Jón Á. Hjörleifsson fæddist í Reykjavík 2. mars 1930. Hann lést á Landspítalanum 10. júní 2021.

Foreldrar hans voru Hjörleifur Ólafsson stýrimaður, fæddur 24. maí 1892 í Keflavík, Rauðasandshreppi, dáinn 2. júlí 1975, og Halldóra Narfadóttir húsmóðir, fædd 26. júní 1897 að Haukagili í Hvítársíðu, dáin 19. júlí 1982.

Systkini Jóns eru Guðrún, f. 1927, Þuríður, f. 1931, Leifur, f. 1935, d. 2017, og Narfi, f. 1936.

Eiginkona Jóns er Lilja Jónsdóttir húsmóðir, f. 2. maí 1927 að Brúnavallakoti á Skeiðum. Foreldrar hennar voru Jón Helgason, f. 1895, d. 1992, og Margrét Kristjánsdóttir, f. 1897, d. 1964, bændur að Litla Saurbæ í Ölfusi.

Jón og Lilja giftust 1955. Börn þeirra eru 1) Halldóra, f. 1955, 2) Hjörleifur Már, f. 1956, maki Þóra Hafsteinsdóttir, f. 1956, 3) Jóna Margrét, f. 1958, maki Viktor Sighvatsson, f. 1952, 4) Guðbjartur, f. 1960, maki Erla Einarsdóttir, f. 1965, 5) Kolbrún, f. 1961, og 6) Kristbjörg Lilja, f. 1965, maki Helgi Harðarson, f. 1961. Barnabörnin eru 14 og barnabarnabörnin eru 16.

Fjölskyldan bjó lengst af í Aratúni 19 í Garðabæ, sem þau byggðu. Jón og Lilja fluttu árið 2003 að Garðatorgi 17 í Garðabæ.

Jón lærði rafvirkjun hjá Júlíusi Björnssyni 1949. Vann hann í 17 ár í Landssmiðjunni þar til hann ásamt öðrum stofnaði fyrirtækið Rafboða hf. í Garðabæ 1971. Jón vann þar til ársins 1993. Fyrirtækið sá m.a. um raflagnir í skipum. Eftir það vann hann sjálfstætt og tók ýmis verkefni að sér, t.d fyrir vegagerðina og KFUM/K. Útför Jóns fer fram í dag, 23. júní 2021, kl. 13 frá Vídalínskirkju í Garðabæ.

Elsku pabbi.

Við áttum hér saman svo indæla stund

sem aldrei mér hverfur úr minni.

Og nú ertu genginn á guðanna fund.

Það geislar af minningu þinn.

(Friðrik Steingrímsson)

Í dag kveð ég þig með mikinn söknuð í hjarta. Það er margs að minnast og síðustu dagar hafa minnt mann á hvað lífið getur verið hverfult.

Sérhver draumur lifir aðeins eina nótt

sérhver alda rís en hnígur jafnan skjótt

hverju orði fylgir þögn

og þögnin hverfur alltof fljótt.

En þó að augnablikið aldrei fylli stund

skaltu eiga við það mikilvægan fund

því að tár sem þerrað burt

aldrei nær að græða grund.

Líttu sérhvert sólarlag,

sem þitt hinsta væri það.

Því morgni eftir orðinn dag

enginn gengur vísum að

Þú veist að tímans köldu fjötra enginn flýr,

enginn frá hans löngu glímu aftur snýr.

Því skaltu fanga þessa stund

því fegurðin í henni býr.

(Bragi Valdimar Skúlason)

Ég elska þig. Þín dóttir,

Kristbjörg Lilja.

Elsku afi er fallinn frá eftir 91 ár á þessari jörð.

Ég tók viðtal við afa minn fyrir 10 árum sem mig langar að birta hér.

