— Morgunblaðið/Eggert
Rétt um hálft ár er liðið frá því þrjár aurskriður féllu úr hlíðum Seyðisfjarðar og bærinn var rýmdur í heild sinni skömmu fyrir jól. Úrkoman sem féll á bæinn á tíu dögum samsvaraði úrkomu heils árs í Reykjavík.

Rétt um hálft ár er liðið frá því þrjár aurskriður féllu úr hlíðum Seyðisfjarðar og bærinn var rýmdur í heild sinni skömmu fyrir jól. Úrkoman sem féll á bæinn á tíu dögum samsvaraði úrkomu heils árs í Reykjavík. Altjón varð á mörgum húsum; heimilum, atvinnuhúsnæði og stofnunum. Veturinn var langur að sögn bæjarbúa sem blaðamaður ræddi við í gær en samhljómur er meðal þeirra um að tekið sé að létta yfir.

Hreinsunarstarf er langt komið í bænum og eflaust leikur það stórt hlutverk í þeirri tilfinningu bæjarbúa að tími sé kominn til að horfa fram á veginn. Sárin í hlíðinni eru tekin að gróa, þó þau beri enn vitni um þá krafta sem voru að verki.

Enn er mikil vinna eftir. Nýtt hættumat gerir það að verkum að ekki er hægt að búa í nokkrum húsum utarlega í firðinum, sem þó eru heil. Sum þeirra verða flutt inn í bæinn.

Það verður þó ekki hægt í tilfelli þeirra allra. Nokkur voru í útleigu og ekki hefur tekist að finna varanlegt húsnæði fyrir alla sem bjuggu í leiguhúsnæði sem rýma þurfti. Enn verður sumum Seyðfirðingum bylt við að heyra drunur sem minnt geta á hljóðin í skriðunum og sumum stendur ekki á sama þegar fer að rigna. Á blíðviðrisdegi eins og var í gær er þó erfitt að brosa ekki og líta framtíðina björtum augum. 2