrði horfinn þegar ég loksins næði til hans. En í staðinn stóð hann þarna og horfði á mig með fallegu augunum sínum og með opinn faðminn. Ég hrundi í fangið á honum og grét og grét og grét, og á meðan klappaði hann mér á bakið og sagði mér að hann myndi alltaf vera hjá mér, sama hvað.

Ég samdi þetta til hans:

Þó að áin stundum tvístrist

og skilji okkar leiðir að,

þá vittu til að tíminn tengir

okkur aftur á sama stað.

Og þó að sorgin ekki hverfi,

þá er eitt sem ég lofa hér

ég ekkert trega; við engan erfi

ef ganga fæ ég á ný með þér.

Alexandra Eyfjörð.

Elsku Valdi minn, þetta er það sem ég er búin að kvíða lengi, að kveðja þig.

Við eigum okkur langa sögu saman, en mínar bestu minningar tengjast margar hverjar þér. Þú kenndir mér að tefla þegar ég var 7 ára, og voru þær margar helgarnar sem við sátum í Elbergshúsi og tefldum, og fannst mér alltaf jafn magnað að ég næði að vinna þig í hvert einasta skipti. Eftir skákina sagðir þú mér söguna af Búkollu með tilheyrandi hljóðum, sem vakti alltaf mikla kátínu hjá mér.

Við gerðum svo margt saman, fórum í veiðitúra og í berjamó og á skauta á veturna. Ein minning sem mér þykir sérstaklega vænt um er þegar ég og Ragnheiður pökkuðum inn öllum pökkunum þínum, fórum síðan í Pöllubúð og fengum að velja okkur 2 bækur hver í jólagjöf. Stundum pökkuðum við meira að segja inn gjöfunum okkar frá þér.

Síðastliðna daga höfum við Alexandra verið að rifja upp allar frábæru ferðirnar okkar vestur til þín í gegnum árin. Það var alltaf svo yndislegt að koma til þín, og ekki má gleyma heldur ferðinni okkar til Berlínar sem þú varst svo ánægður með, þar sem þú varst svo sprækur og svo tilbúinn að labba með okkur allan liðlangan daginn.

Á hverju föstudagskvöldi spjölluðum við saman til að fara yfir enska boltann og gera miða, sem gekk nú misvel en þá sagðir þú alltaf að þetta kæmi hjá okkur næst.

Þær eru margar minningarnar og ómögulegt að fara yfir þær allar hér.

En Valdi minn var gull af manni, hann var hreinn og beinn í tali, jarðbundinn, vildi hafa röð og reglu á hlutunum og alltaf einstaklega hjálpsamur. Hann var vingjarnlegur og þægilegur í umgengni, en var nú líka sérvitringur eins og allt besta fólkið er. Hann var einstaklega nægjusamur, hann óskaði aldrei eftir neinu fyrir sjálfan sig, en vildi allt fyrir okkur gera.

Þú varst minn besti vinur, þú varst kletturinn minn og skjólið mitt, og ég vona að ég hafi náð að vera kletturinn þinn þessi síðustu ár í veikindunum þínum. Þú áttir marga góða að og eiga Laggi og Matta þakkir skildar fyrir alla þá ást og umhyggju sem þau sýndu þér. Við ræddum það oft hversu heppinn þú varst að eiga þau að. En við vorum öll heppin að eiga þig að og hafa haft þig í okkar lífi.

Elsku Valdi minn, ég kveð þig með miklum söknuði.

Valdís.

Okkur langar að minnast elsku Valda frænda.

Hann var eiginlega þriðji afi barnanna okkar, hann var þeim og okkur mjög góður.

Ég veit að Valdi var tilbúinn að fara þó að við vildum hafa hann hjá okkur lengur.

Valdi var með frábæran húmor og gat sagt skemmtilegar sögur frá fyrri tíð.

Hann var líka stríðinn eins og þeir bræður eru.

Ég minnist allra Þorláksmessukvöldanna, jóla og áramóta sem við áttum öll saman, og allra góðu stundanna í gegnum tíðina, þessar minningar eru fjársjóður í dag.

Það er erfitt að kveðja, en nú hefur þú fengið hvíldina sem þú þráðir.

Elsku Valdi, þín er svo sárt saknað.

Ragnar Börkur, Arna, Ásbergur, Kristinn Þór og Karen Rut.