Aðalheiður fæddist 20. júlí 1943. Hún lést 8. júní 2021.

Útför Aðalheiðar var gerð 22. júní 2021.

Æskuvinkona okkar Aðalheiður er látin eftir erfið veikindi. Við minnumst hennar með söknuði. Við kynntumst henni sjö ára gamlar, þegar Addý hringdi dyrabjöllunni á Snorrabraut 65, í nýju grænu kápunni sinni, og spurði okkur frænkurnar hvort við vildum leika við hana. Það var auðsótt. Upp frá því urðum við þrjár góðar vinkonur, sem aldrei bar skugga á. Við urðum fljótt heimagangar á Snorrabraut 69, þar sem stórfjölskyldan hennar bjó. Addý var yngst af sínum systkinum og við frænkurnar vorum svo heppnar að næsta kynslóð var fædd í húsinu og við fengum að passa litlu börnin með henni. Eins kom hún með okkur nokkur sumur í sumarbústað í Haukadal og minntist hún oft á það með gleði.

Addý átti mjög gott með að læra og var henni margt til lista lagt. Til dæmis kunni hún heilu ljóðabálkana utanbókar, sem hún var beðin um að fara með á Snorrabraut 65, öllum til ánægju. Eins var hún mjög liðug og stundaði fimleika og við munum eftir því þegar hún fór á handahlaupum út í Þorsteinsbúð til að versla. Hún hafði einnig áhuga á skák og átti það til að banka upp á til að tefla. Addý kenndi okkur frænkunum að ferðast með strætisvögnum og okkur er minnisstætt þegar við heimsóttum hana við afgreiðslustörf í nýlenduvöruverslun í Vesturbænum.

Eftir að leið á unglingsárin fækkaði samverustundunum enda lá leið okkar hverrar í sína áttina. En er líða fór á fullorðinsárin náðum við þó saman aftur og höfum haldið vinskap okkar síðan. Addý var skemmtileg og yndisleg kona og hennar verður sárt saknað. Við vottum Gunnari og ástvinum hennar innilegustu samúð.

Blessuð sé minning Aðalheiðar Sigvaldadóttur.

Sigríður og Laufey.

Látin er Addý, mín kæra vinkona, og vil ég minnast hennar í fáum orðum.

Á þessum tímamótum kemur margt upp í hugann. Samfylgdin löng frá

barnaskóla, menntaskóla og í kennaranámi. Þannig kynntist ég vel mannkostum hennar og einstöku trygglyndi. Fjölskylda hennar á Snorrabraut var sérlega samheldin og er mér ógleymanlegt sex vikna upplestrarfrí fyrir stúdentspróf, þar sem við vinkonurnar lásum námsefnið í friði og ró uppi í risi og Guðmunda móðir hennar beið svo með hressingu í borðstofunni. Allt í föstum skorðum.

Addý var ávallt glaðlynd og var margt brallað á þessum æskuárum sem liðu hratt við leik og störf. Gæfa hennar var að kynnast Gunnari eiginmanni sínum, sem svo sannarlega hefur sýnt hvern mann hann hefur að geyma í langvarandi veikindum hennar. Þau voru einstaklega samrýnd hjón og voru oft nefnd í sama orðinu, Addý og Gunnar. Börnin og síðar barnabörnin fengu að njóta elsku og umhyggju á þeirra fallega menningarheimili.

Við Gylfi vottum Gunnari og allri fjölskyldunni samúð okkar og þökkum samfylgdina.

Valgerður Ólafsdóttir.

Í dag kveðjum við enn einn bekkjarfélagann úr D-bekk MR sem útskrifaðist 1963, Aðalheiði Sigvaldadóttur. Addý var glöð ung stúlka, vinmörg og félagslynd. Það var oft ansi kátt í bekknum okkar. Við, sum okkar, létum stundum hátt og vorum kannski ekki alltaf til fyrirmyndar en Addý hélt sínu striki, prúð og skyldurækin, en það var stutt í hláturinn.

