[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir fæddist og ólst upp í Reykholti og á Brekkukoti í Reykholtsdal. Hún gekk í Kleppjárnsreykjaskóla og lauk þar grunnskólagöngunni.

Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir fæddist og ólst upp í Reykholti og á Brekkukoti í Reykholtsdal. Hún gekk í Kleppjárnsreykjaskóla og lauk þar grunnskólagöngunni. Þaðan lá leiðin í Menntaskólann á Akureyri þar sem hún varð stúdent af félagsvísindabraut árið 2001. „Ég hafði alltaf heyrt góðar sögur af MA og vildi prófa að búa á heimavist. Eldri bræður mínir tveir báru skólanum vel söguna og ég sé svo sannarlega ekki eftir þessari ákvörðun. Það myndast alveg gífurlega sterk sambönd á svona heimavist. Svo eru svo sterkar hefðir í MA, eins og að hittast alltaf á fimm ára fresti, og ég hitti t.d. skólafélaga bara fyrir stuttu síðan. Síðan erum við 27 stelpur úr skólanum sem hittumst mjög reglulega yfir árið í stærri og minni hópum og það er alltaf jafn gaman.“

Á meðan Halldóra Lóa var í MA vann hún ýmis störf á sumrin, m.a. sveitastörf heima á bæ foreldranna og í gróðurhúsi eitt sumar og á Hótel Reykholti tvö sumur auk þess að vinna ýmis veitingastörf með skóla á Akureyri. Á Akureyri kynntist hún síðan eiginmanni sínum, Hermanni Daða, sem var við nám í Verkmenntaskóla Akureyrar. Eftir menntaskólann vann Halldóra Lóa eitt ár á Akureyri en fór síðan suður. Þá um sumarið fór hún að vinna á Reykjalundi og ákvað í framhaldinu að fara í sjúkraþjálfaranám en fann sig ekki í því og hætti. Árið 2002 hóf hún nám við Kennaraháskóla Íslands og brauðskráðist þaðan 2006 með B. Ed.-gráðu. En alltaf var hún að vinna með og vann t.d. tvö ár í bókhaldi hjá Verði Vátryggingafélagi með fjarnámi í Kennaraháskólanum. Ári síðar innritaðist hún í diplómanám í náms- og starfsráðgjöf sem lauk 2008. Þar sem hún var búin að finna sína hillu í náminu lauk hún við MA-gráðu við sama fag árið 2013.

Árið 2005 fluttu Halldóra Lóa og Hermann Daði í Reykholt. „Ég var ekkert að plana að koma heim, þótt mér hafi alltaf liðið ákaflega vel hérna. Það varð bara til hugmynd hjá vinafólki okkar Hermanns um að flytja saman hingað og byggja saman í sveitinni. Við byggðum hlið við hlið en þau eru reyndar flutt núna. Það hefur verið virkilega gaman og gott að vera komin aftur á heimaslóðir. Ég hef alltaf verið svolítil sveitatútta í mér og elska fegurðina og kyrrðina í sveitinni.“

Fyrstu tvo veturna í Reykholti kenndi Halldóra Lóa á Kleppjárnsreykjum en fór svo í Landbúnaðarháskólann þar sem hún var náms- og starfsráðgjafi til ársins 2014 þegar hún fór yfir til Háskólans á Bifröst. Síðastliðið haust var hún ráðin kennslustjóri á Bifröst.

Þrátt fyrir að sinna krefjandi starfi og sinna fjölskyldunni finnur Halldóra Lóa sér alltaf tíma til að sinna félagsmálum. „Ég er alin svona upp. Pabbi er mikill félagsmálakarl og hans hugsjón er sú að það þurfa allir að leggja sitt af mörkum til að búa til gott samfélag. Ég fer bara svolítið með það uppeldi inn í líf mitt og fer í nemendafélögin og leiklistarfélögin í skóla og hérna heima í ungmennafélagið.“ Þá fór boltinn að rúlla og farið var að orða við Halldóru að gefa sig að stjórnmálum. Hún segist hafa lesið allt um flokkana og fann sig best hjá Vinstri grænum. „Það er margt, en líklega helst umhverfismálin, femínisminn og virðingin fyrir margbreytileikanum sem heillaði mest.“ Halldóra Lóa gekk til liðs við VG árið 2009 og var varaþingmaður Norðurvesturkjördæmis í október 2010, september 2011 og í júní og október 2012. Hún hefur verið í stjórn UMFR, verið stjórnarkona í Matís, formaður námskjaranefndar LÍN svo eitthvað sé nefnt. Núna situr hún í sveitarstjórn í Borgarbyggð auk þess að vera formaður byggðaráðs, og er í stjórn OR og Sorpurðun Vesturlands og varaformaður umhverfis- og landbúnaðarnefndar.

„Ég er mikil náttúrukona og finnst mikilvægt að reyna að lifa í sátt og samlyndi við náttúruna og reyni eftir bestu getu að vera vistvæn: flokka sorp, versla úr mínu nærumhverfi og kaupi ekki einnota hluti. En akkilesarhællinn við að búa svona úti í sveit er að það er lítið um almenningssamgöngur.“

Þegar tími gefst frá önnum hversdagsins hefur fjölskyldan gaman af því að ganga úti í náttúrunni eða hjóla á fjallahjólum. Þannig er gott að hlaða batteríin fyrir vinnuvikuna.

Fjölskylda

Eiginmaður Halldóru Lóu er Hermann Daði Hermannsson, húsasmíðameistari, f. 16.7. 1981, og þau búa í Reykholti. Foreldrar hans eru Ólöf Tryggvadóttir leikskólakennari, f. 2.6. 1958, og Hermann Skírnir Daðason sjómaður, f. 4.8. 1958. Börn Halldóru Lóu og Hermanns Daða eru Skírnir Ingi, f. 29.4.2006, og tvíburarnir Helga Laufey og Steinar Orri, f. 21.1. 2011.

Systkini Halldóru Lóu eru Guðmundur Ingi Þorvaldsson leikari, f. 25.6. 1973; Jón Þór Þorvaldsson flugstjóri, f. 29.6. 1975, og Helgi Eyleifur Þorvaldsson, sölustjóri hjá Líflandi, f. 1.10. 1988.

Foreldrar Halldóru Lóu eru hjónin Ólöf Guðmundsdóttir, f. 4.8. 1954, og Þorvaldur Jónsson, f. 1.8. 1949, bændur í Reykholtsdal.