Orka Lárus segir að skapa þurfi ákveðið svigrúm fyrir orkufyrirtækin til þess að geta ráðist í framkvæmdir.
Orka Lárus segir að skapa þurfi ákveðið svigrúm fyrir orkufyrirtækin til þess að geta ráðist í framkvæmdir. — Morgunblaðið/Einar Falur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Logi Sigurðarson logis@mbl.is

Baksvið

Logi Sigurðarson

logis@mbl.is

Lárus M. K. Ólafsson, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði hjá Samtökum iðnaðarins, segir aðildarfyrirtæki hjá samtökunum hafa áhyggjur af stöðu raforkumarkaðarins. Hann bendir á að ástandið á íslenskum markaði sé ekki nógu gott þar sem orkuskortur hækki raforkuverð. Lárus segir að skapa þurfi ákveðið svigrúm fyrir orkufyrirtækin til þess að geta ráðist í framkvæmdir, hvort sem það er stækkun eða bygging nýrra virkjana. „Við höfum verulegar áhyggjur af þróun raforkuverðs og auðvitað er ekki á bætandi ef það er einhver óvissa með framleiðslugetu sem þar af leiðandi hækkar raforkuverð. Þetta er viðvarandi og við höfum lýst yfir áhyggjum af þessu alveg óháð því hvort einhver túrbína bilaði í Reykjanesvirkjun eða hvort það sé skert lónstaða,“ segir Lárus.

Áhyggjur af flutningsgjaldskrá

Lárus segir að SI hafi einnig heyrt af áhyggjum aðildarfyrirtækja af framboði á rafmagni og hvort það muni hafa í för með sér einhverjar skerðingar á afhendingu. „Ég held að fyrirtæki og stórnotendur hafi áhyggjur af því.“

Lárus segist heyra mikið frá fyrirtækjum um hækkanir á flutningsgjaldskrá Landsnets sem hækkaði í janúar um 5,5% hjá stórnotendum og 9,9% hjá dreifisveitunum.

Svandís Hlín Karlsdóttir, viðskiptastjóri Landsnets, segir hækkunina hafa verið nauðsynlega og bendir á að flutningsgjaldskráin hafi lækkað frá 2013. Þetta hafi verið fyrsta hækkunin síðan þá.

Hún bætir við að reynt hafi verið að koma í veg fyrir hækkunina í samstarfi við stjórnvöld en það hafi ekki tekist. Svandís segir eitt af markmiðum Landsnets að halda stöðugleika í flutningsgjaldskránni. „Við vorum í þeirri stöðu að annaðhvort þurftum við að hækka gjaldskrána eða draga úr fjárfestingum og það er eitthvað sem við töldum ekki ákjósanlegt að gera. Við erum sérleyfisfyrirtæki þannig að okkur eru settar ákveðnar tekjur sem við megum hafa. Við höfum ákveðið svigrúm til þess að færa tekjur á milli ára og við vorum að vinna með stjórnvöldum í faraldrinum til að fá aukið svigrúm, bæði til þess að geta haldið áfram fjárfestingum og koma í veg fyrir hækkunina á gjaldskránni, en það náðist ekki í tæka tíð,“ segir Svandís.

9,9% hækkun verður 1-1,5%

Hún bætir við að flutningskostnaður raforku sé um 10-15% af heildar raforkuverðinu og því sé þessi 9,9% hækkun á flutningsgjaldskrá dreifiveitanna að skila sér sem 1-1,5% hækkun á rafmagnsreikningi heimilanna.

Kostnaður
» Flutningsgjaldskrá Landsnets hækkaði í janúar um 5,5% hjá stórnotendum og 9,9% hjá dreifisveitunum.
» Eitt af markmiðum Landsnets er að halda stöðugleika í flutningsgjaldskránni.
» Reynt var að fá aukið svigrúm í faraldrinum til að geta haldið áfram fjárfestingum og koma í veg fyrir hækkunina á gjaldskránni.