Héraðsdómur í Svendborg í Danmörku dæmdi í gær íslenskan karlmann í fjögurra ára fangelsi fyrir ítrekuð kynferðisbrot gegn dóttur sinni. Einnig var manninum vísað úr landi í Danmörku að lokinni afplánun dómsins. Brotin framdi maðurinn gegn stúlkunni á árunum 2006 til 2010 eða frá því hún var fimm ára gömul þar til hún varð níu ára. Stúlkan er nú danskur ríkisborgari.
Í tilkynningu frá lögreglunni á Fjóni, sem Ritzau-fréttastofan vitnar til, segir að maðurinn, sem nú er 51 árs, hafi ávallt lýst yfir sakleysi sínu við réttarhöldin og hafi þegar áfrýjað dómnum til Eystri landsréttar. Maðurinn var fundinn sekur um að hafa nauðgað dóttur sinni þegar þau voru á Íslandi og einnig í sumarhúsi á Fjóni. Stúlkan hefur ekki átt nein samskipti við föður sinn frá árinu 2010.
Embættismenn í Nyborg á Fjóni kærðu málið til lögreglu árið 2018 eftir að stúlkan greindi frá því hvað hún hefði upplifað í æsku. Við rannsókn lögreglu kom í ljós að maðurinn dvaldi á Spáni og hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald að sér fjarverandi í júní á síðasta ári. Í kjölfarið var gefin út evrópsk handtökuskipun á hendur manninum og hann var handtekinn í Alicante í október.
Í tilkynningu lögreglunnar segir að málið sé að mörgu leyti óvenjulegt. Um sé að ræða fjölda brota, sem hinn ákærði hafi framið gegn eigin dóttur. Þá hafi liðið langur tími frá því brotin voru framin og þar til þau voru kærð. Því hafi ákæruvaldið orðið að reiða sig á framburði vitna því engin bein sönnunargögn hafi verið fyrir hendi. Það hafi ráðið úrslitum að stúlkan hafði trúað tveimur vinkonum sínum fyrir því sem gerðist tiltölulega skömmu eftir atburðina.