Magnús Sigurgeir Jónsson fæddist á Ísafirði 29. janúar 1941. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Mörk 17. júní 2021. Foreldrar hans voru Jón Valgeir Guðmundur Magnússon sjómaður, f. 1905, d. 1951 og Sveinfríður Guðrún Hannibalsdóttir, f. 1913, d. 1998. Fósturforeldrar hans voru þau Þórunn Guðmunda Eiríksdóttir myndlistarkona, f. 1923, d. 2006 og Ingi Magnússon skrifstofumaður, f. 1930, d. 2002. Magnús átti tvö systkin, þau Guðrúnu Jónsdóttur, f 1938 og Svein Valgeir Jónsson, f. 1943, auk uppeldisbróður, Smára Ragnarssonar, f. 1954.

Hinn 16. nóvember 1963 kvæntist Magnús Þórhildi Mörtu Gunnarsdóttur framkvæmdastjóra, f. 1943, d. 2007. Foreldrar hennar voru Gunnar Ásgeirsson stórkaupmaður, f. 1917, d. 1991 og Valgerður Stefánsdóttir, f. 1919, d. 1998.

Magnús og Þórhildur eignuðust tvö börn, þau eru: 1) Valgeir Magnússon framkvæmdastjóri, f. 1968, kvæntur Silju Dögg Ósvaldsdóttur framkvæmdastjóra, f. 1969. Börn þeirra eru Hildur Eva Valgeirsdóttir, f. 1991, sambýlismaður hennar er Snorri Þórðarson, og Gunnar Ingi Valgeirsson, f. 1993 og hann á soninn Vilgeir Svan Gunnarsson, f. 2018. 2) Valgerður Magnúsdóttir verkefnastjóri, f. 1976, gift Óla Rafni Jónssyni skrifstofumanni, f. 1974. Börn þeirra eru Atli Þór Ólason, f. 2008 og Edda Sól Óladóttir, f. 2009.

Magnús gekk í grunnaskólann á Ísafirði og í Miðbæjarskóla eftir komuna til Reykjavíkur. Hann vann við löndun, blaðasölu og önnur verkamannastörf með grunnskóla. Hann var til sjós eftir grunnskólanám á síldarbátnum Völusteini. Hann vann sem handlangari með múrurum, málurum og smiðum og lauk námi í húsasmíði. Hann kynntist konu sinni Þórhildi árið 1961. Þau héldu saman til Gautaborgar í Svíþjóð árið 1964 þar sem Magnús nam byggingatæknifræði og lauk því námi árið 1967. Hann vann við byggingaeftirlit hjá Reykjavíkurborg eftir heimkomu úr námi áður en hann stofnaði teiknistofu í sínu nafni. Hann réðst til Iðnskólans í Reykjavík þar sem hann kenndi tilvonandi iðnsveinum og –meisturum þar til hann fór á eftirlaun sem kennari. Hann stofnaði ásamt fleirum Teiknistofuna Röðul og vann þar meðfram kennslu til fjölda ára. Þau hjónin stofnuðu verslunina Völustein árið 1990 og ráku þá verslun í 13 ár. Magnús teiknaði þá á sama tíma undir nafninu Teiknistofan Völusteinn og hélt því áfram uns hann hætti að teikna árið 2014.

Hann var ötull í félagsmálum og vann mikið fyrir íþróttahreyfinguna. Hann var formaður badmintondeildar Víkings, sat í stjórn Víkings, var formaður badmintonráðs Reykjavíkur fyrir ÍBR og formaður Badmintonsambands Íslands. Var margsinnis liðstjóri íslenska landsliðsins í badminton. Hann hefur verið sæmdur bæði gullmerki ÍBR og ÍSÍ. Hann gegndi m.a. formennsku hjá JC Reykjavík ásamt setu í landsstjórn JC-hreyfingarinnar og var senator. Hann var virkur Lionsmaður og var í Lionsklúbbnum Tý. Hann var einnig frímúrari og var í Glitni.

Útför Magnúsar verður frá Bústaðakirkju í dag, 25. júní 2021, og hefst athöfnin kl. 11.

Elsku pabbi.

