Guðrún Ágústa Sveinbjörnsdóttir fæddist 12. september 1934 í Litlu-Ávík. Hún lést 26. desember 2020 á Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Hólmavík.

Foreldrar Guðrúnar Ágústu voru Þórdís Jóna Guðjónsdóttir, f. 20.11. 1913, d. 10.7. 2000, og Magnús Sveinbjörn Guðbrandsson, f. 15.5. 1886, d. 15.4. 1944.

Systkini:

Halla Kristinna, f. 1932, d. 1988, Sigursteinn, f. 1938, Lýður, f. 1940, d. 2018, Sigríður Anna, f. 1943, d. 2015, Sveinbjörn, f. 1944, d. 2012.

Sammæðra: Jón Guðbjörn Guðjónsson, f. 1952.

Guðrún Ágústa giftist Guðfinni Ragnari Þórólfssyni, f. 4.7. 1926, d. 1.1. 1981, bónda, sparisjóðsstjóra og landpósti. Þau giftust 10.7. 1954 og hófu búskap á Kjörvogi en fluttu svo í Árnes.

Guðrún Ágústa bjó í Árnesi frá 1956 til 1982 og flutti þá í Kaupfélagshúsið í Norðurfirði þar til hún þurfti umönnunar við í september 2019 og fór þá til Hólmavíkur.

Börn:

Þórólfur, f. 25.4. 1955, Sveindís, f 1.6. 1957, gift Hávarði Brynjari Benediktssyni, þau eiga þrjú börn og sex barnabörn.

Sigurjón, f. 18.10. 1958, d. 8.9. 2000, hann var kvæntur Sigríði Jónu Jóhannsdóttur, börn þeirra eru þrjú og eitt barnabarn.

Jóhanna, f. 2.4. 1960, gift Stefáni Sigurðssyni, þau eiga tvö börn og þrjú barnabörn.

Margrét, f. 7.4. 1962, gift Kristjáni Kristjánssyni. Margrét á tvö börn með fyrri manni, Bjarna Brynjari Ingólfssyni, og fimm barnabörn.

Guðrún, f. 27.8. 1966, gift Jóhanni Áskeli Gunnarssyni, þau eiga fimm börn og eitt barnabarn.

Guðrún Ágústa var jarðsungin frá Árneskirkju í Trékyllisvík þann 19.6. 2021.

Elsku Gústa.

Ég hef það ekki í mér að skrifa minningargrein en langar að skrifa þér bréf.

Ég þakka þér góðu stundirnar og einnig þær sorglegu.

Ég kynntist Sigurjóni, syni þínum, í des. '88 í Kjallaranum er hann sleit tölu af jakkanum mínum og ég lét hann sauma töluna á fullviss um að hann kynni ekki að festa tölu, en þetta kvöld geymdi ég nál og tvinna í töskunni minni og talan er ennþá föst. Þetta var upphafið af okkar kynnum. Þú tókst á móti mér opnum örmum.

Mín fyrsta upplifun við að hitta þig var þessi; brosið, hláturinn, glettnin og þú varst ennþá þessi bóndakona sem ég hafði lesið um í bókum, sem settist síðust við matarborðið og byrjaðir ekki sjálf að borða fyrr en allir voru búnir að fá sér. Farið í búrið, sagðirðu, þið verðið að fá ykkur eitthvað, það er nóg til. Já, þar var alltaf nóg til.

Allir hlutir voru vel nýttir. Pokar og fleira þvegið, þurrkað og nýtt. Ekki má gleyma jólagjafapokunum, þar varstu langt á undan þinni samtíð. Við hringdumst á til að leita frétta af fólkinu okkar. Þú tókst á móti okkur á sumrin fram á haust þegar leitir voru.

Svo er það handavinnan, kona góð, þú varst snillingur í höndunum alveg sama hvað þú gerðir, saumaðir, prjónaðir, málaðir á postulín eða bakaðir. Krakkarnir mínir, ég, pabbi, Mæja systir og fjölskylda fengu senda sokka frá þér um jólin. Þú varst eins og ég sagði áðan, svona sögupersóna úr gömlum sögum þar sem húsmóðirin gat allt, gerði allt og allir dáðust að. Þú komst 1-2 sinnum á ári suður að kíkja á okkur og það var alltaf gaman.

Hef oft hugsað til þín, Gústa mín, hvernig þú áorkaðir öllu sem þú gerðir, hvort sem þú varst bóndakona eða komin til Norðurfjarðar og vannst í fiskinum, Sparisjóðnum, sláturtíðinni og auðvitað með heimili, og öll handavinnan og allt hitt sem þú áorkaðir!

Dáist að þér, mín kæra Gústa!

