Jól Anne Helen Lindsay og Gunnar Hafsteinsson í Litlu jólabúðinni.
Jól Anne Helen Lindsay og Gunnar Hafsteinsson í Litlu jólabúðinni. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Allt virðist leyfilegt til orðs og æðis um þessar mundir og ekkert kemur á óvart. Ekki einu sinni jólaball í júní enda aðeins sex mánuðir til jóla.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Allt virðist leyfilegt til orðs og æðis um þessar mundir og ekkert kemur á óvart. Ekki einu sinni jólaball í júní enda aðeins sex mánuðir til jóla. „Okkur langaði til þess að gera eitthvað í tilefni 20 ára afmælis Litlu jólabúðarinnar og vissum að jólaball væri skemmtilegast fyrir börnin,“ segir Anne Helen Lindsay, en hún og Gunnar Hafsteinsson, eiginmaður hennar, eiga og reka búðina.

Fyrstu fimm árin voru hjónin með verslunina í bílskúr hjá sér á Grundarstíg og þá var oft glatt á hjalla í jólalega skreyttum garðinum en síðan hefur hún verið á Laugavegi 8. Fyrir nokkrum árum opnuðu þau Litlu gjafabúðina í húsnæðinu við hliðina og frá því að kórónuveirufaraldurinn skall á í mars í fyrra með samkomutakmörkunum í kjölfarið hafa þau staðið vaktina hvort í sinni búðinni en eru nú með þrjár stúlkur í vinnu. „Ég neitaði að loka,“ segir Anne Helen.

Grýla og jólasveinar

Jólaballið verður eins og önnur jólaböll. Skjóla stjórnar ballinu, Leikhópurinn Lotta skemmtir, tónlistarmenn spila jólalög, dansað verður í kringum skreytt jólatré fyrir framan búðina á Laugaveginum, jólasveinarnir Skyrgámur og Hurðarskellir koma í heimsókn, Grýla verður á staðnum og sér til þess að strákarnir skili sér aftur upp í fjallið og börnum verður boðið upp á góðgæti. „Við ætlum að eiga skemmtilegan dag, hvernig sem veðrið verður, og halda okkar afmælisveislu,“ segir Anne Helen, en skemmtunin verður frá klukkan 16 til 17 á morgun.

„Jólasveinarnir fá að koma eingöngu vegna þess að það er afmæli Jólabúðarinnar,“ leggur Anne Helen áherslu á. „Þeir koma í afmælið en fara svo strax aftur og láta ekki sjá sig aftur fyrr en á hefðbundum tíma skömmu fyrir jól. Þeir eru auðvitað almennt bara á ferðinni í kringum jólin.“

Ferðamenn voru ekki á hverju strái fyrir aldamót en engu að síður vann Anne Helen lengi í ferðabransanum. Þegar hún missti vinnuna stofnaði hún eigið fyrirtæki og flutti inn vörur til að selja í túristabúðum. Þær voru fáar, markaðurinn lítill og salan ótrygg. „Búðirnar hættu að kaupa inn á haustin og þá datt mér í hug að opna litla jólabúð. Í fyrstu hugsaði ég hana bara í tvo mánuði á ári en ferðamönnum fjölgaði, salan jókst og fljótlega var þetta orðin heilsársverslun.“

Stórt furutré í miðjum bakgarðinum á Grundarstíg var skreytt allt árið og fígúrur voru úti um allt. „Útlendingum þótti stórmerkilegt að koma í þennan blómagarð á sumrin og sjá skreytt jólatréð. Ákefðin var orðin svo mikil að við höfðum engan frið, jafnvel á kvöldin var bankað og óskað eftir að við opnum búðina. Áreitið varð til þess að við urðum að flytja verslunina og hérna höfum við gengið í gegnum ýmislegt; bankahrun, þrjú eldgos og Covid, en alltaf stöndum við vaktina.“

Anne Helen segir að verslunin hafi unnið hug og hjörtu ferðamanna. „Íslensku jólasveinarnir 13, Grýla og Leppalúði vekja sérstaka athygli. Við gefum okkur tíma til að segja sögur af þeim og þjónustulundin örvar söluna. Hún er ástæðan fyrir velgengninni í 20 ár.“ Í því sambandi nefnir Anne Helen að árin 2018 og 2019 hafi verið opið frá klukkan 10 á morgnana til klukkan níu á kvöldin alla daga. „Svo datt allt niður í Covid, en við erum farin að brosa á ný og nýliðin helgi minnti mig svolítið á árin fyrir Covid.“