Nú eru að verða komin fimm ár síðan ég talaði við þig, þann sem ég þekkti sem pabba. Þú hvarfst frá okkur eftir að þú slasaðist og fékkst höfuðhögg, en það sást stundum glitta í þig með glottinu þínu og þrjóskan þín var enn til staðar. Það var erfitt að sjá þig í þessari stöðu og því gleðst ég við að þú hefur loks fengið hvíldina og ert kominn til mömmu, þótt það sé alltaf sárt að kveðja.

Þú kallaðir mig alltaf tjúlluna þína og knúsaðir mig, það var þín leið til að segja mér að þú elskaðir mig eða til að segja fyrirgefðu. Við áttum oft okkar gæðastundir saman. Það var hefðin okkar að fara saman á Þorláksmessu á Laugaveginn að kaupa gjöf handa mömmu þar sem þú komst við hjá öllum happdrættisbílunum til að kaupa miða, en þú spilaðir ekki til að vinna heldur til að styrkja gott málefni og spáðir aldrei í hvort þú hefðir unnið eitthvað. Eftir bæjarferðina skreyttum við systkinin jólatréð með þér, því mamma var alltaf að vinna á þessum degi. Við horfðum líka mikið á kvikmyndir, tvö saman því mamma var alltaf svo kvöldsvæf og þá sátum við oft tvö eftir og horfðum á góðan vestra eða Bond-myndir.

Þið mamma nýttuð tímann ykkar vel og voruð alltaf með mörg járn í eldinum í vinnu, félagsmálum og fjölskyldulífi. Við systkinin fengum oft að fljóta með og taka þátt. Þið kennduð okkur dugnað, vinnusemi og að sýna frumkvæði.

Þú hafðir mikla ástríðu fyrir íþróttum og þau voru ófá skiptin sem var sussað á mann, því það var alltaf mjög mikilvægur leikur í gangi og úrslitin gátu alveg breytt stemmingunni á heimilinu, svo fékk maður námkvæmar lýsingar af leiknum þótt skilningurinn og áhuginn væri kannski ekki til staðar, en spenningurinn hjá þér var svo mikill að þú þurftir að koma þessu frá þér.

Þú áttir það oft til að dekra við mig og ef ég bað um 500 krónur þá kom yfirleitt: höfum það 1.000 krónur svo það sé öruggt að þig vanti ekki upp á. Eitt skiptið þá var ég á leiðinni í nýársfagnað og hafði fengið tvo kjóla lánaða heim til að velja á milli og átti erfitt með að ákveða mig og þá sagðir þú við mig: „Þá kaupum við bara báða kjólana.“

Stuttu eftir að ég fæddist hófu þið mamma að byggja sælureitinn okkar á Þingvöllum og þar urðu til óteljandi góðar minningar sem við munum varðveita og halda áfram að búa til fleiri. Þetta er eitt það dýrmætasta sem þið skiljið eftir fyrir okkur og minningin ykkar lifir sterkt í öllum gróðrinum sem þú gróðursettir og handverkinu ykkar mömmu.

Mamma kvaddi á hvítasunnudegi og þú á 17. júní, sem eru báðir dagar sem við vörðum yfirleitt saman á Þingvöllum. Þetta er sá staður sem ég finn sterkt fyrir nærveru ykkar og ég veit að þið munið vaka yfir okkur gleðjast yfir samverustundum fjölskyldunnar.

Takk pabbi og mamma fyrir öll tækifærin, hefðirnar og fyrir að vera góðar fyrirmyndir sem ég mun halda áfram að tileinka mér og gefa áfram til fjölskyldunnar.

Þín dóttir

Valgerður (Vala).

Hann pabbi minn er nú farinn. Hann hvarf eftir höfuðhögg fyrir fjórum árum. Ég náði því aldrei að kveðja persónuna.

Elsku pabbi minn. Ég lærði svo mikið af þér. Að smíða og reikna var líklega það praktískasta en ósérhlífni, hrokaleysi og að forðast eigingirni líklega það sem ég hef grætt mest á.

