Jón Trausti Ársælsson fæddist í Ólafsvík 2. september 1942. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 14. júní 2021.

Hann var sonur hjónanna Ársæls Jónssonar frá Arnarstapa, f. 25.9. 1918, d. 12.8. 1996, og Önnu Sigrúnar Jóhannsdóttur, f. 3.6. 1919, d. 26.5. 2000.

Systkini Jóns Trausta eru Jóhann, f. 1943, Þórður, f. 1946, Guðrún Marta, f. 1947, Sigrún, f. 1954, Hjörtur, f. 1955, og Fróði, f. 1965.

Eiginkona Jóns Trausta er Ingveldur Þorbjörnsdóttir frá Andrésfjósum, f. 26.8. 1945, dóttir hjónanna Ingigerðar Bjarnadóttur, f. 1912, d. 2009, og Þorbjörns Ingimundarsonar, f. 1908, d. 1968.

Jón Trausti og Ingveldur gengu í hjónaband 7.11. 1975. Börn þeirra eru:

1) Þorbjörn, f. 1976, eiginkona hans er Anna V. Sigurðardóttir, f. 1976, börn þeirra eru Inga Jóna, f. 2003, Styrmir, f. 2005, og Sigurdís, f. 2011.

2) Ársæll, f. 1980, eiginkona hans er Linda Ósk Þorvaldsdóttir, f. 1986, börn þeirra eru Stella Natalía, f. 2011, og Elísabet Alba, f. 2016, fyrir átti Ársæll eina dóttur, Guðrúnu Sif, f. 2009.

3) Fóstursonur Jóns er Ingimundur Kristinsson, f. 1965, eiginkona hans er Ingibjörg Jónsdóttir, f. 1969, börn þeirra eru Júlíana, f. 1997, og Jón Ingvi, f. 1999.

Börn Jóns Trausta frá fyrra hjónabandi eru:

1) Anna Þóra, f. 1963, eiginmaður hennar er Ragnar Hermannsson, f. 1961, börn þeirra eru Einar Darri, f. 1987, Hermann, f. 1987, Esther Viktoría, f. 1991, og Dagur, f. 1997.

2) Sigurlaug Didda, f. 1964, börn hennar eru Úlfur Ægisson, f. 1990, og Hrafn Barret, f. 1999.

Jón Trausti fæddist í Ólafsvík og ólst upp á Snæfellsnesi. Um tvítugt fluttist hann til Reykjavíkur og lauk námi frá Skipstjóra- og stýrimannaskólanum árið 1962.

Jón Trausti var sjómaður frá unga aldri eða allt frá því hann var 14 ára gamall þegar hann fór fyrst til sjós. Hann vann sem skipstjóri stærstan hluta starfsævi sinnar en vann síðustu árin áður en hann hætti að vinna á starfsstöð Olís í Þorlákshöfn. Jón Trausti og Ingveldur fluttu til Þorlákshafnar árið 1975 og hafa búið þar síðan.

Útför Jóns Trausta fer fram frá Þorlákskirkju í dag, 25. júní 2021, kl. 14.

Nú er pabbi minn lagður af stað í sína hinstu för, ég sem vonaði og trúði að við fengjum að hafa hann lengur hjá okkur. Eftir stutt en erfið veikindi var hvíldin þér kærkomin. Eftir sitja margar minningar um pabba sem hafði ótal ráð og passaði alltaf upp á að ég gleymdi nú örugglega ekki að halda eigum mínum vel við, eins og t.d. að smyrja bílinn, mála þakkantinn og skipta um dekk. Við pabbi áttum mjög gott samband, unnum vel saman og vorum miklir vinir. Hann vildi alltaf fylgjast vel með, vildi vera með í öllum þeim verkefnum sem ég tók að mér, hvort sem það var að smíða hús, setja upp innréttingar, græja garðinn eða hvað sem var. Alltaf var hann til í að koma og rétta fram hjálparhönd, sama hvað klukkan sló eða hvernig veður var og oftar en ekki var hann mættur á undan manni. Pabbi var mjög handlaginn og hafði einstaklega gott lag á því að laga hluti sem við bræður náðum að skemma, kannski ekki með réttu varahlutunum en það virkaði samt alltaf. Alla tíð las pabbi mikið, var mjög fróðleiksfús og vissi alveg ótrúlegustu hluti. Það var því alltaf gaman að fara með honum á rúntinn og í ferðalög, hann sagði manni margar sögur frá þeim stöðum sem við vorum á hverju sinni og reyndi alltaf að kenna manni hvað hin og þessi fjöll og firðir hétu. Pabbi hafði mikinn áhuga á íþróttum, a.m.k. í seinni tíð, og þó svo að hann og mamma hafi ekki oft komið og séð prinsinn sinn spila fótbolta þá fylgdist hann alltaf vel með. Pabbi var mjög barngóður og voru stelpurnar mínar heppnar að eiga hann sem afa. Hann sýndi menntun þeirra og íþróttum einlægan áhuga og var duglegur að hrósa þeim. Þannig var hann pabbi líka, hann hrósaði óspart þegar það átti við og gagnrýndi ef þess þurfti og var ekkert að tala undir rós, það var líka þess vegna sem það var svo gott að spyrja pabba álits, maður gekk að því vísu að fá hundrað prósent hreinskilið svar.