„Afi er fæddur í Reykjavík 1930. Hann ólst upp suður í Skerjafirði til 10 ára aldurs, þar fannst honum gott að alast upp. Þar var lítið samfélag og lítil umferð, krakkar léku sér úti allan daginn. Þau fóru í stórfiskaleik, fallin spýta og keilubolta. Skóli byrjaði við 7 ára aldur í almennum bekk. Kenndur var reikningur, lestur og skrift. Þar sem afi var örvhentur þá mátti hann ekki nota vinstri höndina sem var kölluð vitlausa höndin. Hann var látinn sitja á henni og skrifa með þeirri hægri sem tók ansi langan tíma að venjast. Í dag notar hann vinstri höndina í allt en hann skrifar með þeirri hægri. Afa minnir að hjúkrunarkona hafi komið einu sinni á veturna í skólann að hlusta börnin en tennur voru aldrei skoðaðar. Krakkarnir fengu lýsi á morgnana og var hellt upp í þau. Kennararnir voru misjafnir eins og þeir voru margir. Afa langaði ekki að fara í skólann því skriftarkennarinn vildi að hann skrifaði með hægri hendinni og skriftarkennarinn sótti hann stundum á hjóli og fór með hann í skólann. Stundum þurfti pabbi hans afa að leita að honum svo hann færi í skólann. Skólagöngu lauk hjá flestum eftir fermingu, þá var farið í byggingarvinnu eða á eyrina sem er hafnarvinna. Krakkarnir urðu að ganga til Reykjavíkur í sund en það var kennt í Austurbæjarskóla og tók klukkutíma að ganga. Þegar stríðið byrjaði 1939-1940 varð allt vitlaust að gera og allir fengu vinnu sem vildu. Fjölskylda afa þurfti að flytja í Laugarneshverfið því herinn var kominn og flugvöllurinn var settur niður þar sem húsið þeirra var í Skerjafirðinum. Barnaskólinn var við Baugsveg og var stutt í hann en herinn tók hann til aðstöðu fyrir sig og þá þurfti að fara í annan skóla upp í Grímsstaðaholt sem var 20 mín. gangur. Áður en þau fóru í Laugarneshverfið voru þau á Reynisstað í 1 ár og þar var fjós með hesta og beljur.

Afi á fjögur systkini og ólust þau öll upp hjá foreldrum sínum. Mamma hans var heimavinnandi og pabbi hans sjómaður. Ömmur og afar hans skiptust á að vera hjá þeim systkinunum. Á sumrin var afi sendur í sveit. Fyrst í Örlygshöfn 7 ára gamall svo 9 ára vestur í Eyjahrepp í þrjú sumur og einn vetur. Afa hefði þótt gaman að eiga hjól þegar hann var að alast upp, t.d. til að hjóla í sund í Austurbæjarskóla. Afi telur að erfiðara sé núna að alast upp, þegar hann var að alast upp í Skerjafirði þá léku krakkar sér úti allan daginn. Þegar fór að vora var farið niður í fjöru og í útfalli mynduðust oft pollar og voru þá oft rauðmagar eftir í pollunum. Afi fór í iðnskólann 19 ára gamall og lærði rafvirkjun og enn er hann að gera við tæki og tól, t.d. við hárblásara, sléttujárn og lampa. Hann er við hestaheilsu, fer í sund ásamt ömmu á hverjum degi og gönguferðir, les og leysir krossgátur.“

Berglind Helgadóttir.

Elsku afi. Það er sárt að kveðja þig en við þessa kveðjustund er þakklæti okkur efst í huga. Það var svo ósanngjarnt að sjá þig missa heilsuna. Það sem gerði þig að þér varstu hættur að geta gert, leysa krossgátur og sudoku með penna, fara í sund og göngutúra. Það ætti enginn að þurfa að dvelja við það of lengi að missa heilsuna og vera svona meðvitaður um það. Okkur fannst þú alltaf jafn ánægður að fá okkur til ykkar ömmu og þú gleymdir aldrei hvað við höfðum talað um áður, þú sýndir lífi okkar áhuga og spurðir hvernig hitt og þetta gengi. Við erum þakklát fyrir að hafa átt afa svona lengi og þakklát að það varst þú sem varst afi okkar, þú lifir áfram í minningunni. Bless, afi okkar, við elskum þig og söknum.

Þín

María Jóna, Berglind

og Stefán.