Maður velur sér ekki foreldra og ég var heppinn. Foreldrar mínir voru samrýmdir og höfðu mig mikið með í því sem þau voru að bauka. Ég var því fullnuma í JC-fræðum 12 ára, stjórnun íþróttaviðburða 14 ára og Lions- verkefnum 16 ára. Traustið var mikið og þau voru óhrædd við að leyfa mér að gera mistök. Ég sendur í sveit 7 ára og síðar tók við vera í erlendum skólum öll sumur. Þegar við Silja vorum nýlega byrjuð saman þá var útveguð vinna í Svíþjóð. Seinna áttaði maður sig á að þau voru stöðugt að byggja undir sjálfstæði og ábyrgð sem aldeilis heppnaðist. 11 ára gömlum var mér treyst fyrir því að fara einn upp á heiði á vélsleða og 12 ára fyrir hraðbáti til að æfa sjóskíði. Þau voru alltaf tilbúin ef illa færi en ég fann að mér var treyst og að ég bæri ábyrgð.

Mamma lést allt of snemma og pabbi sat einn eftir. En sem betur fer eignaðist hann vinkonu, hana Siggu, og náði því að njóta betur áranna eftir að mamma fór.

Hann fór erfiðu leiðina í gegnum æskuna og hugsaði því enn betur um sína nánustu. Hann var snillingur í að sjá til þess að aðrir blómstruðu og horfði svo á með sínu stolta glotti en sagði lítið.

Íþróttir voru hans líf. Bæði að hreyfa sig og að fylgjast með íþróttum. Ef hann varð spenntur þá hvarf hann inn í sjónvarpið. Fræg er sagan af því þegar þau hjónin bjuggu í Svíþjóð og pabbi var að horfa á tennis. Mamma þurfti að skreppa út í búð og bað hann að fylgjast með kartöflunum. Þegar hún kom til baka voru kartöflurnar orðnar að kolamolum og skaftið á pottinum lafði niður. Hún öskraði en hann sat spenntur bara með aðra rasskinnina á stólbríkinni og sussaði á hana. „Það var ekki hægt að verða reið,“ sagði mamma mín um þennan atburð. Hún gekk frá, setti upp nýjar kartöflur og sagði honum frá þessu þegar leikurinn var búinn. Seinna átti hann eftir að vinna mjög mikið fyrir íþróttahreyfinguna og þá sérstaklega að uppbyggingu badminton á Íslandi. Ég og flestir krakkar í kringum mig urðum að badmintonfólki, þar sem hann þvældist með okkur um allt í keppnisferðir öll unglingsárin mín.

Pabbi var glúrinn í að halda utan um peninga þegar þess þurfti en þegar nóg var til af þeim þá vildi hann deila þeim út. Hann keypti alltaf happdrættismiða af öllum sem seldu en gáði aldrei að vinningi. Var duglegur að safna í öllum verkefnum sem hann tók þátt í á vegum JC, Lions eða hverju sem var. En þegar þurfti þá varð hann harður. Þegar þau voru að byggja þurfti að hugsa um hverja krónu og ef mamma vildi kaupa eitthvað þá var svarið yfirleitt: „Veistu hvað þetta eru margir sementspokar?“ En það var eins og karma væri að þakka honum gjafmildina daginn sem hann dó, þá vann hann í happdrætti SÍBS.

Hann brosti stórt

en sagði fátt

Síðustu ár

Hann lifði dátt

og kvaddi í sátt

svona agnarsmár

Valgeir Magnússon.

Þann 17. júní lést tengdafaðir minn að lokum. Síðustu vikur og mánuðir voru honum erfiðir og með þökk í hjarta er hann núna kominn til Systu sem hefur beðið eftir honum með opinn faðm.

Þau hjónin tóku mér opnum örmum fyrir 35 árum síðan og ég eignaðist annað sett af foreldrum enda bara 16 ára stelpuskott sem ekkert vissi um lífið og tilveruna. Að fylgjast með samheldni þeirra og uppbyggjandi samskiptum við okkur Valla, þegar við vorum að feta okkar fyrstu skref, kenndi mér mikið og var Maggi mikil fyrirmynd. Hann var hreinn og beinn, kom sér alltaf beint að efninu og var alltaf tilbúinn til að gefa af sér og leiðbeina.