Í dag skein sól á sundin blá

og seiddi þá, er sæinn þrá,

og skipið lagði landi frá.

Hvað mundi fremur farmann gleðja.

Það syrtir að, er sumir kveðja.

Ég horfi einn á eftir þér,

og skipið ber þig burt frá mér.

Ég horfi einn við ystu sker,

því hugur minn er hjá þér bundinn.

En löng er nótt við lokuð sundin.

En ég skal biðja og bíða þín

uns nóttin dvín og dagur skín.

Þó aldrei rætist óskin mín,

til hinsta dags ég hrópa og kalla,

svo heyrast skal um heima alla.

(Davíð Stefánsson)

Takk fyrir allt pabbi minn, við pössum upp á mömmu,

Ársæll (Sæli).

Tíminn er skrýtið fyrirbrigði. Svo mælanlegur að hann líður jafn hratt alls staðar á jörðinni en um leið svo afstæður að hann líður hvergi jafn hratt. Hverjum manni er afmarkaður tími í árum, mánuðum, vikum og dögum en sá tími sem hver maður lifir í minningum og hjörtum fólks er ómælanlegur.

Pabbi minn var 78 ára þegar hann dó. Fallegur og alla jafnan fílhraustur maður sem var svo óheppinn að fá krabbamein sem lagðist á hann af fítonskrafti. Hann barðist fyrir lífinu af krafti og hugrekki og um tíma leit út fyrir að hann hefði betur en það var bara stundargleði. Aftur tók meinið sig upp og þá var ekki við neitt ráðið. Pabbi var sjálfstæður og stoltur maður. Hann hafði ekki áhuga á því að vera veikur og upp á aðra kominn. Hann var ekki mikið fyrir væmni og hefði ekki viljað hafa þessa grein í þeim anda. Ég ætla að virða það.

Pabbi var að vestan, hann var hörkuduglegur, fór snemma á sjó og var orðinn skipstjóri 23 ára gamall. Ég man eftir því að fara með mömmu og Diddu systur niður á bryggju til að taka á móti honum þegar hann kom af sjónum og hve hrædd ég var alltaf um að detta niður á milli fjalanna í bryggjunni. Svo kom hann niður landganginn, brosandi út að skeggi og bakaleiðin var alls ekki eins ógnvænleg í pabbafangi. Pabbi og mamma skildu þegar við systur vorum 6 og 7 ára og við þann atburð misstum við töluvert sambandið við pabba. Á fullorðinsárum höfum við þó átt fleiri stundir saman og lengri símtöl sem eru og verða dýrmætar perlur í hafi minninganna.

Pabbi var skoðanafastur maður og líklega einn af fáum mönnum sem ég þekki sem var ekki sjáanlega meðvirkur með neinum. Samt átti hann sér hlýja og ljúfa hlið sem hann sýndi oft og tíðum, einkum börnum og dýrum og þau hændust að honum.

