Gunnlaugur Björnsson var fæddur að Hrappsstöðum í Víðidal 24. mars 1937. Hann andaðist á Heilbrigðisstofnuninni á Akranesi 9. júní 2021. Foreldrar hans voru hjónin Sigríður Jónsdóttir húsfreyja, sem ættuð var frá Gröf í Lundarreykjadal, f. 1892, d. 1972, og Björn Jósefsson, bóndi að Hrappsstöðum, f. 1896, d. 1971. Systkini Gunnlaugs eru: Tryggvi, f. 1919, d. 2001, Guðrún Ingveldur, f. 1921, d. 2001, óskírð stúlka, f. 1922, d. 1923, Jósefína, f. 1924, d. 2017, Ásgeir Bjarni, f. 1925, d. 2009, Sigurvaldi, f. 1927, d. 2009, Steinbjörn, f. 1929, d. 2019, Guðmundína Unnur, f. 1931, Álfheiður, f. 1931, d. 2012 og Sigrún Jóney, f. 1933, d. 2021. Uppeldisbróðir Gunnlaugs var Ásgeir Jóhannsson Meldal, f. 1940, d. 2004.

Árið 1966 kvæntist Gunnlaugur eftirlifandi eiginkonu sinni, Sigrúnu Þórisdóttur, f. 15. ágúst 1945. Foreldrar hennar voru hjónin Eva Karlsdóttir og Þórir Magnússon Syðri Brekku. Börn Gunnlaugs og Sigrúnar eru: 1. Eva, f. 3. apríl 1969. Maki Sverrir Berg, f. 16. september 1969. Börn þeirra eru a) Gunnlaugur, f. 12. apríl 1995 og b) Heiðrún, f. 9. janúar 1999. 2. Sigurður Björn, f. 5. nóvember 1976. Fyrrverandi eiginkona er Hrefna Samúelsdóttir, f. 15. maí 1976. Börn þeirra eru a) Ingvar Óli, f. 30. október 2002, b) Einar Örn, f. 2 mars 2006, og c) Hafþór Ingi, f. 26. október 2010. 3. Þórir Óli, f. 14. ágúst 1980.

Gunnlaugur ólst upp á Hrappsstöðum til tíu ára aldurs, en flutti þá til Akraness með foreldrum sínum. Hann var í barnaskóla á Akranesi, en á unglingsárunum tók vinnan við af skólagöngunni.

Hann vann við að beita og var á sjónum nokkrar vertíðir. Eftir að hann flutti suður kom hann norður í Víðidal á vorin og var sumarlangt hjá Ínu, systur sinni, og Hannesi, manni hennar, sem bjuggu í Galtanesi. Þegar Galtanesárunum lauk fór Gulli að vinna við brúarsmíði á sumrin.

Árið 1963 festi Gunnlaugur kaup á jörðinni Nípukoti í Víðidal og bjó þar síðan með fé og hross. Búskapurinn var honum hugleikinn og var í senn atvinna hans og áhugamál. Meðfram búskapnum stundaði hann aðra vinnu; vann á jarðýtu á sumrin og í sláturhúsinu á Hvammstanga á haustin. Árið 2011 tók Þórir Óli, sonur hans, jörðina á leigu, en áfram starfaði Gulli að búskapnum eftir því sem starfskraftar leyfðu.

Þátttaka í félagsstörfum var Gunnlaugi eðlislæg. Hann tók þátt í enduruppbyggingu Víðihlíðar, var lengi í skemmtinefnd Ungmennafélagsins Víðis og í einnig í húsnefnd Víðihlíðar. Hann var í sóknarnefnd Víðidalstungukirkju 1985-1989. Gulli var einn af stofnendum Hrossaræktarfélags Þorkelshólshrepps og sat í stjórn þess félags. Einnig var hann í Hestamannafélaginu Þyt.

