Rennsli Starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar bjuggu sig undir að dæla vatni í Hvaleyrarvatn í gær. Vatnsstaðan hefur sjaldan verið jafn lág og nú.
Rennsli Starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar bjuggu sig undir að dæla vatni í Hvaleyrarvatn í gær. Vatnsstaðan hefur sjaldan verið jafn lág og nú. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Þetta er eitt helsta útivistarsvæði okkar Hafnfirðinga. Það skiptir okkur máli að vatnið sé fallegt en ekki eitt drullusvað,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Þetta er eitt helsta útivistarsvæði okkar Hafnfirðinga. Það skiptir okkur máli að vatnið sé fallegt en ekki eitt drullusvað,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði.

Starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar unnu í gær að því að dæla vatni úr nærliggjandi brunahana í Hvaleyrarvatn. Yfirborð vatnsins hefur lækkað mikið síðustu vikur eftir þurrkatíð í vor og því var tekin ákvörðun um að bregðast við til að bæta ásýnd svæðisins.

„Vatnið er mjög grunnt og uppistaðan í því er grunnvatn á svæðinu. Ef það rignir ekki þá lækkar yfirborðið. Vatnsstaðan sveiflast jafnan til en það hefur sjaldan verið jafn lítið í Hvaleyrarvatni og núna,“ segir Rósa. Hún segir að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem vatni hafi verið dælt út í Hvaleyrarvatn en komin séu mörg ár síðan það var gert síðast.

Samkvæmt upplýsingum frá Hafnarfjarðarbæ er Hvaleyrarvatn 1-2 metrar á dýpt um mitt vatnið. Það er í dalkvos sem er umvafin grágrýtishryggjum á þrjá vegu. Vatnshlíð er við norðvestanvert vatnið, Beitarhúsaháls og Húshöfði að norðaustanverðu en Kjóadalsháls og Selhöfði að austan og sunnan. Fyrir vestan vatnið er Selhraun, sem er hluti Hellnahraunsins eldra. Hraunið rann fyrir um tvö þúsund árum og kom frá gígum við Stóra-Bolla við Grindarskörð. Þegar hraunið lokaði dalnum myndaðist Hvaleyrarvatn í þessari kvos þegar grunn- og regnvatn safnaðist þar fyrir. Litlir vorlækir eru úr nálægum hlíðunum en þar er ekkert afrennsli.