Pabbi var alltaf kallaður Trausti og bar hann það nafn með rentu enda með afbrigðum traustur og samkvæmur sjálfum sér. Hann sagði mér stundum söguna af því þegar hann lét mig nokkurra mánaða standa í lófanum á sér og þótt hann sleppti af mér hendinni þá stóð ég þar teinrétt og óttalaus því ég treysti honum fyrir því að bera mig.

Nú er komið að leiðarlokum, elsku pabbi minn, og þó að orðin ef og hefði, séu orð sem leita óþægilega oft á hugann, þá er ég fyrst og fremst þakklát fyrir að hafa átt þig að. Einhvers staðar las ég að sorgin væri búin til úr ást. Ég held að það sé satt. Samfylgd okkar er lokið í raunheimum en þú munt lifa áfram um ókomna tíð í öllum afkomendum þínum og í minningum þeirra sem voru svo heppin að þekkja þig.

Nú hafa hlutverk okkar snúist við, því ég ætla ásamt systkinum mínum og vinum þínum að bera þig lokaspölinn. Ég veit að þú hefðir treyst okkur til þess.

Þín

Anna Þóra.

Að eignast tengdaforeldra er merkilegt í mínum huga því í mínu tilviki eignaðist ég annað sett af foreldrum. Þetta orð tengdaforeldri lýsir þessu í raun svo vel, foreldri sem maður tengist eða eignast síðar á lífsleiðinni. Ég kynntist elsku Trausta tengdapabba þegar við Tobbi fórum að rugla saman reytum fyrir rúmlega 22 árum síðan. Ég minnist hans með þakklæti fyrir allt og allt. Trausti var einstaklega góður maður, hörkuduglegur og hjálpsamur. Hann var hreinskiptinn og lá ekki á skoðunum sínum, var heiðarlegur og ætlaðist til þess sama af öðrum. Þegar ég rifja upp stundir með Trausta koma upp í hugann þau ófáu skipti sem hann og Inga komu í Ásamýri að kíkja á krakkana eða hjálpa til. Hann var alltaf meðvitaður um þegar hjálpar var þörf og var iðulega búinn að hringja til þess að bjóða fram aðstoð hvort sem verið var að byggja við húsið, sinna viðhaldi eða bara koma sláttuvélinni í gang fyrir sumarið. Hann kom líka reglulega til að athuga með hrossin og hafði gaman af því að ræða um allt sem viðkom þeim, hvort sem rætt var um fjallaferðir eða góða hesta sem höfðu reynst honum vel. Ég bið þess að þú sért kominn á góðan stað, elsku Trausti, og veit að við Tobbi og krakkarnir munum búa að því alla tíð að hafa fengið að fylgja þér á lífsins leið.

Anna V. Sigurðardóttir.

Fallinn er frá félagi minn og vinur Jón Trausti Ársælsson eftir erfið veikindi síðustu mánuði. Trausti var alinn upp á nesinu vestan Ennis.

Kynni okkar Trausta hófust er hann ungur maður var skipstjóri á bát vestan af Snæfellsnesi og þeir færðu sig hérna suður fyrir seinni part vertíðar. Nokkrum árum seinna flutti Trausti með Ingu konu sinni hingað til Þorlákshafnar og settust þau hér að.

Margs er að minnast frá fyrri árum. Mörg voru ferðalögin með þeim hjónum bæði innanlands og utan. Bronco-árin eru eftirminnileg, þá var verið að flækjast á fjöllum. Einu sinni var farið norður Sprengisand og áætlað að gista í Nýjadal. Þá ráðlagði skálavörður þar okkur að halda strax áfram því áin væri að verða ófær. Þegar komið var í Bárðardal var komið kvöld og leiðindaveður og erfitt að tjalda. Leituðum við gistingar á efsta bænum og held ég að konan hafi vorkennt þessum flækingum með smábörn með sér og fengum við gistingu í skólahúsi sveitarinnar. Á heimleiðinni um Kjalveg var gist í Hvítárnesi og eru ekki allir á því að við höfum gist þar ein.

Skipstjórnin átti vel við Trausta og farnaðist honum hún vel. Var hann lengst af með báta frá Glettingi hf.

Það var gott að vera í talstöðvarsambandi við Trausta og vorum við oft í kvótasambandi, en það var fyrir tíma farsímanna, þá var gefinn upp í leynitölum fiskafjöldi í trossum.

