Regnbogalitir Ráðhús Brussel og önnur hús í miðborginni voru sveipuð regnbogalitum í fyrrakvöld í mótmælaskyni við ungversku löggjöfina.
Regnbogalitir Ráðhús Brussel og önnur hús í miðborginni voru sveipuð regnbogalitum í fyrrakvöld í mótmælaskyni við ungversku löggjöfina. — AFP
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Leiðtogar Evrópusambandsríkjanna skiptust á að gagnrýna stjórnvöld í Ungverjalandi á leiðtogafundi sínum í Brussel í gær.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Leiðtogar Evrópusambandsríkjanna skiptust á að gagnrýna stjórnvöld í Ungverjalandi á leiðtogafundi sínum í Brussel í gær. Harðasta gagnrýnin kom frá Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, sem sagði nýja lagasetningu Ungverja sem bannaði fræðslu um málefni hinsegin fólks í skólum þýða að landið ætti ekkert erindi í Evrópusambandið lengur.

Rutte sagði hins vegar að hann væri ekki einráður þar um, heldur væru 26 önnur ríki sem þyrftu að vera sammála um að knýja Ungverja til að fella lögin úr gildi eða vísa þeim úr sambandinu.

Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, sagði hins vegar að kollegar sínir hefðu misskilið lagasetninguna. Sagði Orban að henni væri ekki beint gegn hinsegin fólki, heldur væri henni ætlað að verja réttindi barna og foreldra.

Leiðtogar sautján aðildarríkja undirrituðu hins vegar í gær bréf, þar sem þeir fordæmdu „ógnir gegn grundvallarréttindum“ og nefndu þar sérstaklega að ekki mætti mismuna fólki á grundvelli kynhneigðar. Ítrekuðu leiðtogarnir 17 þar með fyrri afstöðu sína, sem þeir lýstu yfir í aðdraganda fundarins.

Auk Rutte voru leiðtogar Frakklands, Þýskalands, Ítalíu og Spánar á meðal þeirra sem stóðu að yfirlýsingunum tveimur, en þar sögðust þeir hafa „alvarlegar áhyggjur“ af lagasetningunni.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti sagði hins vegar í gær að hann teldi varhugavert að krefjast þess að önnur ríki felldu lög sín úr gildi. Sagði Macron þó að sér virtist sem lögin stæðust alls ekki þau grundvallargildi sem Evrópusambandið stæði fyrir.

Hyggjast kæra löggjöfina

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, lýsti því yfir í fyrradag að framkvæmdastjórnin hygðist kæra löggjöfina, þar sem hún mismunaði fólki augljóslega á grundvelli kynhneigðar.

Þrátt fyrir yfirlýsingar Ruttes eru engar heimildir í stofnsáttmálum ESB fyrir brottvísun aðildarríkja. Sambandið gæti hins vegar rekið mál fyrir Evrópudómstólnum, sem gæti þá lagt á sektir.

Þá er heimild fyrir því að skerða réttindi aðildarríkja, samþykki öll hin ríkin það, en talið er að Pólverjar myndu beita neitunarvaldi á allar slíkar tilraunir, en pólsk stjórnvöld hafa átt í útistöðum við framkvæmdastjórnina vegna umdeildra umbóta á réttarkerfi landsins.