Svo kom eitt áfallið þegar Sigurjón dó. Þú misstir manninn þinn 20 árum fyrr. Man þú sagðir við mig, að missa makann sinn væri sárt og erfitt en að missa barnið sitt sem ætti að lifa mann það væri annað. Og hvernig þú tókst á þessu skil ég ekki. Þú varst ótrúleg. Þegar við heyrðumst í símanum, ég grátandi, yfirbuguð og þú þessi sefandi kona í símanum: já, Sirrý mín, við ráðum þessu ekki, en lífið heldur áfram.

Já, lífið hélt áfram og enn héldu símhringingarnar að berast á milli okkar og við upplýstum hvor aðra um okkar nánustu. Svo fór nú að bera á krankleika hjá þér, mín kæra. Ef maður spurði þig hvernig þú værir þá sagðir þú aldrei að þér liði illa, en svörin voru kannski á þessa leið: jú, bara svona og svona, þetta er allt í lagi. En veikindin héldu áfram og þú varðst slappari og slappari og best var fyrir þig að vera á sjúkraheimilinu á Hólmavík undir eftirliti. Símtölin okkar urðu færri og færri.

Svo kom símtalið að morgni annars í jólum 2020 frá Sveindísi, að nú værir þú sofnuð svefninum langa og komin til þíns maka og sonar sem hafa tekið vel á móti þér, trúi ég.

Minningin um þig lifir í hjarta mér.

Takk fyrir að hafa eignast Sigurjón minn, föður barnanna minna.

Takk fyrir allt, elsku Gústa mín!

Kveðja

Sigríður Jóna (Sirrý).

Elsku amma,

ég held að ég hafi aldrei sagt þér að mín allra fyrsta minning á sér stað hér, heima í Norðurfirði, í eldhúsglugganum hjá þér. Litlu, þriggja ára mér, var lyft uppí gluggann til að vinka pabba. Í minningunni ert þú hjá mér, amma, mamma og Eyrún. Hvern hefði grunað að þetta yrði síðasta sinn sem við sæjum hann á lífi.

Mín önnur minning gerist nokkrum klukkustundum síðar. Við sitjum öll inni í herbergi hjá þér, höldum utan um hvert annað og grátum þessar hræðilegu fréttir.

Þrátt fyrir þessar tvær sorglegu minningar, eru allar aðrar minningar mínar héðan, og með þér elsku amma, yndislegar.

Alltaf fylltist ég yfirgnæfandi spennu þegar kom að því að fara í heimsókn til ömmu norður á Strandir. Að keyra inn á Strandinar og sérstaklega inn Norðurfjörðinn, þá finnst mér ég vera komin heim, en stór ástæða þess varst þú.

Að sjá þig bíða eftir okkur, stundum í eldhúsglugganum, stundum úti á plani, var æðislegt. Brosið þitt, hlátur og röddin fylltu mig gleði og ró. Þú áttir alltaf nóg af hinu ýmsa góðgæti og byrjaðir alltaf á því að reka okkur inn í búr eftir bita. Svo sátum við og spjölluðum um lífið og tilveruna, spiluðum og lékum okkur. Áhugasöm horfði ég á þig verka fiskinn, sem kom beint af sjónum, í eldhúsvaskinum. Betri fisk hef ég enn þann dag í dag ekki smakkað.

Þú gerðir handa okkur alls konar heimaunnið föndur, sokka og vettlinga. Þú gafst okkur jóladiska og könnu, handmálaða af þér, sem eru í uppáhaldi hjá mér.

Þú varst full af sögum og fróðleik. Ég elskaði að hlusta á þig segja frá lífinu í sveitinni. Eins og þegar þú sagðir mér frá því þegar þið genguð Naustvíkurskörð að Naustvík þar sem þið tókuð bát inn í Djúpuvík fyrir dansleiki. Síðan þá hefur mig alltaf langað að ganga þar yfir og mun gera einn daginn.

Rafn Arnar Guðjónsson deildi viðtali í vikunni sem tekið var við þig 2014. Um leið og ég kveikti á því tók á móti mér þinn ljúfi hlátur og þín blíða rödd. Þá yfirtók mig hlýja við að heyra í þér, en um leið sorg þegar ég man að ég fæ ekki að knúsa þig aftur.

Í skátahreyfingunni tölum við um að einstaklingur sem farinn er yfir móðuna miklu sé farinn heim. Nú er sál þín farin heim, þangað sem Finnur afi og pabbi hafa eflaust tekið vel á móti þér. Jarðneskar leifar þínar eru komnar heim í sveitina. Eftir lifir minning þín og ljós í hjarta okkar sem eftir sitjum.

Ég vil þakka þér fyrir allar þær stundir og minningar sem við eigum saman. Þær lifa áfram í hjarta mér.

Elsku amma,

takk fyrir mig og velkomin heim.

Hafdís Jóna

Sigurjónsdóttir.