Á Boðnarmiði rifjar Ólafur Helgi Theódórsson upp gamla vísu eftir Sigurð Kristjánsson, síðast á Grýtubakka í Höfðahverfi, – hann segir að hún hafi einhverra hluta vegna komið upp í huga sér.

Á Boðnarmiði rifjar Ólafur Helgi Theódórsson upp gamla vísu eftir Sigurð Kristjánsson, síðast á Grýtubakka í Höfðahverfi, – hann segir að hún hafi einhverra hluta vegna komið upp í huga sér. Sigurður þessi hafi verið náskyldur KN:

Skoplega til gengið gat

hjá gamla Heródesi

þegar hann setti á silfurfat

sviðin af Jóhannesi.

Gunnar J. Straumland yrkir og kallar „Lífsins vatn“. Hátturinn er afhending.

Urtir þyrstar una sér í úrhellinu.

Vongóðar í vorregninu.

Glitrar vatn á gullregni og grósku

kveikir.

Sperrtir glotta sprotar keikir.

Helst nú þarf að hækka aðeins

hitastigið.

Englar hafa á okkur migið.

Indriði á Skjaldfönn rifjar upp gamla vísu en veit ekki höfund:

Segðu mér nú satt um það

sem til hefur borið.

Hefur einhver hálsbrotnað,

hengt sig eða skorið?

Jóhann S. Hannesson yrkir í „Hlymrek á sextugu“:

Sértu fríður er gróflega gaman

að gera sig ljótan í framan

með fettum og brettum

og glennum og grettum

Ég geri það tímunum saman.

Það er mikið af marklausum yrðingum

hjá mönnum sem tala með virðing um

þessa alþingisbola

sem ætti ekki að þola

nema inni í nautheldum girðingum.

Kristján Karlsson orti:

„Það bregst ekki,“ sagði Bjarni,

„að blómgist rósir í hjarni

er andskotinn laus

með sitt ódæma raus

því að ekta blóm vex upp úr skarni.“

Mælti Sigfús frá Eyvindará,

„draug er alltaf gaman að sjá,

sé hann vel til fara

og verði ekki bara

að veruleik eftirá.“

„Vera eða gera“ er limra eftir Þórarin Eldjárn:

Ég er þreyttur á því að gera

og því vil ég hér fram bera

heitstrenging þá

að héðan í frá

ætla ég eingöngu að vera.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is