Bólusetning 240.273 einstaklingar hafa verið bólusettir gegn veirunni.
Bólusetning 240.273 einstaklingar hafa verið bólusettir gegn veirunni. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Alls hafa 358.839 skammtar af bóluefni við Covid-19 verið gefnir hér á landi. Á bak við þessa skammta eru alls 240.273 einstaklingar, 155.323 fullbólusettir og 84.950 sem bíða annars skammts. Þetta samsvarar 81,4% allra Íslendinga 16 ára og eldri.

Alls hafa 358.839 skammtar af bóluefni við Covid-19 verið gefnir hér á landi. Á bak við þessa skammta eru alls 240.273 einstaklingar, 155.323 fullbólusettir og 84.950 sem bíða annars skammts. Þetta samsvarar 81,4% allra Íslendinga 16 ára og eldri. Auk þess hafa 2,2% þess hóps fengið Covid-19. Þannig er hlutfall þeirra sem teljast hafa vörn gegn Covid-19 nú orðið 83,6%.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í samtali við mbl.is í gær að kórónuveirufaraldurinn væri ekki búinn þó svo hverfandi líkur væru á nýrri bylgju smita. Ekkert Covid-19-smit hefur greinst innanlands utan sóttkvíar síðan 15. júní.

„Við getum áfram fengið veikindi, en við erum ekki í þeirri stöðu held ég að geta búist við einhverri stórri bylgju eins og staðan er núna. Ég vil benda á það að líklega verður búið að bjóða öllum fyrstu sprautu núna á næstunni, í byrjun júlí, en það tekur auðvitað smátíma að fá fulla vernd. Þannig að við erum ekki komin þangað, en við erum mjög vel á veg komin,“ sagði Þórólfur.

Þá segir Þórólfur að ekki verði lýst formlega yfir sigri í baráttunni við faraldurinn þegar hann vinnst. Þó svo að á Íslandi gangi vel þá geisar enn skæður faraldur úti í heimi og aðeins sé „brot jarðarbúa“ bólusett.

Dræm mæting í Janssen

Í gær var bólusett með Janssen-bóluefninu í Reykjavík. Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir sagði í samtali við mbl.is að ekki hefði gengið eins vel og búist var við. Ekki verður bólusett meira með Janssen í sumar en Ragnheiður sagði ástæðuna fyrir því einfalda: „Það verður einhver að koma, við erum með opið í fjóra tíma og enginn mætir.“ Í dag verður bólusett með bóluefni Pfizer og sagði Ragnheiður að það yrði áhugavert að sjá hvort fleiri mæti óboðaðir í Pfizer en mættu í Janssen.