Ég var 19 ára þegar ég ákvað að læra tækniteiknun í Iðnskólanum. Þar var Maggi kennarinn minn í Mannvirkjateikningu en ég græddi ekkert á því. Þurfti helst að skila betri verkefnum en samnemendurnir því hann gerði miklar kröfur, stelpan átti að standa sig. Hann var mjög góður og þolinmóður kennari, hann var á heimavelli í kennslunni. Við hlógum mikið þegar ég eftir einn tímann spurði hvort ég mætti fá lánaðan bílinn og svarið var já. Aðrir nemendur urðu eitt spurningarmerki þangað til við sprungum úr hlátri yfir viðbrögðum þeirra. Eftir þetta rétti hann mér bara bíllyklana þegar tíminn var búinn. Ég þurfti aldrei að spyrja aftur.

Síðar vann ég með Magga í Völusteini sem þau Systa höfðu byggt upp og á tímabili vorum við þar öll. Systa, Maggi, Valli, Vala og ég. Við vorum mjög samheldin og samstarfið frábært. Að geta unnið hlið við hlið maka, mágkonu og tengdaforeldra er einstakt og ég ylja mér við minningar um góðan tíma og gleði. Undir þeirra leiðsögn lagði ég drögin að minni framtíð og menntun og fæ aldrei fullþakkað það sem ég lærði af þeim. Heiðarleikinn, vinnugleðin og hjálpsemin standa upp úr og eiga þau hjónin stóran sess í mínu hjarta um ókomin ár.

Maggi var góður afi og natinn við barnabörnin. Dagarnir sem Hildur Eva og Gunnar Ingi fengu að dvelja á Þingvöllum með ömmu og afa er dýrmætur og þar eigum við öll góðar minningar um góðan mann með græna fingur sem sinnti náttúrunni af mikilli alúð og ber skógi vaxið landið við bústaðinn þess vel merki.

Ég kveð góðan og ljúfan tengdapabba með miklu þakklæti efst í huga.

Silja.

Elsku afi minn, ég vona að þú hafir loksins fundið frið og sért kominn til ömmu Systu.

Kvöldið sem þú kvaddir upplifði ég eitthvað undarlegt. Röddin þín var í hausnum mínum að tala við mig þegar ég lagði höfuðið á koddann. Þú sagðir við mig fallega hluti sem ég er ekki vanur að hugsa um sjálfan mig.

Ég man eftir því áður en þú veiktist, að alltaf þegar þú sást mig þá heilsaðir þú mér með því að segja: „hæ gæ“.

Og þegar ég gisti hjá þér og ömmu þá bauðst þú mér góða nótt með því að strjúka á mér vangann og kallaðir mig „gullið þitt“.

Þú kallaðir mig það líka í hausnum mínum kvöldið sem þú kvaddir, alveg eins og þú gerðir þá, í sama tón. Heyri hann enn.

Ég mun alltaf hugsa til þín þegar ég er á Þingvöllum og sé tréð, sem ég kalla Magnús, sem við gróðursettum saman aðeins viku áður en þú veiktist.

Ég sakna þín og hef gert það lengi.

Hvíldu í friði, elsku afi minn.

Gunnar Ingi Valgeirsson.

Í dag kveðjum við kæran vin, sem hefur verið stór hluti af lífi okkar hjóna allt frá unglingsárum. Sú vinátta var alla tíð einstök og aldrei bar skugga á, sem er ekki sjálfgefið. Oft hleypur snurða á þráðinn, þegar fólk er nákomið og getur þá hvesst á milli manna, en aldrei þau 65 ár sem við áttum saman minnumst við þess að styggðaryrði hafi fallið.

Magnús og Örn kynntust um fermingu og ég kom inn í það vinasamband fljótlega eftir það. Þórhildur Marta Gunnarsdóttir, alltaf kölluð Systa, eiginkona Magnúsar, sem lést 2007 langt um aldur fram, bættist í hópinn nokkru síðar og varð strax yndislegur vinur, féll vel inn í hópinn. Frá þeim tíma var yfirleitt talað um okkur fjögur sem eitt. Ferðalög voru í miklu uppáhaldi hjá okkur öllum og við skoðuðum landið okkar og nutum samvista á hinum ýmsu stöðum. Við giftum okkur með 6 vikna millibili og strax eftir brúðkaup hvorra tveggja var farið í nám erlendis, við Örn til Óslóar og þau til Gautaborgar. Aðskilnaðurinn varð þó ekki mikill, því við skiptumst reglulega á heimsóknum, þegar frí gafst í skóla og vinnu um helgar, og keyrðum þá á milli. Eftir að námi lauk var farið í margar ferðir um Evrópu auk innanlandsferða og þessar samvistir frá yngri árum ylja okkur nú um hjartaræturnar, þegar við verðum að horfast í augu við að aldur færist yfir og kallið kemur í Sumarlandið.

