Vilhjálmur Árnason
Vilhjálmur Árnason
Eftir Vilhjálm Árnason: "Það er enginn betur til þess fallinn að sjá um hálendið en fólkið sem hefur hugsað um það hingað til."

Við þinglok var frumvarpi umhverfisráðherra um hálendisþjóðgarð vísað aftur til ráðherra. Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis fjallaði um málið í rúma sex mánuði og hátt í 200 umsagnir bárust nefndinni.

Mínir fyrirvarar og mín afstaða til hálendisþjóðgarðs hefur verið skýr frá upphafi. Ég hef lagt mig fram um að fara og hitta fólkið sem þekkir hálendið best, nýtir hálendið og hefur hugsað um hálendið. Ég hef byggt mína afstöðu á þessum samskiptum og unnið samkvæmt sannfæringu minni við meðferð málsins á Alþingi.

Unnendur hálendisins eiga mikið hrós skilið fyrir að láta sig málið varða og að taka þátt í umræðunni með málefnalegum og rökföstum hætti. Það varð til þess að sjónarmið þeirra náðu í gegn og Alþingi tók á þeim mark. Takk fyrir það!

Það skilaði sér í frávísun málsins með þeim athugasemdum sem lagðar höfðu verið fram og ráðherra leiðbeint um að vinna málið í víðtæku samráði, finna lausnir á álitamálum og ná breiðri og almennri sátt áður en málið kemur aftur til Alþingis.

Ég tók þátt í þverpólitískri nefnd um gerð hálendisþjóðgarð og á sæti í umhverfis- og samgöngunefnd. Þar hef ég haldið sjónarmiðum fólksins á lofti og í samstarfi við aðra nefndarmenn fengið stuðning við athugasemdir hagaðila.

Helstu áhersluatriðin nú eru að málið verði unnið í víðtækri sátt og hlustað á vilja sveitarfélaganna og heimamanna. Ferðafrelsið verði áfram óskert, nytjaréttarhafar haldi sínum eignarrétti og að skilvirkt og samræmt stjórnfyrirkomulag verði á hálendinu en ekki bákn.

Nytjaréttarhafar, útivistarfólk, sveitarfélög, félagasamtök og atvinnulífið hefur hugsað vel um hálendið og sýnt mikinn framtaks- og frumkvæðismátt sem verður að viðhalda. Efla frekar en letja. Þau mikilvægu störf sem fólk leggur til hálendisins í dag, oftar en ekki í sjálfboðavinnu, má ekki ríkisvæða. Það er enginn betur til þess fallinn að sjá um hálendið en fólkið sem hefur hugsað um það hingað til.

Umræðan hefur varpað skýrara ljósi á málefni hálendisins og styrkt okkur í þeim málstað sem við höfum verið að verja. Við munum nýta okkar kraft og þekkingu til að vinna hálendinu áfram gagn svo við getum notið þess áfram á fjölbreyttan og farsælan hátt.

Höfundur er varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins. vilhjalmura@althingi.is