Sigling út í Flatey frá Stykkishólmi tekur 1,5 klst.
Sigling út í Flatey frá Stykkishólmi tekur 1,5 klst. — Ljósmyndir/Friðgeir Helgason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Miðnætursól, sumartónleikar og kræklingur. Allt þetta verður á sínum stað á Hótel Flatey í sumar þar sem nýr hótelstjóri, listamaðurinn Þórgnýr Inguson, býður fjölskyldufólk sérstaklega velkomið með tveimur nýjum fjölskylduherbergjum. Snæfríður Ingadóttir | snaeja@gmail.com

Sumarið hér á hótelinu verður með nokkuð hefðbundnu sniði. Hér verða haldnir fimm eða sex tónleikar og hægt að kaupa veitingar allan daginn. Bláskelin verður að sjálfsögðu á sínum stað en hún dregur alltaf marga að,“ segir Þórgnýr spurður út í sumarið á Hótel Flatey. Eins og undanfarin ár stendur matreiðslumaðurinn Friðgeir Trausti Helgason vaktina í eldhúsinu. Hann er búsettur í Los Angeles en vill hvergi annars staðar vera en í Flatey á sumrin. Friðgeir notar aðallega hráefni úr Breiðafirðinum í matseldina, þar á meðal villtar jurtir og þara. Réttir dagsins eru alltaf þrír; kjöt, fiskur og grænmetisréttur, auk súpu dagsins. „Verðinu er stillt í hóf, dýrasti rétturinn á matseðlinum er um 4.000 krónur fyrir kjötrétt,“ segir Þórgnýr. Þá er alltaf hægt að fá kaffi, vöfflur og köku dagsins á staðnum og á kvöldin er svo Saltkjallarinn, barinn í kjallaranum, opinn.

Fjölskyldusvíta og sumartónleikar

Helstu nýjungar á hótelinu þetta sumarið felast í tveimur nýjum fjölskylduherbergjum. „Bæði herbergin eru með hjónarúmi og kojum en annað er þó stærra og sannkölluð fjölskyldusvíta,“ segir Þórgnýr. Bókunarstaðan á þeim 14 herbergjum sem hótelið hefur upp á að bjóða er góð fyrir sumarið. Mest er um bókanir frá Íslendingum og stíla þeir oftar en ekki inn á sumartónleika hótelsins en að vanda er prógrammið fjölbreytt. Til að mynda verða Jóel Páls, Sigríður Thorlacius og Guðmundur Óskar á hótelinu hinn 26. júní með ljúfa tóna og þá mun hljómsveitin Skárra en ekkert (SKE) halda uppi stuðinu 10. júlí af sinni alkunnu snilld. Þá verða Tómas R. og Ómar í eyjunni helgina eftir verslunarmannahelgina og halda rólega tónleika fyrra kvöldið en slá svo upp alvöruballi seinna kvöldið.

Semur ljóð í kyrrðinni

„Að koma í Flatey er eins og að fara til útlanda, þetta er allt annar heimur. Það er algjört tímaleysi hérna og ekkert stress. Það slaknar á fólki um leið og það stígur hér í land,“ segir Þórgnýr. Hann hefur sjálfur fundið fyrir töfrandi áhrifum eyjunnar en eftir niðurdrepandi Covid-vetur í höfuðborginni segir hann að það hafi verið sérlega gott að komast út í náttúruna í Flatey, sem er nú þegar farin að gefa honum innblástur fyrir hans næstu ljóðabók. „Ég hlakka bara til að taka á móti gestum hér í sumar og sjá hvernig sólsetrið, fuglasöngur og hafið endurnærir fólk.“
Höf.: Þórgnýr Inguson