Trausti hafði gaman af að fara á hestbak og fór stundum á fjall fyrir Skeiðamenn en þangað höfðu þau Ingveldur mikla tengingu. Eitt haustið er Trausti var á fjalli var komið að síldarvertíð og skildi útgerðarmaðurinn ekkert í því að eini maðurinn sem kynni að kasta nót svo vel færi væri að flækjast á fjöllum. En það leystist og Trausti skilaði sér.

Það var með Trausta eins og okkur marga að er leið á ævina hætti hann sjómennskunni og fór að vinna í landi. Þá byggðu þau sér sumarhús í nágrenni æskustöðva Ingu og undu sér þar vel. Síðustu vinnuárin var Trausti við Olís- verslunina í Þorlákshöfn en hún þjónaði sjávarútveginum um nauðsynjar og var Trausti þar á heimavelli enda vinsæll afgreiðslumaður.

Takk fyrir samveruna og vináttuna.

Við Sigga vottum Ingveldi og börnunum þeirra okkar dýpstu samúð.

Sigurður Bjarnason.

Látinn er kær vinur okkar, Jón Trausti Ársælsson eða Trausti eins og við kölluðum hann ávallt, eftir stutta en snarpa baráttu við krabbamein. Vinátta okkar hjóna við þau Trausta og Ingu hófst fljótlega eftir að við fluttum til Þorlákshafnar árið 1996 og hefur alla tíð verið okkur afar kær og mikils virði. Þau hjón voru samrýnd mjög og höfðu með sér ákveðna verkaskiptingu eins og gerist í góðum hjónaböndum og töldu bæði að þetta væri gott fyrirkomulag.

Ævistarf Trausta var lengst af til sjós, þar var hann stýrimaður en lengst af skipstjóri og var mjög farsæll í sínum störfum þar enda glöggur og gætinn.

Trausti var hreinn og beinn. Það sem einkenndi hann helst var trúmennska og heiðarleiki og kom hann fram við alla af virðingu og hjálpsemi, þess nutu margir vinir hans og kunningjar. Trausti var skemmtilegur ferðafélagi, fróður og vel lesinn. Við hjónin áttum þess kost að ferðast með þeim hjónum bæði innanlands og erlendis, það voru skemmtilegar ferðir. Í upphafi árs í fyrra fórum við til Tenerife með þeim og þar nutum við okkar mjög vel, við rétt náðum heim fyrir Covid. Einnig fórum við saman í hringferð um landið okkar sl. sumar og komum víða við. Í þeirri ferð naut Trausti sín vel og gat á sinn hátt sagt okkur sögur og ýmsan fróðleik í ferðinni, hann hafði á sínum sjómannsárum verið mikið við veiðar úti fyrir allri suðurströndinni og landað afla í flestum höfnum Austurlands og þekkti því víða staðhætti og atvinnusöguna. Hann hafði gaman af því að rifja upp skemmtileg atvik frá gömlu síldarárunum og brosti þá á sinn hátt. Það var gaman að sitja kvöldstund með Trausta og ræða málin, hann var sérlega glöggur og rökfastur og gerði þá kröfu bæði á sjálfan sig og aðra án þess að fella dóma.

Trausti átti Ingu sína og virti hana mjög, hans helsta keppikefli var að búa henni og fjölskyldunni allri traust og gott heimili, það gekk eftir og nutu þau þess öll að styðja hvert annað í amstri dagsins.

Nú við leiðarlok er okkur hjónum efst í huga þakklæti fyrir trausta og heila vináttu og skemmtilegar samverustundir. Við eigum part í Ingu áfram og vonandi gefst okkur tími og tækifæri til að gera eitthvað saman og minnast Trausta.

Elsku Inga, börnin öll, tengdabörn, barnabörn og aðrir ástvinir, missir ykkar er mikill en minning um góðan dreng lifir og veitir okkur skjól. Við hjónin sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur og óskum ykkur alls hins besta.

Takk fyrir allt, kæri vinur, og megi Guðsblessun fylgja þér.

Margrét og Ægir.

Það eru mikil viðbrigði eftir áralanga sjómennsku að stíga á land og skipta um starfsvettvang.

