Macron og Le Pen tapa bæði í héraðskosningunum

Fyrri umferð héraðsstjórnarkosninga í Frakklandi fór fram um helgina, og þótti þar helst til tíðinda, að flokkur Emmanuels Macron Frakklandsforseta, En Marche!, hlaut einungis um 10,9% atkvæða í heildina. Slapp flokkurinn þar með rétt svo yfir þann þröskuld sem þurfti til að mega taka þátt í seinni umferð kosninganna, en kosningakerfið er hannað svo til að tryggja að starfhæfir meirihlutar náist í öllum héruðum ef fyrri umferðin dugar ekki til.

Héruðin sem slík eru ekki valdamikil, en hafa þó yfir ýmsum fjármunum að ráða. Engu að síður er oftast litið á héraðskosningar sem nokkurs konar „skoðanakönnun“ eða vísbendingu um hvers megi vænta í þing- eða forsetakosningum, sem þykja skipta meira máli. Í ljósi þess að Macron mun sækjast eftir endurkjöri sem forseti á næsta ári, er niðurstaðan um helgina því ekki neitt sérstaklega upplífgandi fyrir hann, jafnvel þótt persónufylgi hans á landsvísu sé mun hærra en fylgi flokksins.

Helsta huggun Macrons kann að felast í því, að Þjóðfylkingin, sem Marine Le Pen leiðir, var einnig langt undir væntingum. Hún hlaut einungis um 19,3% greiddra atkvæða, eftir að hafa verið spáð mun meira fylgi. Eygði flokkurinn jafnvel von um að ná í fyrsta sinn meirihluta við frönsku Rivíeruna, en þær vonir voru sagðar í hættu eftir helgina, þar sem kjósendur annarra flokka gætu nú tekið höndum saman í seinni umferðinni til þess að koma í veg fyrir slíkt.

Það sem veldur þó líklega öllum flokkum mestu hugarangri eftir helgina er að kjörsóknin var einungis um 32%, en svo lök kjörsókn sætir tíðindum í Frakklandi, og mundi raunar gera það víðast hvar. Le Pen hafði sjálf á orði eftir kosningarnar að kjörsóknin hefði „skekkt“ niðurstöðuna, og að brýnt væri að bæta þar úr, en hún stefnir að því að keppa við Macron um forsetaembættið á næsta ári.

Léleg kjörsókn er almennt vísbending um að fólk telji viðkomandi kosningar ekki skipta máli, eða að litlu skipti hver fari með völdin, fátt muni breytast. Slík þreyta er mikið hættumerki fyrir lýðræðið í viðkomandi ríki. Það mun koma í ljós um næstu helgi, hvort léleg kjörsókn fyrri umferðar verður til að vekja franska kjósendur og hvetja til dáða. Hitt, sem virðist líklegra, er að hvorki Macron né Le Pen takist að draga fólk á kjörstað, og með því sendi kjósendur þeim báðum annað viðvörunarskot.