Við Örn og fjölskylda okkar þökkum okkar kæra vini fyrir allar góðu minningarnar sem hann og Systa hans sköpuðu með okkur gegnum árin. Minningin um einstakan mann lifir í hjörtum okkar. Við sendum börnunum hans, Valla og Völu, og þeirra fjölskyldum innilegar samúðarkveðjur.

Hvíl í friði, elsku vinur.

Ragnheiður K. Karlsdóttir.

Enn heggur maðurinn með ljáinn skarð í hóp félaga og vina. Okkur félaga í Lionsklúbbnum Tý langar til að minnast í fáum orðum Magnúsar Jónssonar, sem árum saman var ötull og vel liðinn samstarfsmaður og félagi, jafnt í fjáröflun og öðru starfi klúbbsins. Týr hefur löngum alið á samheldni og vináttu félaga með þátttöku maka og barna í starfinu, svo sem í fjáröflun, en ekki síst með ferðalögum bæði innanlands og utan. Lengi vel stunduðum við útileguferðir í tjöldum, en þegar börn fóru að fullorðnast og aldur að sækja á félaga, var farið í dagsferðir eða gist á hótelum. Þau Magnús og Þórhildur Gunnarsdóttir, kona hans, létu sitt ekki eftir liggja og voru með í eftirminnilegum ferðum, svo sem í Þórsmörk þar sem tjöld féllu eða fuku í veðurofsa og rútan festist í Krossá á heimleiðinni. Eða skemmtilegri og fjörmikilli afmælisferð til Svíaríkis. Minnisstæðust er þó mörgum ferðin til Hesteyrar í Jökulfjörðum, þegar við héldum okkur vera að kveðja Magnús hinstu kveðju eftir sykursýkilost vegna gallaðra neyðarlyfja. Vökunótt án læknisaðstoðar eða símasambands. En Magnús vaknaði hress og keikur að morgni og mundi ekki eftir neinu. Þórhildur féll frá allt of snemma, en Magnús hélt ótrauður áfram starfinu með okkur og seinna með Sigríði, vinkonu sinni. Mörgum árum seinna fékk hann svo alvarlegra áfall, sem honum tókst ekki að yfirvinna og varð til þess að hann gat ekki setið fundi eða unnið að hugðarefnum klúbbsins með okkur. En eftir situr minningin um góðan dreng og dugmikinn félaga. Við sendum fjölskyldu Magnúsar alúðarkveðjur.

F.h. Lionsklúbbsins TÝS,

Björn Þorvaldsson.

Það var í JC hreyfingunni sem fundum okkar Magnúsar bar saman en hann var í hópi ungra manna og kvenna sem gerðu JC Reykjavík að stórveldi í hreyfingunni á árunum upp úr 1970 og langt fram eftir níunda áratugnum. Þar gekk maður undir mann að byggja upp stjórnunarfræðslu, færni í fundarsköpum og byggðalagsverkefnum sem gerðu hreyfinguna að því afli sem hún var. Stjórnmálamenn kepptust um að fá að vera ræðumenn á fundum og útbreiðsla hreyfingarinnar úti um allt land var í fullum gangi.

Magnús varð forseti JCR árin 1976-77 auk þess að vera öflugur leiðbeinandi á Ræðunámskeiði 2. Ég minnist þess að hafa farið með honum að leiðbeina í JC Húnabyggð á Blönduósi eina vetrarhelgi. Við gátum ekki byrjað námskeiðið á laugardeginum fyrr en að loknum mjöltum og þýddi það að við vorum seinir að leggja í Holtavörðuheiðina og það var byrjað að snjóa og komið myrkur. Magnús var að sjálfsögðu á Volvo með splittuðu drifi og tókst okkur eftir nokkurt þref að sigra heiðina. Þarna kom vel fram hversu hann var mikill jafnaðargeðsmaður og vann hann okkur hægt og örugglega í gegnum skaflana.