Frá unga aldri fór Gunnlaugur í göngur. Hann var um árabil leitarstjóri í stóðsmölun, gangnastjóri í seinni göngum og á árunum 1988-2008 var hann gangnastjóri fyrri gangna á Víðidalstunguheiði. Gulli var áhugasamur um ástand og nýtingu heiðarinnar og átti góðar stundir fram til heiða í göngum, heiðaferðum og veiðiferðum.

Útför Gunnlaugs fer fram frá Víðidalstungukirkju í dag, 25. júní 2021, kl. 14.

Kveðja frá Einari til afa.

Ég var oft í Nípukoti og gerði þá ýmislegt með afa. Þegar ég var lítill fékk ég að vera í rúlluvélinni þegar afi var að rúlla. Mér fannst mjög gaman að fylgjast með hvernig afi stjórnaði tækjunum og rúllurnar urðu til. Ég var stundum að hjálpa afa í girðingarvinnu við að bera staura og rúlla niður neti og gaddavír. Svo vorum við oft saman að vinna í fjárhúsunum. Þegar afi var orðinn lasinn og gat ekki gert mjög mikið langaði hann samt til að fara í fjárhúsin. Þá gat hann merkt kindurnar þegar verið var að gera eitthvað í fjárhúsunum. Stundum þurfti hann að vera með hækjur og þá var ég að hjálpa honum. Afa fannst líka gaman að fara í réttirnar til að sjá kindurnar þegar þær komu af heiðinni. Einu sinni var hann á fullu að draga kindurnar, seinna stóð hann við hliðið á dilknum, fylgdist með okkur draga og hleypti kindunum inn. Afi kom alltaf til okkar á gamlárskvöld og þá fannst okkur báðum gaman að horfa á brennuna og flugeldana.

Takk fyrir samveruna, afi minn,

Einar Örn Sigurðsson.

Þá hefur Gulli frændi í Nípukoti, föðurbróðir minn, kvatt þessa jarðvist en síðustu árin voru honum erfið þegar líkamlegt þrek hans var þrotið. Hann eins og öll systkinin frá Hrappsstöðum, þekktu ekki annað en að vinna og þau skiluðu öll miklu ævistarfi. Þegar Gulli lést voru ekki liðnar nema nokkrar vikur frá því að Jóney systir hans lést og nú er einungis Unnur á lífi af þeim systkinum frá Hrappsstöðum. Gulli er einn af eftirminnilegustu og skemmtilegustu mönnum sem ég hef kynnst og umgengist um ævina. Ég var svo heppinn að eiga margar ánægjustundir með Gulla en reyndar voru allar stundir með honum ánægjustundir og það var aldrei leiðinlegt þar sem Gulli var. Stundirnar með Gulla tengdust nær allar búskap og þá aðallega göngum á Víðidalstunguheiði en ég var svo heppinn að fara í margar göngur, bæði fyrri og seinni göngur, með Gulla og var hann gangnastjóri í mörgum þeirra. Ég fullyrði að hverjar göngur með Gulla voru á við marga sálfræðitíma þó þeir geti verið góðir. Gulli vildi að menn kláruðu sína göngu og ef menn gerðu það var hann ánægður. Hann þoldi það hins vegar mjög illa ef menn stóðu sig ekki vel og hann gat ekki fyrirgefið það ef menn skildu eftir skepnur nema gildar ástæður væru fyrir því. Þegar Gulli var fyrst gagnastjóri voru ekki margar konur í göngum en þeim fjölgaði með árunum en það breytti engu hjá Gulla því hann ávarpaði gangnamenn ávallt með því að segja piltar mínir. Konurnar tóku þessu ekki illa enda tók því enginn illa sem Gulli sagði enda ekki hans háttur að tala illa til fólks eða um fólk. Gulli var mikill húmoristi og mörg gullkornin komu frá honum. Ég man eitt sinn þegar við vorum að koma úr göngum og stoppað var til að borða nesti að einn úr hópnum var að borða hrökkkex og ég sá að Gulli horfði á manninn og þótti greinilega undarlegt að menn væru að borða slíka fæðu í göngum og síðan sagði hann sjáið hvað maðurinn er að éta og þótti greinilega ekki mikið til fæðunnar koma. Enda held ég að Gulli hafi verið einn af þeim sem töldu að íslenskur þjóðlegur matur væri það eina sem menn ættu yfirleitt að leggja sér til munns. Þegar eitthvað gekk ekki eins og það átti að ganga sagði Gulli gjarnan Guð minn almáttugur og það orðatiltæki held ég að margir sem hafa umgengist Gulla noti enn þá og þar á meðal ég með Gulla frænda í huga. En það er gert með góðum huga eins og allt annað sem tengist Gulla. Ég var einnig svo heppinn að vera í heyskap með Gulla tvö sumur í Nípukoti fyrir um 40 árum. Þetta voru ein bestu sumur sem ég hef átt um ævina. Þá var aldrei lognmolla og aldrei leiðinlegt enda var návist við Gulla þá eins og alltaf sálarbót. Góðar minningar um Gulla frænda munu lifa í mínum huga og fjölda annarra um ókomna framtíð. Það léttir öllum lundina að rifja upp skemmtilegar sögur af Gulla enda eru það bara góðar sögur.

