Afmælishátíð Fríða Björk Gylfadóttir fyrir utan Frida súkkulaðikaffihúsið á Siglufirði sem hún opnaði fyrir fimm árum.
Afmælishátíð Fríða Björk Gylfadóttir fyrir utan Frida súkkulaðikaffihúsið á Siglufirði sem hún opnaði fyrir fimm árum. — Morgunblaðið/Sigurður Ægisson
Sigurður Ægisson sae@sae.is Frida súkkulaðikaffihús á Siglufirði er fimm ára í dag og verður því fagnað með þriggja daga afmælishátíð.

Sigurður Ægisson

sae@sae.is

Frida súkkulaðikaffihús á Siglufirði er fimm ára í dag og verður því fagnað með þriggja daga afmælishátíð. Kaffihúsið er fyrir löngu orðið ómissandi partur af bæjarlífinu og í raun bæði lands- og heimsþekkt, enda liggur straumurinn jafnan þangað, jafnt af heimamönnum sem aðkomnum, íslenskum og erlendum.

Ævintýrið hófst þegar eigandinn, Fríða Björk Gylfadóttir, missti vinnuna í lok árs 2015, við það að Sparisjóður Siglufjarðar rann inn í Arion banka. Þá lagði eiginmaður hennar, Unnar Már Pétursson, til að hún opnaði súkkulaðikaffihús þar sem hún var með vinnuaðstöðu og hafði verið með frá 2006, að Túngötu 40a, gegnt íbúðarhúsi þeirra hjóna, en hún er jafnframt listamaður. Hún hafði m.a. verið útnefnd Bæjarlistamaður Fjallabyggðar þetta sama ár, og hún sló til eftir nokkra umhugsun, brá sér meira að segja í nám í súkkulaðiskóla í Belgíu, til að undirbúa þetta eins vel og frekast væri unnt, og hefur verið að töfra fram súkkulaðimola af ýmsum gerðum síðan.

Í byrjun árs 2017 þurfti að ráðast í stækkun húsnæðisins, til að anna eftirspurn. Og á tveggja ára afmælinu, 25. júní árið 2018, var svo opnuð vefverslun.

Í tilefni afmælisins verða leikir og tilboð í gangi alla þrjá dagana, í dag og á sunnudag verður þar lifandi tónlistarflutningur, á morgun verða í boði léttar veitingar og á sunnudag verður frítt, heitt súkkulaði á meðan birgðir endast. Opið verður kl. 13-18.