„Þykist þið ætla að kenna mér að opna kampavínsflösku?“ segir Kolbeinn.
„Þykist þið ætla að kenna mér að opna kampavínsflösku?“ segir Kolbeinn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar kemur að því að skrifa um gæðavín er fátt skemmtilegra fyrir blaðamann en að fjalla um aldagamla viskíframleiðendur og rótgróin kampavínshús.

Þegar kemur að því að skrifa um gæðavín er fátt skemmtilegra fyrir blaðamann en að fjalla um aldagamla viskíframleiðendur og rótgróin kampavínshús. Ástæðan er ekki bara sú að gott viskí og ljúffengt kampavín gefi lífinu lit, heldur einnig að á bak við drykki af þessari sortinni er oftar en ekki löng og hrífandi saga um kóngafólk og keisara, klóka viðskiptamenn, glímu við regluverkið og hernaðarbrölt af ýmsu tagi.

Kampavínsframleiðandinn G.H. Mumm veldur engum vonbrigðum hvað þetta varðar enda ná rætur fyrirtækisins allt aftur til ársins 1827 þegar þrír þýskir bræður og víngerðarmenn úr Rínardal settust að í Champagne-héraði. Mumm-bræðurnir ráku vínsölu í Kölnarborg og höfðu nógu gott nef fyrir viðskiptum og hágæðavínum til að sjá að það væri eitthvað alveg sérstakt við freyðivínin frá Champagne.

Á þessum tíma í veraldarsögunni lék allt í lyndi á milli Þýskalands og Frakklands og það var tiltölulega auðsótt fyrir bræðurna að flytja sig um set. Víngerðin óx nokkuð hratt og árið 1840 áttu bræðurnir um 218 hektara af vínekrum á mörgum af eftirsóttustu ræktarsvæðunum í Champagne.

Vitaskuld féll Mumm-kampavínið í kramið hjá fína fólkinu og árið 1876 tefldi fyrirtækið fram einhverri best heppnuðu vöruhönnun sögunnar. Georges Hermann Mumm, sem hafði tekið við rekstrinum af bræðrunum þremur árið 1852, fékk þá hugmynd að skreyta flöskurnar með skáhallandi rauðum borða sem minnir á æðstu heiðursorðu Frakka en orðan sú er fest við stóran rauðan borða sem fólk leggur yfir hægri öxlina og lætur orðuna sjálfa hvíla á vinstri mjöðm. Þótti G.H. Mumm þetta skraut við hæfi enda helstu viðskiptavinir hans franskir broddborgarar og kóngafólk með svefnherbergisskúffurnar fullar af heiðursorðum.

Rauði borðinn hefur einkennt kampavínsflöskurnar frá Mumm alla tíð síðan og gerir þær auðþekkjanlegar í hillum verslana auk þess að gefa þeim virðulegt yfirbragð.

Til marks um það hvernig evrópskir neytendur hófu að tengja rauða borðann við hágæðakampavín má vísa lesendum á sögurnar um Tinna en í öllum bókum Hergé um blaðamanninn knáa eru kampavínsflöskur teiknaðar með rauðan borða skáhallt yfir merkimiðann.

Hæfilega margslungið og hæfilega ódýrt

Þrátt fyrir að kampavínsframboðið á Íslandi hafi batnað mikið að undanförnu er allur gangur á því hvort finna má G.H. Mumm í hillum ÁTVR. Alla jafna eru þar til sölu tvær tegundir, en í augnablikinu grípa neytendur í tómt. Nýrrar sendingar er örugglega ekki langt að bíða og þá alveg óhætt að mæla með að lesendur prufi eins og eina flösku af Grand Cordon Brut sem er staðalvara fyrirtækisins. Um er að ræða tiltölulega ódýrt kampavín sem endurspeglar samt ágætlega allt það sem gerir vínin frá Champagne svo sérstök: liturinn er fölgullinn, og anganin rík af epla-, ananas- og perutónum sem kallast á við vott af hnetu. Bragðið er meðalsætt, kröftugt en frískandi og fléttar saman ávaxtatónum, karamellu-undirtónum og þægilegum steinefnum.

Persónuleikinn er til staðar án þess að gera drykkinn of óaðgengilegan fyrir þá sem eru að byrja að móta hjá sér kampavínssmekkinn, og sopinn góður einn og sér eða með t.d. bragðmiklu pasta, humarrétti ellegar hörðum ostum.

Er vonandi að innflytjandinn bæti við úrvalið því G.H. Mumm framleiðir a.m.k. átta gerðir af kampavínum undir merkjum Cordon Rouge og Grand Cordon og fimm gerðir undir merkjum RSRV sem er nýleg lína í allra hæsta gæðaflokki. ai@mbl.is