Ég sendi Sigrúnu, Evu, Sigurði Birni, Þóri Óla og barnabörnum mínar innilegustu samúðarkveðjur. Guð blessi minningu Gulla frænda.

Ingi Tryggvason.

Í dag verður nágranni minn Gunnlaugur Björnsson í Nípukoti jarðsunginn. Gulli hefur staðið mér næst alla mína ævi utan fjölskyldu. Það er stutt á milli bæjanna í „Aldingarðinum“ og var því ávallt mikill samgangur. Á meðan mjólkurframleiðsla var heima var alltaf komið af hinum bæjunum til að ná í mjólkurvörurnar sem komu með mjólkurbílnum og var þá oftast komið inn í kaffi og farið yfir það helsta sem var á döfinni og var þá ekki komið að tómum kofunum þar sem Gulli var. Hann fylgdist vel með öllu sem í hans samfélagi var að gerast, hafði metnað til að vel farnaðist og vildi leggja góðum málefnum lið. Gulli keypti ungur jörðina Nípukot í Víðidal og kom þar upp mjög myndarlegu búi. Hann helgaði jörðinni lífsstarf sitt, vann þó nokkuð á jarðýtu á yngri árum og fór lengi í sláturvinnu á haustin. Gulli var í raun athafnamaður í orðsins fyllstu merkingu, ekkert að tvínóna við hlutina heldur vildi hann þegar búið var að ákveða að gera eitthvað að í það væri bara gengið og það strax. Hann var sannur ungmennafélagsmaður, starfaði lengi í skemmtinefnd Umf. Víðis og eins sem formaður húsnefndar félagsheimilisins Víðihlíðar. Á öðrum vettvangi var hann líka mikilvirkur, hann var gangnastjóri í áratugi í göngum á Víðidalstunguheiði, sannur foringi og nýttist atorkusemin þar honum vel. Sem nágranni reyndist Gulli okkur á Þorkelshóli afskaplega vel, alltaf boðinn og búinn til að hjálpa ef aðstoðar þurfti við og var það eins og hann fyndi það á sér ef hans væri þörf. Gulli átti það til að rugla orðatiltækjum svolítið saman en var orðheppinn og átti létt með að fá hlátur að launum og hafði raunar mjög gaman af því að fá fólk til að hlæja. Margt áttum við saman að sælda sem ekki verður hér samantekið en við þessi lok okkar samveru er það fyrst og fremst þakklæti sem kemur í hug mér fyrir allt traustið, hjálpina og þægileg samskipti. Minning um góðan félaga lifir. Ykkur, Sigrún, Eva, Sigurður Björn, Þórir Óli og barnabörnunum, votta ég mína samúð og samhug.

Júlíus Guðni Antonsson.