Manchester City hampaði enska meistaratitlinum á síðustu leiktíð.
Manchester City hampaði enska meistaratitlinum á síðustu leiktíð. — AFP
Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Á morgun hefst uppboð á sýningarrétti fyrir ensku úrvalsdeildina í fótbolta hér á landi 2022 – 2028.

Samkeppniseftirlitið á enn eftir að úrskurða um hvort útsendingar frá enska boltanum flokkist sem sérmarkaður eða ekki eftir að hafa ýjað að þeim möguleika í frummati sínu fyrir tæpum tveimur árum, að sögn Magnúsar Ragnarssonar, framkvæmdastjóra sölusviðs Símans, sem er með sýningarrétt enska boltans á Íslandi. Hann segir þetta mjög bagalegt. Óvissan í málinu hafi gert að verkum að Síminn hafi ákveðið selja efnið í heildsölu til bæði Stöðvar 2 og Nova til að vera ekki brotlegur við mögulegan úrskurð eftirlitsins. Ef skýrt lægi fyrir að enski boltinn væri ekki sérmarkaður hefði Símanum ekki verið skylt að selja efnið í heildsölu.

Magnús segir forsvarsmenn Samkeppniseftirlitsins ekki hafa svarað ítrekuðum fyrirspurnum um málið en óvissan gerir að verkum að sögn Magnúsar að erfiðara er að verðmeta sýningarrétt efnisins. Á morgun verður opnað fyrir tilboð í keppnistímabilið 2022 – 2028.

Magnús segir að Síminn ætli að bjóða í pakkann, en ætla má að bæði Sýn og Viaplay verði líka meðal tilboðsgjafa. Sýn var með sýningarréttinn áður en Síminn bauð betur í síðasta útboði og hreppti hnossið til þriggja ára. Sýn er með sýningarréttinn á Evrópumóti karla í knattspyrnu sem nú stendur yfir. Viaplay hefur tryggt sér sýningarrétt á öllum landsleikjum íslenska karlalandsliðsins í fótbolta frá 2022 til 2028 ásamt því sem fyrirtækið hefur réttinn á Meistaradeild Evrópu ásamt Sýn.

Allir í boði aftur

Eins og fram kemur á vef SportBusiness er í boði réttur til beinna útsendinga frá öllum leikjum ensku úrvalsdeilarinnar, 380 að tölu. Magnús segir ánægjulegt að sjá að sú breyting sem varð í kórónuveirufaraldrinum, að sýna megi frá öllum leikjum, haldi sér. Áður voru leikirnir sem sýna mátti frá um eitt hundrað færri.

Í frétt SportBusiness segir að enska úrvalsdeildin hyggist nú gera sams konar samning og gerður var við Nordic Entertainment (NENT) group, eiganda Viaplay, en fyrirtækið er með sýningarréttinn í Svíþjóð, Noregi, Danmörku og Finnlandi. Sá samningur er til sex ára, eða frá 2022 til 2028. Samningurinn er fyrsti sex ára samningurinn sem gerður hefur verið á milli ensku úrvalsdeildarinnar og evrópskrar sjónvarpsstöðvar.

Magnús telur að niðurstaða útboðsins gæti legið fyrir innan viku. Enski boltinn hefur gengið vel hjá Símanum og mikil ánægja er með efnið að sögn Magnúsar. „Við gætum ekki verið sáttari. Enski boltinn var í vetur aðgengilegur á 55 þúsund heimilum og við sáum áhorfstölur sem aldrei hafa sést hér á landi áður.“