Á Hlíðarenda Valsarinn Arnór Smárason með boltann í leiknum í gær en tveir Leiknismenn eru nærri.
Á Hlíðarenda Valsarinn Arnór Smárason með boltann í leiknum í gær en tveir Leiknismenn eru nærri. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Fjögur úrvalsdeildarlið úr Reykjavík, Valur, KR, Víkingur og Fylkir, komust áfram í 16-liða úrslit Mjólkurbikars karla í knattspyrnu en fjórir leikir voru spilaðir í 32 liða úrslitum keppninnar í gær.

Fjögur úrvalsdeildarlið úr Reykjavík, Valur, KR, Víkingur og Fylkir, komust áfram í 16-liða úrslit Mjólkurbikars karla í knattspyrnu en fjórir leikir voru spilaðir í 32 liða úrslitum keppninnar í gær. Áður höfðu Keflavík, KA, FH, ÍA, HK, Vestri, ÍR, Fjölnir, KFS, Þór frá Akureyri, Völsungur og Haukar tryggt sér sæti í 16 liða úrslitum.

Á Hliðarenda mættust tvö úrvalsdeildarlið en þar hafði Valur betur gegn Leikni úr Breiðholti 2:0. Guðmundur Andri Tryggvason og Sverrir Hjaltested skoruðu fyrir Val á 8. og 75. mínútu.

KR lét nægja 2:1 sigur gegn Kára á Akranesi. Kári var raunar 1:0 yfir lengi vel á móti KR en Skagaliðið er í 12. og neðsta sæti í 2. deild eða þriðju efstu deild Íslandsmótsins. Marinó Hilmar Ásgeirsson skoraði fyrsta markið á 40. mínútu en KR-ingum tókst að snúa taflinu sér í hag með mörkum á 71. og 75. mínútu. Þar voru á ferðinni Óskar Örn Hauksson og Ægir Jarl Jónasson.

Fylkir burstaði Úlfana 7:0 í Árbænum en Úlfarnir leika í neðstu deild Íslandsmótsins. Þeir gátu þó teflt fram reyndum markverði en Ingvar Þór Kale varði mark liðsins. Ísfirðingurinn Þórður Gunnar Hafþórsson sem Fylkir fékk frá Vestra fyrir síðasta tímabil skoraði fjórum sinnum fyrir Fylki. Djair Parfitt-Williams skoraði tvö og Birkir Eyþórsson eitt.

Víkingur sigraði Sindra frá Hornafirði 3:0 og hafði 2:0 forystu að loknum fyrri hálfleik en Sindri í 3. deild eða fjórðu efstu deild.

Adam Ægir Pálsson og Kwame Quee skoruðu í fyrri hálfleik og Viktor Örlygur Andrason bætti þriðja markinu við snemma í síðari hálfleik.