Tók Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, afstöðu gegn einstaklingsfrelsinu í gær? UEFA sá ástæðu til að beita sér gegn því að Allianz-leikvangurinn glæsilegi yrði lýstur upp í regnbogalitunum þegar leikur Þýskalands og Ungverjalands fer þar fram á EM karla.
Tók Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, afstöðu gegn einstaklingsfrelsinu í gær? UEFA sá ástæðu til að beita sér gegn því að Allianz-leikvangurinn glæsilegi yrði lýstur upp í regnbogalitunum þegar leikur Þýskalands og Ungverjalands fer þar fram á EM karla. Það gat UEFA gert í krafti þess að mótið er á vegum UEFA. Ekki er beinlínis hægt að svara spurningunni játandi en segja má á móti að UEFA hafi misst af tækifæri til að standa með einstaklingsfrelsinu.

UEFA vísar í reglur sínar um að stjórnmál og trúmál eigi ekki heima í sparki á vegum sambandsins. Bendir UEFA jafnframt á að með þessu hafi Þjóðverjarnir ætlað að senda Ungverjum skýr skilaboð vegna lagasetningar í Ungverjalandi. En þarf UEFA endilega að túlka þetta sem stjórnmál? Þetta er mannréttindabarátta sem heldur áfram á meðan stjórnmálamenn vilja skipta sér af því hver er skotinn í hverjum. Eins og pólitíkusum komi það einhvern skapaðan hlut við.

Frjálslyndi hefur því miður ekki náð að dreifa sér jafn örugglega um Evrópu og kórónuveiran. Víða í austurhluta álfunnar, og miðri álfunni, þarf fólk að berjast fyrir því að fá að elska og fyrir því að vera elskað. Guðjóni Vali Sigurðssyni var meinað að bera fyrirliðaband í regnbogalitunum á EM í Póllandi 2017. Okkar maður smellti þá regnbogalitunum á bomsurnar.

Væri ekki meiri bragur á því að íþróttasamböndin evrópsku tækju slaginn með ástinni heldur en að forðast að styggja þá sem eru í liði með mannvonskunni? Um alla Evrópu eru áhorfendur á knattspyrnuleikjum að skyrpa út úr sér hommahatri í hverri einustu viku. Leikmennirnir tala svo ekki um annað en hversu ánægjulegt sé að þetta fólk fái aftur að sækja leikina eftir takmarkanir.