Við bekkjarsystkinin héldum vel saman, fórum saman til útlanda, til Ítalíu margoft og sigldum milli eyja um Eyjahafið á stórfurðulegri skútu með enn skrítnari áhöfn. Þá var gaman, sólin skein og mildur vindur lék um kinnar okkar. Með vínglas í hendi var oft skálað, fyrir hvert öðru og lífinu. Ógleymanlegar og verðmætar minningar.

Addý var líka lánsöm í einkalífinu, þau lífsförunautur hennar, Gunnar, eignuðust þrjú heilbrigð börn, barnabörn og barnabarnabarn, sem veittu þeim báðum ómælda gleði. Það er óhætt að segja að Addý hafi lifað ríkulegu og hamingjuríku lífi. Alveg fram undir það síðasta sóttu þau hjón tónleika og var fallegt að fylgjast með þeirri umhyggju sem hún naut hjá Gunnari og börnum þeirra við þau tækifæri sem önnur.

En söknuðurinn ristir alltaf í hjartað og nú syrgja þau öll eiginkonu,

móður, ömmu og langömmu.

Við bekkjarsystkinin sendum þeim öllum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd D-bekkjar MR 1963,

Ingunn Ingólfsdóttir og Jón Eiríksson.

Aðalheiður móðursystir okkar er fallin frá. Á svona stundu vakna góðar minningar í samtölum okkar systkinanna. Mæður okkar voru líkar á margan hátt, gildismat þeirra, réttsýni og afstaða til lífsins var með sama hætti. Addý var yngst í stórum systkinahópi, en ávallt sjálfstæð og ákveðin og fylgdi eigin sannfæringu. Systraböndin voru sterk og allt undir hið síðasta fagnaði Addý móður okkar er þær hittust.

Addý var mikil félagsvera og naut þess að ferðast, syngja og dansa. Hún umlukti óðum stækkandi fjölskyldu sína með hlýju og væntumþykju. Addý var mikill mannþekkjari og í starfi sínu sem kennari var henni mjög annt um nemendur sína. Hún lagði mikla áherslu á að allir fyndu sér starf eða menntun við hæfi. Verknám væri jafn mikilvægt og bóknám. Mikilvægast væri að maður fyndi út hvar hæfileikarnir og áhugasviðið lægi og þannig gæti maður ræktað hæfileika sína sem best.

Þau Addý og Gunnar voru stór hluti af lífi okkar systkinanna og settu mark sitt á lífssýn okkar. Við dvöldum ófáar stundir á heimili þeirra enda börn þeirra á sama aldri og við systkinin. Það er til marks um væntumþykju okkar til þeirra að enn í dag getum við fundið lyktina og munað hvern krók og kima á heimilum þeirra, fyrst í Safamýri og síðar í Logafold. Það var ávallt sérstakt tilhlökkunarefni okkar systkinanna að koma til Reykjavíkur frá Vestmannaeyjum þar sem við bjuggum í bernsku. Á leið í bæinn var iðulega sett fram sterk krafa um að stoppa strax í Safamýrinni áður en áfangastað var náð, sem þó var ekki langt undan. Stundum var pressan slík að þetta var látið eftir okkur.

Addý og Gunnar nutu þess að ferðast og stunda útivist af ýmsu tagi og var litla systir ólík þeirri eldri að því leyti. Við systkinin nutum góðs af þessu og skíðaferðir með þeim í Bláfjöll og Skálafell eru eftirminnilegar. Fyrir tíma aukins umferðaröryggis og bílbeltanotkunar var einnig auðvelt að taka nokkur aukabörn með sér í sumarbústaðaferðir sem voru uppspretta ævintýra og gleði.

Gunnari, Önnu, Gumma, Elínu og fjölskyldum þeirra vottum við innilega samúð okkar. Það var aðdáunarvert að fylgjast með hve samhent þau voru hin síðari ár og sinntu Addý af mikilli væntumþykju og ást. Það má með sanni segja að Addý hafi notið ávaxta uppskerunnar.

Lífið er ferðalag og á kveðjustund þökkum við systkinin Addý fyrir samfylgdina, góðu stundirnar og þær erfiðu, gleðina, sönginn, hláturinn og allt það sem við fengum að njóta saman.

Ólöf Hrefna,

Guðríður Margrét og Torfi Kristjánsbörn.