Það þarf líka að vera góðum eiginleikum búinn til að höndla svo ólíka tilveru að stíga niður úr skipstjórastól og gerast auðmjúkur þjónn í verslunarvafstri.

Upphaflega læddist að mér að gamla skipstjóranum yrði torsótt

að taka við hlutverkaskiptum eftir mörg og farsæl ár í hólnum.

Jón Trausti sýndi mér fljótt að hann bjó yfir öllum þeim kostum er til þurfti í hans veigamikla starfi í þjónustu við fólk og athafnamenn til sjávar og sveita. Honum var einlægt að hjálpa, útvega og gæta að allir fengju sitt og bestu kjör. Að sjómannasið bölvaði hann gjarnan helv. tölvunni um leið og hann hamraði lyklaborðið með einum putta krepptum. Ekki kom að sök þótt hann og helv. tölvan næðu ekki alltaf saman. Hann þekkti fljótlega og mundi flestöll vörunúmerin í búðinni og kennitölur flestra viðskiptavina. Þar var hann viss um að gamla lórantöluminnið hefði þjálfað upp sína töluglöggvun, er nýttist honum aftur orðið vel, baka til við búðarborð.

Olísbúðin í Þorlákshöfn var líka félagsmiðstöð sjómanna. Þar löðuðust að ungir sem aldnir er sóttu sér ráð í verslunina til Trausta og ræddu ýmiss konar vanda sinn, í leit að fiskimiðum og baráttu við hafið. Þar var gamli formaðurinn ávallt liðtækur að miðla af reynslubrunni sínum við að hjálpa og byggja upp, ekki síst hjá byrjendum og þeim er lakast stóðu.

Hann var jafnvígur á áhugasviði sínu hvort sem var til sjávar eða sveita. Mikill skepnumaður. Hafði ánægju af að tengjast umræðum um landbúnað og sækja í fjallferðir, sauðburð og allt það er tengdist marghátta lífinu til sveita.

Hlýhug ber ég honum fyrir allt hans trygglyndi í starfi og góðan félagsanda. Þakklátastur er ég þó vináttunni er okkar í millum hafði þróast, í áranna rás.

Það var einstakt hjá honum æðruleysið er hinn illvígi sjúkdómur knúði dyra. Þá tjáði hann sig um af einlægni að færi svo, myndi hann kveðja sáttur. Honum efst í huga var þakklæti fyrir lífið er hefði verið honum gott.

Nú er hann til kallaður, heim í aðrar vistarverur. Þar vil ég sjá það sem hann í hjarta sínu var. Stórtækan útvegsbónda, með þúsundir fjár og drekkhlaðin aflaskip við bryggju. Bíðandi þess er einhvern tímann verður, að hans elskaða eiginkona gangi með honum einnig, samhent eins og áður, um blómabrekkuna breiðu, upp af guðdómlegu skipalaginu þar.

Með þakklæti í huga bið ég góðan Guð að blessa eftirlifendur og minningu hins látna og votta Ingveldi, börnum þeirra og fjölskyldu allri mína dýpstu samúð.

Einar Gíslason.

HINSTA KVEÐJA
Elsku afi minn.
Mér fannst skemmtilegast að fara á bryggjurúnt með afa og spjalla við hann, hann vissi svo mikið um öll skipin af því að hann var sjómaður og skipstjóri. Þegar ég gisti hjá afa og ömmu svaf ég alltaf með afa og Elísabet Alba systir mín með ömmu. Afi leyfði mér líka alltaf að fá ís og nammi.
Þú varst besti afi í heimi,
og aldrei þér ég gleymi.
Ég veit að þú munt yfir mér sveima,
þig ég ætla alltaf að dreyma.
(Stella Natalía Ársælsdóttir)

Þín afastelpa,
Stella Natalía Ársælsdóttir.
Afi Trausti var besti afi í heiminum og í sólkerfinu og bara bestur. Ef maður spurði afa „viltu leika“ þá sagði hann alltaf já. Afi passaði mig oft með ömmu og mér fannst það mjög skemmtilegt. Ég sakna afa mjög mikið því það var svo gaman að leika við hann og hann var alltaf svo góður við mig.
Knús og kossar, þín afastelpa,
Elísabet Alba Ársælsdóttir.