Það var líka á hans vakt sem fyrsta konan var tekin inn í hreyfinguna og voru ekki allir sammála en við höfðum sigur í því máli.

Fjölskyldur okkar tengdust vináttuböndum og áttum við margar góðar stundir með Magnúsi, Þórhildi, Valgeiri og Völu með okkar börnum innan lands og utan.

Magnús dró mig líka inn í starf íþróttahreyfingarinnar en eina leiðin til að fá badmintonvöll að hans sögn, var að taka sæti í stjórn badmintondeildar Víkings þar sem hann var formaður. Fljótlega eftir var kallað eftir Magnúsi til að taka við sem formaður Badmintonsambands Íslands og var ég þá allt í einu formaður deildarinnar.

Þegar Austurbakki hf. fór á markað árið 1999 var Þórhildur Gunnarsdóttir heitin kona Magnúsar kölluð til stjórnarstarfa. Hún var þá önnur tveggja kvenna til að sitja í stjórn í almenningshlutafélagi eftir því sem ég best man. Að venju stóð Magnús vel við bakið á henni þar og sem annars staðar en samband þeirra var mjög fallegt.

Nú kveðjum við seinni helminginn af hjónum sem gerðu okkar líf ánægjulegra og skemmtilegra og veittu meiri lífsfyllingu. Börnum þeirra, Valgeiri, Völu og þeirra fjölskyldum, sendum við okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Árni Þór og Guðbjörg.

Sjálfboðaliðsvinna er eitt mikilvægasta starfið sem íþróttahreyfingin á Íslandi treystir á. Leiðtogar hennar geta verið margs konar og ekki endilega á íþróttaleikvöngunum sjálfum, heldur ekki síður í störfum utan valla og flestir ólaunaðir. Magnús S. Jónsson, sem nú er fallinn frá, var einn slíkur leiðtogi.

Badmintonhreyfingin á Íslandi naut starfskrafta hans um áratuga skeið. Magnús var fyrst formaður Badmintondeildar Víkings, tók svo sæti í stjórn Badmintonsambands Íslands og gegndi m.a. starfi formanns þar um árabil. Loks tók hann að sér formennsku í Badmintonráði Reykjavíkur. Ekki er hægt að hafa tölu á öllum þeim mótum og öðrum viðburðum sem Magnús stjórnaði, eða tók þátt í undirbúningi og skipulagi á. Aldrei fékk Magnús krónu fyrir alla þá vinnu sem hann lagði af mörkum, heldur var þetta mörgum sinnum á hinn veginn. Oft þurfti hann að borga með sér, t.d. mat og ferðakostnað þegar slíkt átti við. Slíkum einstaklingum verður seint fullþakkað fyrir það sem þeir lögðu af mörkum. Við Magnús störfuðum saman í stjórn BSÍ og BRR. Margt var brallað. Við fórum saman í ferðir, erlendis og innanlands og unnum saman á mörgum badmintonmótum sem haldin voru á vegum þessara samtaka. Við buðum erlendum gestum til þátttöku í Reykjavíkurmóti í badminton, héldum boð og hátíðir við þessi tækifæri eftir því sem hægt var. Stundum fór Magnús í ferðalög með þessa gesti á Lapplander-bílnum sínum enda gaman að sýna erlendum keppendum eitthvað af landinu okkar. Þórhildur, eiginkona Magnúsar, var einnig boðin og búin að taka þátt í þessum viðburðum. Heimili þeirra stóð opið fyrir gestunum og ekki var sparað í veitingunum. Þórhildur lést árið 2007.

Magnús var ekki mikið fyrir að „trana sér fram“, en var samt alltaf trausti aðilinn við stjórnvölinn. Ekkert var gert í flýti, heldur var öllu sinnt af festu og nákvæmni. Nærvera hans var þægileg. Ekki voru gerðar miklar kröfur um aðstöðu í íþróttahúsinu, heldur notast við það sem til var. Mótsstjórnin var ekki aðalatriðið á staðnum heldur keppendurnir, og alltaf var reynt að skipuleggja mótin miðað við þeirra óskir og þarfir. Þetta voru góðar stundir, og ég minnist nú Magnúsar með þakklæti fyrir samstarfið og vináttuna á þessum árum.

Fjölskyldu Magnúsar sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Sigfús Ægir Árnason.