Náðun níumenninganna er vonandi bara fyrsta skrefið

Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, tilkynnti á þriðjudaginn að ríkisstjórn hans hefði ákveðið að náða níu leiðtoga katalónskra aðskilnaðarsinna, sem dæmdir höfðu verið í 9-13 ára fangelsi fyrir þátttöku í sjálfstæðistilraunum Katalóníuhéraðs árið 2017. „Náðunin“ þýðir raunar að dómar níumenninganna verða skilorðsbundnir um ákveðinn tíma, auk þess sem að þeim verður áfram meinað að bjóða sig fram og gegna opinberum embættum.

Sanchez segir ákvörðun sína um náðun vera tilraun til þess að opna „nýjan kafla“ í samskiptum Spánar og Katalóníuhéraðs, og er ekki vanþörf á, þar sem flokkar aðskilnaðarsinna hafa styrkt stöðu sína innan héraðsins. Í héraðskosningum síðastliðinn febrúar náðu þeir í fyrsta sinn meirihlutafylgi í Katalóníu, og minnihlutastjórn Sanchez treystir á fulltrúa þeirra á spænska þinginu til að halda velli.

Hægri flokkarnir á Spáni hafa tekið höndum saman til að mótmæla ákvörðuninni, enda segja þeir níumenningana ekki hafa sýnt neina iðrun. Þá gætu náðanir þeirra orðið til þess að ýta undir enn frekari sjálfstæðistilburði Katalóna eða jafnvel innan annarra héraða Spánar og þar með ógnað einingu spænska ríkisins. Skoðanakannanir benda til þess að ríflegur meirihluti Spánverja sé ósammála náðunum níumenninganna og voru fjöldamótmæli í Madrid gegn þeim hugmyndum fyrr í mánuðinum.

En ákvörðunin hefur einnig mælst illa fyrir meðal aðskilnaðarsinna, sem telja of skammt gengið. Þar telja menn að níumenningarnir hefðu aldrei átt að vera fangelsaðir, en þess má geta að fólkinu var haldið í varðhaldi í rúmt ár áður en dómar féllu. Sú tilhögun mæltist sérstaklega illa fyrir, og gerði eflaust sitt til að auka stuðning við málstað aðskilnaðarsinna frekar en hitt. Tímasetningin þykir einnig grunsamleg, en Mannréttindadómstóll Evrópu hugðist skoða mál þriggja af sakborningunum níu.

Þá líta margir aðskilnaðarsinnar svo á, að ekki dugi að náða einungis þá, sem varpað var í fangelsi. Enn er fjöldi Katalóna í útlegð frá Spáni, þar á meðal Carles Puigdemont, sem leiddi sjálfstæðistilraunina 2017. Ekki stendur til að veita honum eða neinum öðrum sem yfirgáfu landið friðhelgi. Puigdemont segir að náðunin muni því gera næsta lítið til þess að greiða úr málum.

Það er því sótt að Sanchez úr báðum áttum vegna ákvörðunarinnar, og óvíst hvort að honum auðnist að nýta hana sem fyrsta skrefið til að leysa Katalóníumálið. Öllum skrefum í þá átt ber þó að fagna. Þó að ekki verði endilega fallist á það, að Katalónía eigi að vera sjálfstætt ríki, er brýnt að þeim óánægjuröddum, sem leitt hafa til stuðnings við þá hugmynd, verði svarað með samtali og viðræðum, ekki löngum fangelsisdómum.