50 ára Jenný fæddist á sjúkrahúsinu í Keflavík og ólst upp í Njarðvíkunum og gekk í Njarðvíkurskóla. „Þetta var lítið samfélag þar sem allir þekktu alla og það var gott að vera krakki í Njarðvíkunum.
50 ára Jenný fæddist á sjúkrahúsinu í Keflavík og ólst upp í Njarðvíkunum og gekk í Njarðvíkurskóla. „Þetta var lítið samfélag þar sem allir þekktu alla og það var gott að vera krakki í Njarðvíkunum.“ Eftir skólann fór Jenný að vinna á leikskólanum Gimli í Njarðvík, 17 ára gömul, og var þar í sjö ár. Síðan fór hún að vinna á Hæfingarstöðinni með fötluðu fólki í Keflavík í nokkur ár. Árið 1998 fór hún til Óslóar í Noregi og fór þar í Rudolf Steiner-skóla. „Það var alveg meiriháttar góður tími. Ég var þar í tvö og hálft ár en um áramótin 2001 kom ég heim, og vann um tíma hjá félagsþjónustu Reykjanesbæjar en haustið 2002 fór ég í þroskaþjálfanám og útskrifaðist 2005. Ég var búin að kynnast Arnari, manninum mínum, og eftir útskriftina fór ég að vinna í Hinu Húsinu sem var ofboðslega skemmtileg vinna.“ Næst fór Jenný til MSS á Suðurnesjum en þá tók fjölskyldan ákvörðun um að flytja til Hvammstanga þar sem Jenný er sviðsstjóri fjölskyldusviðs Húnaþings vestra. „Ég lifi svolítið eftir mottói frá Astrid Lindgren og það er að gleyma aldrei barninu í sjálfum sér. Ég reyni að hafa gaman og taka hlutina ekki of alvarlega og að Astrid skyldi segja þetta níræð finnst mér alveg magnað.“ Á myndinni er fjölskyldan ásamt skiptinemanum Telia sem var hjá þeim í eitt ár.

Fjölskylda Eiginmaður Jennýjar er Arnar Svansson, stuðningsfulltrúi í Grunnskóla Hvammstanga, f. 5.11. 1967, og þau eiga saman Eyrúni Unu, f. 2006, og Sæþór Breka, f. 2013.