Barátta Styrmir Snær Þrastarson hjá Þór sækir að Calvin Burks Jr. hjá Keflavík í þriðja leik liðanna.
Barátta Styrmir Snær Þrastarson hjá Þór sækir að Calvin Burks Jr. hjá Keflavík í þriðja leik liðanna. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Körfuboltinn Gunnar Egill Daníelsson gunnaregill@mbl.is Friðrik Ingi Rúnarsson, sem var aðstoðarþjálfari Njarðvíkur á liðnu tímabili, hefur marga fjöruna sopið í körfuknattleiknum hér á landi, enda þjálfað meistaraflokka af báðum kynjum í meira en 30 ár. Síðustu tvö störf hans sem aðalþjálfari voru hjá karlaliði Þórs frá Þorlákshöfn tímabilið 2019/2020 og þar á undan karlaliði Keflavíkur tímabilið 2017/2018.

Körfuboltinn

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Friðrik Ingi Rúnarsson, sem var aðstoðarþjálfari Njarðvíkur á liðnu tímabili, hefur marga fjöruna sopið í körfuknattleiknum hér á landi, enda þjálfað meistaraflokka af báðum kynjum í meira en 30 ár. Síðustu tvö störf hans sem aðalþjálfari voru hjá karlaliði Þórs frá Þorlákshöfn tímabilið 2019/2020 og þar á undan karlaliði Keflavíkur tímabilið 2017/2018.

Þessi tvö lið heyja einmitt úrslitaeinvígi Íslandsmóts karla, þar sem Þór leiðir 2:1 fyrir fjórða leik liðanna í Þorlákshöfn í kvöld og geta heimamenn því með sigri tryggt sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í sögu félagsins. Hvað hefur Friðriki þótt um einvígið hingað til?

„Það hefur verið sveiflukennt. Það má eiginlega segja að Þór hafi komið talsvert á óvart í fyrsta leik þar sem umtalið og umræðan snerist einhvern veginn öll um að Keflavík væri bara búið að vinna. Keflavík hafði farið taplaust í gegnum úrslitakeppnina á meðan Þór fór í gegnum erfiðara prógramm, tapaði leikjum á leiðinni og þurfti að endurstilla sig úr ýmsum stöðum, ýmist að vera yfir eða undir í seríum.

Það reyndi meira á þá fyrr í ferlinu þannig að þeir komu kannski tilbúnari, bæði andlega og líkamlega, í fyrsta leikinn. Það gerist stundum í þessu. Svo geta menn farið í allt of marga hringi þegar þeir fara að velta fyrir sér of mörgum þáttum eins og hvort of löng bið geti verið jákvæð eða neikvæð. Það eru svo margar breytur í þessu,“ sagði hann í samtali við Morgunblaðið.

Teknir í bólinu í fyrsta leik

Friðrik sagði Þór hafa komið Keflavík hressilega á óvart með 18 stiga sigri í fyrsta leiknum í Keflavík. „Það má segja að Þór hafi tekið Keflavík í bólinu í fyrsta leik. Maður segir stundum um boxara sem fara í hringinn; annar aðilinn nær hressilegu höggi og þá byrjar hinn aðilinn að riða.

Keflvíkingar voru hálfpartinn í því ástandi þar til í hálfleik í leik númer tvö. Mér fannst fyrri hálfleikurinn vera nánast áframhald af leik eitt en svo fannst mér ég kannast meira við Keflavíkurliðið í seinni hálfleik í leik tvö og það vantaði kannski bara herslumuninn,“ sagði hann, en Þór vann þann leik með fimm stiga mun.

„Þá er Þór á heimavelli og komið með sjálfstraust og nær að klára leikinn og það setur auðvitað Keflavík í þá stöðu að vera komið með bakið upp við vegg heima í leik þrjú. Það var rökrétt framhald af seinni hálfleik í leik tvö hvernig Keflavík kom inn í leik þrjú, þar sem ákefðin var miklu meiri, varnarleikurinn var betri, sóknarleikurinn einfaldari að sumu leyti og árangursríkari má segja,“ bætti Friðrik við.

Á von á hverju sem er

Spurður hvernig hann sjái fyrir sér að leikurinn í kvöld fari sagði Friðrik: „Það er auðvitað hægt að fara á talsvert flug í þeim pælingum. Maður hefur nú blessunarlega verið oft í þessari stöðu og tekið þátt í mörgum lokaúrslitum. Það er auðvitað sérstök stemming.

Það sem blasir við er að þarna hefur Þór tækifæri á að tryggja sér titilinn á heimavelli. Þeir eru þó meðvitaðir um að það bíður þeirra oddaleikur í Keflavík ef þeim mistekst það.“

Hann benti svo réttilega á að staðan sé enn erfið fyrir Keflvíkinga þrátt fyrir að þeir hafi unnið síðasta leik. „Keflavík er enn í þeirri stöðu að vera með bakið uppi við vegg. Þeir mega ekki tapa. Þór hefur svigrúm en ég veit að þá langar ekkert sérstaklega að fara í oddaleik í Keflavík. Það verður mjög áhugavert að sjá hvernig liðin mæta til leiks og maður á í raun von á hverju sem er.

Við sem erum fyrir utan þetta viljum að sjálfsögðu fá sem flesta leiki og það er alltaf gaman fyrir þá hlutlausu að sjá sem flesta oddaleiki. Það getur alveg gerst. Keflavík er með nógu gott lið til þess og fann svolítið taktinn sinn í síðasta leik.“

Geta allir skotið fyrir utan

Þrátt fyrir að Keflavík hafi fundið taktinn í þriðja leik sagði Friðrik að Þór geti að sama skapi vel fundið sinn takt í kvöld. „Þór er mikið stemningslið og er auðvitað drifið áfram af snörpum sóknarleik. Þeir reyna og hika ekkert ef þeir komast í gott tempó.

Þá eru þeir með mjög margar góðar þriggja stiga skyttur og alveg sama hvort það eru bakverðirnir þeirra, framverðirnir eða miðverðirnir. Það geta allir skotið utan þriggja stiga línunnar. Þeir eru með mjög skemmtilegt sóknarlið að því leytinu til og vilja helst gera hlutina áður en kemur til snertinga.

Það er kannski svona veikleikinn þeirra, ef einhver er, að þeir vilja ekki láta klukka sig. Að sama skapi er Keflavík að fara að spila aftur á útivelli og hefur svo sem gengið vel þar í vetur. En Þórsarar eru orðnir stærri, þannig að þá má ekki hleypa neinum upp í eitthvað.“

Hugarfarið skiptir öllu

Friðrik sagði það algjört lykilatriði þegar hér er komið sögu í einvíginu að vera með rétt hugarfar.

„Ég held að þetta verði mjög áhugaverður og vonandi jafn og skemmtilegur leikur. Þetta er held ég fyrst og fremst hugarfarslegs eðlis núna, hvernig menn eru gíraðir. Eins og maður segir stundum þá verður þú einfaldlega að þora að vera til og þora að vera í kastljósinu.

Þú verður einfaldlega að vera tilbúinn að taka því og framkvæma. Það lið sem stendur sig betur í þeim þáttum á morgun hefur betur og þá kemur bara í ljós hvort það þýði leik fimm eða ekki,“ sagði hann að lokum í samtali við Morgunblaðið.